Hoppa yfir valmynd
16.11.2022 Innviðaráðuneytið

Nýr starfshópur um sveitarstjórnaráætlun hefur störf

Nýr starfshópur um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga hélt sinn fyrsta fund í innviðaráðuneytinu í gær. Hópnum er ætlað að skila tillögu til innviðaráðherra um stefnu stjórnvalda gagnvart sveitarfélögum til fimmtán ára 2024 til 2038 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2024 til 2028 í byrjun næsta árs. Stefnumótunin byggir á ákvæði sveitarstjórnarlaga um að ráðherra leggi fram endurskoðaða stefnu í málaflokki sveitarfélaga á þriggja ára fresti. Stefnan tekur við af fyrstu stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum sveitarfélaganna í landinu á næsta ári.

Stefán Vagn Stefánsson veitir starfshópnum formennsku fyrir hönd innviðaráðherra. Annar fulltrúi ráðherra í hópnum er Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði. Tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga eru Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður sambandsins og borgarfulltrúi, og Jón Björn Hákonarson, varaformaður sambandsins og bæjarstjóri í Fjarðabyggð. Áheyrnarfulltrúar í hópnum eru Aðalsteinn Þorsteinsson, skrifstofustjóri sveitarfélaga og byggðamála í ráðuneytinu, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins.

Fyrsta stefna og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum sveitarfélaganna fól m.a. í sér aukinn stuðning Jöfnunarsjóðs við sameiningu sveitarfélaga, átak í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga, umbætur á starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa og vinnu við fjármálaviðmið og endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga. Endurskoðun stefnumótunarinnar felur m.a. í sér víðtækt samráð við sveitarfélögin í landinu, íbúa og aðra hagsmunaaðila um stöðu sveitarfélaga, áskoranir og tækifæri til framtíðar. Á fyrsta fundi starfshópsins lagði innviðaráðherra áherslu á mikilvægi stefnumótunarinnar, sagðist hlakka til að taka á móti tillögum hópsins og óskaði honum velfarnaðar í vinnunni framundan.

Stefnt er að því að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra í mars á næsta ári.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta