Hoppa yfir valmynd
13.10.2022 Innviðaráðuneytið

Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga rúmir 55,5 milljarðar árið 2021

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í dag og samhliða fundinum kom út ársskýrsla sjóðsins fyrir rekstrarárið 2021. Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu rúmlega 55,5 milljörðum króna árið 2021. 
Framlög Jöfnunarsjóðs skiptast í bundin framlög, sérstök framlög, jöfnunarframlög, jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla og jöfnunarframlög vegna málefna fatlaðra. Framlög vegna málefna fatlaðra námu rúmlega 21 milljörðum kr. á árinu en næst á eftir komu jöfnunarframlög vegna grunnskóla sem námu tæplega 14,2 milljörðum kr.

Í ávarpi sínu fjallaði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, um mikilvægt hlutverk Jöfnunarsjóðs. „Jöfnunarsjóðurinn er mikilvægt jöfnunartæki svo hægt sé að halda úti góðri grunnþjónustu án tillits til fjarlægða eða íbúafjölda. Það er mín bjargfasta trú að hagsmunir samfélagsins séu að vel sé búið að byggðum um allt land. Að hagsmunir höfuðborgarsvæðis og smærri byggða út um land séu sameiginlegir,“ sagði ráðherra. Hann nefndi einnig lögbundið hlutverk sjóðsins við að styðja við sameiningar sveitarfélaga, en fjárstuðningur nemi um einum milljarði á þessu ári og því næsta.

Ráðherra fjallaði um þýðingu sjóðsins á tímum heimsfaraldurs. „Í þeim ólgusjó gleymdist mikilvægi sjóðsins ekki. Það kom best í ljós í samningi ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál árið 2020, þar sem beinn stuðningur var 3,3 milljarðar kr. auk heimildar til að nýta einn og hálfan milljarð úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs til almennra framlaga. Þessi samningur var mikilvægur fyrir samfélagið og byggðir landsins.“ Hann benti einnig á að útsvarstekjur sveitarfélaganna hafi verið varðar í faraldrinum með því að standa vörð um atvinnutekjur með hlutabótaleiðinni.

Ráðherra upplýsti að frá því í apríl á síðasta ári hafi verið unnið að því að endurskoða regluverk sjóðsins. Regluverk sjóðsins hafi ekki tekið grundvallarbreytingum frá því að hann hóf störf og mikilvægt væri að sjóðurinn taki mið af breytingum sem orðið hafa á sveitarstjórnarstiginu. „Byggðasjónarmið hafa frá upphafi verið eitt megin leiðarstef sjóðsins og mun ég tryggja að svo verði áfram. Þá er mikilvægt regluverk sjóðsins styðji vel við sameinuð sveitarfélög sem eftir sameiningu búa við flóknar útgjaldaþarfir.“

Ráðherra fjallaði einnig um málshöfðun Reykjavíkurborgar gegn Jöfnunarsjóði sem felst í kröfu borgarinnar upp á 5,4 milljarða króna auk dráttarvaxta. Hann sagði kröfuna ekki beint að ríkissjóði heldur að Jöfnunarsjóði sjálfum og því í raun að öllum sveitarfélögum. Hann hvatti Reykjavíkurborg til að draga kröfu sína til baka en hún væri ekki til þess fallin að auka samstöðu meðal sveitarstjórnarfólks og styrkja sveitarstjórnarstigið til framtíðar. „Ég hef alltaf átt von á því að málið yrði dregið til baka en hefur ekki orðið að ósk minni. Ég hef opnað á það að gerð yrðu frávik fyrir samkomulaginu frá 1996, sérstaklega hvað varðar greiðslur vegna grunnskólanemenda með íslensku sem annað mál, en ég tel ekki eðlilegt Reykjavík sitji ein utan þess kerfis. Í þeim hugmyndum sem eru uppi um breytingar á Jöfnunarsjóði eru einnig hugmyndir sem myndu gagnast Reykjavíkurborg. Það er hins vegar ljóst að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga getur ekki verið smíðaður í kringum langfjölmennasta og öflugasta sveitarfélag landsins. Í því fælist lítill jöfnuður og byggðahlutverkinu um leið hent út um gluggann.“

Sigurður Ingi vakti loks athygli á verkefninu Römpum upp Ísland, sem Jöfnunarsjóður hafi tekið átt í með beinum fjárstyrk. Markmiðið er byggja eitt þúsund rampa um allt land á næstu fjórum árum sem gerir fólki með skerta hreyfigetu auðveldar að komast um. „Frumkvæðið hefur hugsjónamaðurinn Haraldur Þorleifsson, sem lætur ekki sitt eftir liggja í baráttu fyrir jöfnu aðgengi. Ég vil þakka Haraldi fyrir framlag hans og einnig þeim fjölmörgu sveitarfélögum og einkaaðilum sem taka þátt í Römpum upp Ísland,“ sagði hann.

Sterk staða sjóðsins

Guðni Geir Einarsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði, fór yfir störf sjóðsins á árinu 2021 og ársreikning sjóðsins. Hann sagði stöðu sjóðsins sterka. Eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi í lok árs 2021 nam 717 milljónir kr. í og þess vegna hafi ráðgjafarnefnd samþykkt að hækka útgjaldajöfnunarframlög um 400 milljónir kr. Heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu sem fyrr segir rúmlega 55,5 milljörðum kr. árið 2020 og fram kom að tekjuhalli sjóðsins hafi verið 121 milljón kr. á árinu. 

Guðni Geir sagði frá nýjum framlögum í samræmi við ný lög um samþættingu í þágu farsældar barna. Þau verða greidd til að mæta kostnaði sveitarfélaga við samþættinguna. Sjóðurinn fái framlag frá ríkissjóði árið 2022 í þessu skyni sem úthlutað yrði út til sveitarfélaga í samræmi við reglur sem mótaðar verði á næstunni.

Þá sagði Guðni Geir frá samstarfi sjóðsins við Öryrkjabandalag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga um úrbætur á aðgengismálum hjá sveitarfélögum. Sjóðurinn legði 363 milljónir kr. til verkefnisins og sveitarfélög geti sótt um að fá framlög vegna verkefna af þessu tagi. Hann upplýsti að enn væri talsverðum fjármunum óráðstafað og hvatti sveitarfélög til að nýta þetta tækifæri og sækja um.

Loks upplýsti Guðni Geir að staða Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs væri mjög sterk en handbært fé væru rúmir 3 milljarðar kr. Ásókn í sjóðinn væri ekki mikil og því væri ástæða til að skoða að minnka innstreymi í sjóðinn frá sveitarfélögum.

Þjónusta við fatlað fólk

Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur, flutti erindi á fundinum um þróun kostnaðar við þjónustu við fatlað fólk á tímabilinu 2018-2020. Fram kom í máli hans að tap sveitarfélaga vegna þjónustunnar hefði aukist talsvert á tímabilinu. Tekjur vegna þjónustunnar hefðu aukist um 13% en gjöld um 35%. Tap vegna þjónustunnar hefði þó aukist mismikið eftir þjónustusvæðum. Þau hefðu aukist hlutfallslega meira utan Reykjavíkur og hjá minni sveitarfélögum.

Haraldur sagði afar mikilvægt að auka samráð milli þjónustusvæða og sveitarfélaga um hvernig þjónusta væri veitt, samninga og rekstur. Minni sveitarfélög væru í erfiðri stöðu og hann hvatti þau eindregið til að halda áfram að eiga samstarf við stærri sveitarfélög um að veita þjónustu við fatlað fólk.

Reynsla af flutningi grunnskólans

Þá flutti Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, fyrirlestur um úttekt á þróun grunnskólans eftir aldarfjórðung hjá sveitarfélögum. Svandís sagði að skólaþjónusta í höndum sveitarfélaga hafi ekki þróast eins og væntingar voru um þegar þau tóku við henni 1996. Nú stæði skólaþjónustan á krossgötum, meðal annars vegna innleiðingar laga um samþættingu þjónustu við börn og nýrrar menntastefnu. 

Svandís sagði að oft væri spurt hvernig fámenn sveitarfélög með dreifðri búsetu ættu að vera þess megnug að standa undir skólaþjónustu. Að hennar mati væri það ekki gild spurning snúi hún að skólaþjónustunni einni. Hin gilda spurning væri hvernig fámenn sveitarfélög með dreifðri búsetu verði þess megnug að standa undir samþættri þjónustu í þágu farsældar barna. Til að svara þeirri spurningu væri ekki hægt að taka einn þátt þjónustunnar út fyrir sviga, heldur yrði að taka tillit til allra þátta þjónustunnar.

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta