Hoppa yfir valmynd
02.07.2021 Innviðaráðuneytið

Tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun dreift á Alþingi

Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 hefur verið send Alþingi til dreifingar meðal þingmanna. Samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta ber ráðherra að leggja fram endurskoðaða áætlun á að minnsta kosti þriggja ára fresti, en nú í júní eru þrjú ár frá samþykkt gildandi byggðaáætlunar. Þingsályktunartillagan var ekki lögð formlega fram á Alþingi fyrir þingfrestun í júní.

Byggðaáætlun er lýsing á stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðalaga um land allt. Sérstök áhersla skal lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

Vinna við endurskoðun byggðaáætlunar hófst með samráðsfundi í Hafnarfirði í júní 2020. Grænbók (stöðumat) var lögð fram í samráðsgátt í desember sl. en hvítbók (drög að stefnu) var birt í maí sl. Samráð og samhæfing hafa verið leiðarljós í vinnu við endurskoðun byggðaáætlunar. Samráðið birtist meðal annars í fjölda funda sem haldnir hafa verið, bæði í aðdraganda stöðumats (grænbókar) og stefnudraga (hvítbókar).

Samhæfingin birtist m.a. í nánu samráði við ábyrgðaraðila annarra málaflokka ríkisins þar sem leitað var leiða til að tengja byggðaáætlun sem mest við aðrar opinberar stefnur og áætlanir. Þá var boðið upp á opið samráð á vef Byggðastofnunar og bæði grænbók og hvítbók voru lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda. Alls bárust 18 umsagnir um stöðumatið (grænbók) og 34 umsagnir um stefnudrögin (hvítbók). Umsagnirnar voru almennt jákvæðar og uppbyggilegar. Við sumum þeirra var unnt að bregðast með því að færa efni þeirra inn í hvítbók annars vegar og þingsályktunartillögu hins vegar. Tekið verður mið eftir atvikum af öðrum umsögnum í vinnu við framkvæmd byggðaáætlunar. 

Þingsályktunartillagan felur í sér fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2022-2026. Þar eru settar fram 44 aðgerðir. Margar þeirra eru framhald af aðgerðum í gildandi byggðaáætlun en aðrar eru nýjar og afrakstur þess mikla samráðs sem átti sér stað í aðdraganda tillögunnar. 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta