Hoppa yfir valmynd
13.10.2022 Innviðaráðuneytið

Ráðherra kynnir hugmyndir til að mæta taprekstri sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2022 - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, flutti í morgun ræðu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og fjallaði ítarlega um ýmis mál, þó einkum fjármál sveitarfélaga. Ráðherra gerði sérstaklega að umtalsefni vaxandi taprekstur sveitarfélaga við þjónustu við fatlað fólk eftir yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga árið 2011. Í ræðu sinni kynnti hann m.a. hugmyndir um að hækka útsvarshlutfallið enn frekar á móti samsvarandi lækkun tekjuskattshlutfallsins.

Ráðherra rifjaði upp að við yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks hafi verið gert ráð fyrir að fjárhagsrammi þjónustu við fatlað fólk væri 10,7 milljarðar. Gert hafi verið ráð fyrir því að sveitarfélögin nytu alls ábata af hagræðingu með samþættingu við félagsþjónustu. 9,7 milljarðar kr. komu til sveitarfélaga með 1,20% hækkun á útsvarshlutfalli sveitarfélaga og 1 milljarður var veittur með beinum tímabundnum framlögum vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins, biðlista og fleiri þátta. 

Hann rifjaði einnig upp að árið 2015 hafi verið skrifað undir samkomulag og lagabreytingar sem hafi fært sveitarfélögum talsverðar viðbótartekjur og hafi rúmlega tvöfaldað tekjurnar frá því að málaflokkurinn hafi verið færður. 

Ný skýrsla starfshóps um kostnaðarþróun í málefnum fatlaðs fólks leiði á hinn bóginn í ljós að útgjöld hafi hækkað meira en tekjur á árunum 2018-2020 og útgjöldin árið 2020 hafi verið um 34 milljarðar eða meira en þreföldun á útgjöldum frá upphafi yfirfærslunnar.

Ráðherra sagði að frá árinu 2014 hafi tekjur sveitarfélaga vaxið um 31% á föstu verðlagi en tekjur ríkissjóðs dregist á sama tíma saman um 1%.

„Í ljósi þess að ágætur vöxtur hefur verið í tekjustofnum sveitarfélaga, einnig á tímabili kórónuveirufaraldursins, er ekki annað hægt að segja að sá fjárhagsvandi sem snýr að málaflokki fatlaðs fólks er ekki tekjuvandi heldur fyrst og fremst útgjaldavandi. Í því sambandi má benda á að auknar aðrar tekjur en þær sem markaðar eru málaflokknum ættu að gera þeim kleift að veita auknu fjármagni þangað, t.d. stórauknar tekjur af fasteignasköttum,“ sagði Sigurður Ingi í ræðu sinni.

Ráðherra sagði skýringar á auknum útgjöldum af ýmsum toga og vafalaust megi benda á að auknar kröfur ríkisins í gegnum lagasetningu skýri einhvern hluta þeirrar aukningar. Á móti þurfi að hafa í huga að útgjöld málaflokksins eru fyrst og fremst launakostnaður.

„Það verður þó að ætla sveitarfélögum að þau standi straum af kostnaði launahækkana sinna starfsmanna hvort sem það er í þessum málaflokki eða öðrum, enda er uppistaða tekna þeirra byggð á sköttum sem fylgja launaþróun. Þannig gæti komið til álita að hækka útsvarshlutfallið enn frekar á móti samsvarandi lækkun tekjuskattshlutfallsins sem næmi umtalsverðum hluta vandans. Eftirstandandi vandi ætti þá að vera viðráðanlegri,“ sagði Sigurður Ingi. 

Ráðherra sagði að í ljósi þess að sveitarfélög treystu nær alfarið á sjálfstæða tekjustofna væri mikilvægt að hækka tekjur þeirra fremur en að ríkið fari að leggja bein framlög inn til að fjármagna hluta af rekstri tiltekins málaflokks. Með hliðsjón af umfangi fjárhagsvandans en einnig af góðum framgangi í tekjustofnum sveitarfélaga og í ljósi þess að ætla verður sveitarfélögunum að leggja sitt af mörkum til að glíma við sinn þátt í þessum útgjaldavexti. Hann sagði að hækkun árlegra tekna sveitarfélaga um 5-6 ma.kr. ætti að vera nægilegur stuðningur að sinni til að ekki þurfi að raska þessari þjónustu á næstu misserum.

„Fyrirkomulag á þessum stuðningi gæti verið með þeim hætti að öll skattþrep í tekjuskatti ríkisins lækki um 0,26 prósentustig til að allir skattgreiðendur væru jafnsettir eftir sem áður. Í öðru lagi þyrfti í lagabreytingum að standa þannig að málum að öll hækkun útsvarsprósentunnar gangi til hækkunar á hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarstekjunum,“ sagði Sigurður Ingi í ræðu sinni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta