Hoppa yfir valmynd
06.09.2021 Innviðaráðuneytið

Starfshópur leggur til að Akureyri verði svæðisborg með skilgreinda ábyrgð

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Birgir Guðmundsson, dósent og formaður starfshópsins. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fékk síðdegis í dag afhenta skýrslu starfshóps sem var falið það verkefni að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni. Megintillaga starfshópsins er að Akureyri, með bakland í nærliggjandi svæði, verði flokkuð í byggðastefnu stjórnvalda sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu. Starfshópurinn var skipaður af ráðherra í október 2020 og átti samstarf við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, Byggðastofnun og SSNE við gerð skýrslunnar.

Í skýrslu starfshópsins segir að slík tilhögun tryggi best sjálfbæra þróun allra byggða á Norðurlandi og austur um land og skapa nýja og áhugaverða valkosti í búsetu á Íslandi og styrkja þar með samkeppnisstöðu Íslands í heild gagnvart útlöndum. Starfshópurinn leggur því til að Akureyri verði þannig sérstakt byggðastig milli höfuðborgar og stærri þéttbýliskjarna á landsbyggðunum og fái bæði aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild. Nýtt byggðastig, segir í skýrslunni, muni auk hefðbundinna hlutverka stærri þéttbýliskjarna bjóða upp á ýmsa þjónustu, mannlíf og menningu sem skarast við hlutverk höfuðborgarinnar. 

„Ég þakka starfshópnum fyrir góða fræðilega úttekt og vel mótaðar tillögur. Skýrslan er mikilvægt framlag í umræðu og aðgerðir til að efla byggðarlög og búsetu um allt land. Akureyri er höfuðból Norðurlands og gegnir þýðingarmiklu hlutverki á sínu svæði og fyrir landið allt,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.

„Ég hef í ráðherratíð minni haft þá sýn að styðja rækilega við byggðir um allt land með því að auka atvinnutækifæri og tækifæri til menntunar hringinn í kringum landið í náinni samvinnu við heimafólk. Við höfum gert þetta með fjölbreyttum fjárfestingum í gegnum öfluga byggðaáætlun en stigum einnig stórt skref á kjörtímabilinu við að efla sveitarstjórnarstigið með markvissri langtímastefnu. Við munum taka þessar tillögur starfshópsins til gaumgæfilegrar skoðunar,“ sagði Sigurður Ingi.

Níu áhersluatriði kynnt í skýrslunni

Til stuðnings við aðaltillögu sína um svæðisbundið hlutverk Akureyrar dregur starfshópurinn fram áhersluatriði í níu liðum á sviði heilbrigðismála, félagsþjónustu, menningar, menntunar, norðurslóða, raforku, samgöngumála, stjórnsýslu og öryggismála.

  • Samgöngumál: Reglulegt millilandaflugi fari í fastan farveg  sem fyrst, stjórnvöld tryggi að áframhaldandi uppbyggingu  og að framlög séu næg til að tryggja aðra flugtengingu inn í landið.   
  • Raforka: Ágreiningur um flutningsleiðir sem tryggja afhendingaröryggi verði leystur.
  • Menning: Að formfest verði með lögum, að hlutur Akureyrar í heildar framlögum til menningarmála sé í einhverju samræmi við áhrifasvæði svæðisborgarinnar og mikilvægi hennar þannig virt í verki. Þetta gæti t.a.m. falist í tvöföldun á framlögum til MAk.
  • Norðurslóðir: Skilgreind verði þau verkefni og það fjármagn sem fylgja þeirri viðurkenningu stjórnvalda að Akureyri sé miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. Háskólinn á Akureyri og stofnanir innan málaflokksins á háskólasvæðinu efli samvinnu og sýnileika.
  • Stjórnsýsla: Stjórnsýsla ríkisins verði efld á Akureyrarsvæðinu og skoðað verði að staðsetja nýja starfsemi á vegum ríkisins þar, samhliða því að haldið verði áfram á þeirri braut að skapa störf sem eru óháð staðsetningu.
  • Menntun: Háskólanum á Akureyri og framhaldsskólum á svæðinu sé tryggt nauðsynlegt fjármagn til rekstrar og aukins fjölbreytileika í námsframboði.
  • Heilbrigðismál: SAk verði gert að háskólasjúkrahúsi.
  • Félagsþjónusta: Aukið verði samstarf milli Akureyrar og annarra sveitarfélaga og unnið að víðtækari útfærslu á notkun velferðartækni á áhrifasvæði svæðisborgar. 
  • Öryggismál: Að starfsemi lögreglu (sérsveitar) verði ef efld samhliða vaxandi borgarsamfélagi og hafinn undirbúningur að byggingu eða opnun fangelsis að nýju.

Annað borgarsvæði styður dreifða byggð

Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri og formaður starfshópsins, segir í formála að skýrslan skori „á hólm þá stefnu að á Íslandi sé aðeins ein erkiborg eða eitt erkiborgarsvæði og síðan landsbyggð með smærri þéttbýliskjörnum, sem hver um sig nær ekki að búa til borgarsamfélag af því tagi sem eftirspurn er eftir. Með því að byggja upp annað borgarsvæði dreifist byggð í landinu og búseta á áhrifasvæði borgarinnar eflist, rétt eins og fólk þekkir frá höfuðborgarsvæðinu.“ 

Nánar um skýrsluna og starfshópinn

Starf hópsins fólst í að samþætta áhersluverkefni samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra um borgarhlutverk Akureyrar annars vegar og áherslur í byggðaáætlun um sjálfbæra þróun, sameiginlega stefnumörkun fyrir landshluta og sérstöðu Akureyrar sem stærsta þéttbýlis utan höfuðborgarsvæðisins.

Í skýrslunni er byggt á fræðilegum heimildum, sögulegum gögnum og könnunum og viðtölum sem voru sérstaklega tekin fyrir þetta verkefni. Hitann og þungann af þeirri vinnu bar Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri auk þess sem sérfræðingar frá Byggðastofnun og SSNE veittu ráðgjöf. Efnistök, túlkanir og tillögur eru þó á ábyrgð starfshópsins sjálfs.

Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri var formaður starfshópsins og fulltrúi ráðherra. Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, sátu í starfshópnum sem fulltrúar SSNE. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi, voru fulltrúar Akureyrarbæjar í starfshópnum.

Með hópnum störfuðu Hanna Dóra Hólm Másdóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Reinhard Reynisson, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar, Baldvin Valdemarsson, sviðsstjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá SSNE og Arnar Þór Jóhannesson og Hjalti Jóhannesson, sérfræðingar hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.

 
  • Skýrslan kynnt á Hótel Kea á Akureyri. - mynd
  • Séð yfir Akureyri frá kirkjutröppunum. - mynd

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta