Hoppa yfir valmynd
03.02.2021 Innviðaráðuneytið

Sigurður Ingi fjallaði um störf án staðsetningar á málþingi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp á málþingi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. - mynd

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra héldu í síðustu viku málþing um störf án staðsetningar undir yfirskriftinni Fólk færir störf. Sérstaklega var sjónum beint að stefnu ríkisstjórnarinnar um að 10% allra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði auglýst án staðsetningar árið 2024.

Í ræðu sinni fór Sigurður Ingi yfir stöðuna á verkefninu og sýn sína á uppbyggingu starfa án staðsetningar. „Ég man eftir því að hafa fyrir nokkru síðan lesið grein um mannauðsmál fyrirtækja þar sem rætt var við forstjóra veitingasölukeðju í Bretlandi,“ sagði Sigurður Ingi. „Það hafði vakið mikla athygli hvað viðhorf og framkoma starfsmanna keðjunnar var jákvæð og að starfsmenn hefðu hærri starfsaldur en í sambærilegum keðjum. Forstjórinn var spurður hvað olli þessu, hvernig stefna fyrirtækisins í mannauðsmálum væri frábrugðin annarra. Hann sagði að stefnan væri frekar einföld. Þau legðu sig fram um að ráða hamingjusamt fólk til starfa. Ég nefni þetta hér og nú af því að ég held að störf án staðsetningar snúist ekki aðeins um byggðamál, ekki aðeins um það að ráða þann hæfasta burtséð frá búsetu heldur ekki síst um það að fólk geti valið sér búsetu óháð starfi á stað þar sem því líður vel og í umhverfi sem gerir það hamingjusamt.“

Árið 2019 skipaði ríkisstjórnin verkefnishóp með fulltrúum allra ráðuneyta til að annast framkvæmd verkefnisins og tryggja að þau markmið sem að er stefnt náist. Verkefnisstjórn er í höndum fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. 

Í febrúar í fyrra óskað hópurinn eftir upplýsingum frá öllum ráðuneytum og stofnunum þeirra á höfuðborgarsvæðinu um heildarfjöldi starfa og þar af fjölda starfa sem geta verið án tilgreindrar staðsetningar. 

100 stofnanir af 122 skiluðu greiningu og voru niðurstöðurnar kynntar í ríkisstjórn í nýliðnum janúar. Þar kemur fram að mögulegt er að auglýsa allt að 890 störf án staðsetningar eða 13% stöðugilda þeirra stofnana sem svöruðu. Hlutfallið var mismunandi eftir ráðuneytum, hæst hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 38% og lægst hjá dómsmálaráðuneytinu, eða 2%.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta