Drög að endurskoðaðri stefnu í byggðamálum birt í samráðsgátt
Hvítbók um byggðamál, drög að stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára, hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar um hvítbókina en frestur til að skila umsögn er til og með 31. maí 2021.
Lögum samkvæmt skal ráðherra leggja fram endurskoðaða áætlun á að minnsta kosti þriggja ára fresti og í júní 2021 verða þrjú ár liðin frá samhljóma samþykkt Alþingis á gildandi byggðaáætlun.
Hvítbókin lýsir drögum að stefnu um byggðamál og er almenningi og haghöfum boðið að setja fram sín sjónarmið. Að afloknu samráði verður tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til fimmtán ára og aðgerðaáætlun til fimm ára lögð fyrir Alþingi.
Vinna við endurskoðun byggðaáætlunar hófst með samráðsfundi í Hafnarfirði í júní 2020 og grænbók (stöðumat) var lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda í desember sl. Samráð og samhæfing hafa verið leiðarljós í vinnu við endurskoðun byggðaáætlunar. Samráðið birtist meðal annars í fjölda funda sem haldnir hafa verið, bæði í aðdraganda grænbókar og hvítbókar.
Byggðaáætlun er lýsing á stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðalaga um land allt. Sérstök áhersla skal lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.