Breytingar á reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur undirritað reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga og hefur hún tekið gildi. Breytingar á reglugerðinni eru tvíþættar.
Annars vegar er um að ræða breytingu á 3. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um reikningsskil sveitarfélaga. Samkvæmt fyrra ákvæði voru byggðasamlög, sem falla undir B-hluta, meðhöndluð á sama hátt og fyrirtæki sveitarfélags og bar sveitarfélagi því ekki að telja byggðasamlag, sem ekki er í meirihluta eigu þess, til eigna eða skulda í reikningsskilum samstæðu. Samkvæmt núgildandi ákvæði skulu byggðasamlög, sameignarfyrirtæki, sameignarfélög og önnur félagaform sem eru með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélags, færð inn í samantekin reikningsskil sveitarfélags miðað við hlutfallslega ábyrgð og skal hlutdeild sveitarfélagsins færð inn í einstökum liðum rekstar og efnahags, óháð stærð eignarhluta.
Hins vegar voru gerðar eftirfarandi uppfærslur á fylgiskjölum I og II-D við reglugerðina:
- Bókhaldslyklar endurskoðaðir með tilliti til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, og laga um húsnæðisbætur, nr. 75/2016.
- Ítarlegri leiðbeiningar við ýmsa lykla og undirlykla, t.a.m. varðandi fræðslumál, þjónustu við börn og unglinga og þjónustu við aldraða.
- Umfjöllun um samrekstur skólastiga bætt við fylgiskjal I, sbr. lög um leikskóla, nr. 90/2008, og lög um grunnskóla, nr. 91/2008.
- Hugað að uppsetningu og innri samræmingu fylgiskjals I.
- Bætt við upplýsingum í fylgiskjal II-D um sjóðstreymi reikningsskila sveitarfélaga þar sem sérstaklega skal gera grein fyrir byggingarrétti, gatnagerðargjaldi, fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og sölu íbúðarhúsnæðis.
Hægt er að skoða samanburð á eldra og nýrra fylgiskjali I hér.