Hoppa yfir valmynd
05.11.2021 Innviðaráðuneytið

Ný mannvirkjaskrá markar tímamót í upplýsingagjöf um húsnæðismarkað

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, opnuðu nýja mannvirkjaskrá í dag. Með þeim á myndinni eru Þorsteinn Arnalds og Karlottta Halldórsdóttir frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. - mynd

Ný mannvirkjaskrá var tekin formlega í gagnið hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) í hádeginu í dag. Í nýrri mannvirkjaskrá eru nákvæmar og áreiðanlegar rauntímaupplýsingar um mannvirki á Íslandi og stöðu á húsnæðismarkaði. Skráin sýnir framboð húsnæðis og það sem er í byggingu á hverjum tíma. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hleyptu vef mannvirkjaskrár formlega af stokkunum með því að fletta fyrstir uppi í skránni.

Við þetta tækifæri sagði Sigurður Ingi að ný mannvirkjaskrá myndi skapa áþreifanlegan ávinning. „Þetta er mikilvægur áfangi og mun hvort tveggja stórbæta þjónustu við almenning, sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir með aðgengi að rauntímaupplýsingum og lækka kostnað þeirra sem nýta upplýsingaveitu af þessu tagi.“

Ásmundur Einar tók undir það og sagði: „Sveiflur á fasteignamarkaði hafa verið of tíðar hér á landi í langan tíma og yfirsýn yfir markaðinn hefur vantað. Það er því til mikils að vinna að jafna þessar sveiflur og Mannvirkjaskráin er mikilvægt verkfæri til þess.“

Auðveldar yfirsýn á húsnæðismarkaði

Mannvirkjaskrá inniheldur nákvæmar upplýsingar um mannvirki á Íslandi og verður t.d. hægt að skoða fjölda íbúða í byggingu eftir byggingarstigi. Það þarf því ekki lengur að keyra um bæinn og telja húsnæði í byggingu, eins og starfsmaður Samtaka iðnaðarins hefur gert síðustu ár, heldur verður með nokkrum smellum hægt að skoða nákvæma stöðu hverju sinni á byggingarmarkaðnum. Mannvirkjaskráin mun því auðvelda yfirsýn á húsnæðismarkaði og gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum kleift að bæta áætlanagerð og koma í veg fyrir miklar framboðssveiflur með tilheyrandi verðhækkunum húsnæðis og áhrifum á verðbólgu. Þá verður í framtíðarútgáfum mannvirkjaskrár auðveldara fyrir almenning að nálgast upplýsingar sem máli skipta um það sem gerst hefur á líftíma bygginga, eins og breytingar á húsum og viðhaldssögu. Þetta mun m.a. styrkja stöðu kaupenda í fasteignaviðskiptum.

Mannvirkjaskrá er einnig mikilvægt stjórntæki á sviði eftirlits með mannvirkjagerð. Með henni verður stjórnsýsla gagnsærri og eftirlit auðveldara sem mun að mati sérfræðinga stuðla að meiri gæðum í mannvirkjagerð og þar af leiðandi gera mannvirki á Íslandi öruggari gagnvart hvers kyns tjóni, bruna eða öðru slíku.

Þetta er fyrsta útgáfa mannvirkjaskrárinnar en hún verður í mikilli þróun næstu mánuði og er búist við að því að endanleg útgáfa verði tilbúin í júní 2022.

Ánægja hjá sveitarfélögum og Samtökum iðnaðarins

Eftir að ráðherrarnir höfðu sett síðuna formlega í loftið tók Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, til máls og sagði „Ég get sagt ykkur það að þessi vefur er strax orðin nýja uppáhalds heimasíðan mín.“ Hún vísaði jafnframt til þess að nú gæti hún flett upp og séð hversu margar litlar íbúðir t.d. séu í byggingu í sveitarfélaginu, en það er algeng spurning sem hún fær sem bæjarstjóri. Þá fagnaði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, því að starfsfólk samtakanna þyrfti ekki lengur að rúnta um landið og handtelja íbúðir í byggingu. Hann sagði að það væri ekki oft sem opinber verkefni færu fram úr væntingum sínum.

Nánar um mannvirkjaskrá

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og félagsmálaráðuneytið stóðu saman að uppbyggingu nýrrar mannvirkjaskrár. HMS heldur utan um nýju mannvirkjaskrána og hefur þróað vefinn í góðu samstarfi við aðila verkefnisins. Mannvirki hafa hingað til verið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands en með þessum breytingum verður mannvirkjaskrá nú aðgreind frá öðrum hlutum fasteignaskrárinnar. Þjóðskrá mun áfram halda utan um landeignaskrá og staðfangaskrá.

Með því að taka mannvirkjaskrána í notkun fær almenningur, jafnt sem byggingaraðilar, aðgang að nákvæmum og áreiðanlegum gögnum um mannvirki á Íslandi í gegnum uppfletti- og leitarsíðu sem inniheldur helstu upplýsingar um byggingar og byggingaráfanga. Á vefnum verður meðal annars hægt að nálgast ítarupplýsingar um eiginleika, leyfi og úttektir sem hafa verið framkvæmdar á byggingum.

Kynningarmyndband

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd
  • Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. - mynd
  • Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. - mynd
  • Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins - mynd
  • Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. - mynd

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta