Hoppa yfir valmynd
07.09.2021 Heilbrigðisráðuneytið

Staða framkvæmdaáætlunar um byggingu hjúkrunarrýma

Staða framkvæmdaáætlunar um byggingu hjúkrunarrýma og framhald til ársins 2025

Greinargerð heilbrigðisráðuneytisins, útgefin í janúar 2021.

Samantekt

Stefna heilbrigðisyfirvalda er að fólk búi heima eins lengi og mögulegt er. Þegar það er ekki lengur hægt þrátt fyrir stuðning, getur fólk sótt um færni- og heilsumat til að láta meta þörfina fyrir dvöl til langframa í hjúkrunarrými. Til að lágmarka þörf fyrir dvöl í hjúkrunarrými er öflug og fjölbreytt stuðningsþjónusta nauðsynleg.

Mikilvægt er að þjónusta við aldraða sé heildstæð og taki mið af þörfum þeirra til að geta búið sem lengst heima. Þar þarf ýmiskonar þjónusta að vera fyrir hendi m.a. öflug heilsugæsla með heimahjúkrun, dagdvöl, félagsþjónusta sveitarfélaga, þjónustuíbúðir, heilsuefling, forvarnir og fræðsla sem nauðsynlegt er að efla til að styðja við sjálfstæða búsetu aldraðra og fresta þörf fyrir flutningi á hjúkrunarheimili.

Heildarfjöldi hjúkrunarrýma á landinu er 2865 rými, bæði almenn og sérhæfð en þar að auki eru 169 dvalarrými. Flestir sem flytja inn á hjúkrunarheimili koma þangað eftir 80 ára aldur en hlutfall þess aldurshóps var um 3,4% af íbúafjölda ársins 2020.

Á framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila fram til 2024 voru alls 881 rými, þar af 622 ný rými og bætt aðstaða í 259 rýmum. Sjá má yfirlit og stöðu þessara verkefna í töflu 2.

Samkvæmt niðurstöðum þeirrar þarfagreiningar sem farið hefur fram, er ljóst að veruleg fjölgun hjúkrunarrýma nægir ekki ein og sér til að mæta þörf aldraðra fyrir þjónustu. Önnur úrræði þurfa að koma til.

Skortur á annarri þjónustu getur hæglega valdið ótímabærri stofnanavistun eldra fólks sem gæti haldið áfram sjálfstæðri búsetu, væri viðeigandi þjónusta í boði. Í samvinnu heilbrigðisráðuneytis og sambands íslenskra sveitarfélaga er unnið að kortlagningu þeirrar þjónustu sem öldruðum stendur til boða í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Ráðherra hefur ákveðið að næstu skref á framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma fram til ársins 2025 verði, auk þeirra verkefna sem þegar eru á gildandi framkvæmdaáætlun, fjölgun um 250 hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Þar að auki hefur ráðherra ákveðið að ráðist verði í framkvæmdir til úrbóta á aðbúnaði á hjúkrunarheimilinu Hjallatúni í Vík í Mýrdal sem orðið er aðkallandi verkefni til að uppfylla gildandi kröfur um skipulag hjúkrunarheimila sbr. viðmið velferðarráðuneytisins frá 2014 og skv. drögum að endurbættum viðmiðum. Fjármögnun þessara viðbótarverkefna er þó háð samþykkis Alþingis á fjármálaáætlun fram til 2026 sem afgreidd verður frá Alþingi á vormánuðum 2021.

Með framan töldum verkefnum á framkvæmdaáætlun frá 2018-2025, fjölgar hjúkrunarrýmum á þessu tímabili um 872 rými og endurbætur gerðar á 344 öðrum hjúkrunarrýmum án fjölgunar rekstrarheimilda. Með þeim framkvæmdum lækkar hlutfall fjölbýla á hjúkrunarheimilum úr 14% árið 2018 í 6,3% árið 2025.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta