Sveitarstjórnum heimilað að taka ákvarðanir að nýju á fjarfundum vegna faraldursins
Vegna fjölgunar COVID-19 smita í samfélaginu hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að ákveða að sveitarstjórnarmönnum sé heimilt að taka þátt í fundum sveitarstjórna eða nefnda og ráða á vegum sveitarfélaga, þrátt fyrir að um annað sé getið í samþykktum þeirra. Heimildin gildir til 31. janúar 2022.
Þetta er gert til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga með vísan í 1. mgr. 131. gr. sveitarstjórnarlaga (nr. 138/2011). Þar er mælt fyrir um að ráðherra geti veitt sveitarstjórnum heimild að taka ákvarðanir sem fela í sér tímabundin frávik frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga og samþykkta sinna.
Með breytingum (lög 96/2021) á sveitarstjórnarlögum fyrr á árinu voru skilyrði þess að sveitarstjórnarfulltrúar gætu tekið þátt í fundum sveitarstjórna með rafrænum hætti rýmkuð. Eftir sem áður ber sveitarfélögum að mæla fyrir um rétt sveitarstjórnarmanna til að taka þátt í fundum sveitarstjórna og í nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins með rafrænum hætti, í samþykktum um stjórn sveitarfélaga. Ráðuneytið hefur gefið út uppfærða fyrirmynd að samþykkt um stjórn sveitarfélags vegna þess, sbr. 2. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga og leiðbeiningar ráðuneytisins um framkvæmd fjarfunda, nr. 1182/2021.
Ljóst er að mörgum sveitarfélögum hefur ekki gefist tími til að uppfæra samþykktir sínar vegna framangreindra breytinga. Þar sem það getur tekið tíma að breyta slíkum samþykktum, hefur ráðherra samþykkt ósk margra sveitarfélaga að halda fjarfundi í samræmi við 17. gr. sveitarstjórnarlaga og leiðbeiningar ráðuneytisins, þrátt fyrir að um annað sé getið í samþykktum þeirra.
Heimildin hefur þegar öðlast gildi og gildir til 31. janúar 2022. Á því tímabili er sveitarstjórnum heimilt að taka fyrrgreindar ákvarðanir á fundi þar sem allir fundarmenn taka þátt á fundinum með rafrænum hætti. Ráðherra veitti fyrst heimild af þessu tagi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru í mars árið 2020. Hún var framlengd í ágúst 2020, nóvember 2020, desember 2020, mars 2021 og gilti fram í júlí á þessu ári.