Gagngerar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga kynntar í samráðsgátt
Gagngerar breytingar verða gerðar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samkvæmt tillögum sem birtar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda. Breytingarnar miða að því að styrkja jöfnunarhlutverk sjóðsins og mæta miklum breytingum sem hafa orðið í samfélaginu.
Í samráðsgátt eru hvort tveggja til umsagnar drög að skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshópsins. Frestur til að skila umsögn er til og með mánudags 27. mars 2023.
Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna. Tilgangurinn er að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna lögbundnum verkefnum. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga. Síðustu ár hafa framlög úr Jöfnunarsjóði vegið um 13% af samanlögðum heildartekjum sveitarfélaga.
Tillaga gerð um nýtt líkan
Í skýrslu sinni leggur starfshópurinn til að taka upp nýtt líkan sem leysi núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög af hólmi. Um yrði að ræða gagnsætt líkan sem sameinar fyrrgreind framlög í eitt framlag.
Starfshópurinn var jafnframt sammála um eftirfarandi breytingar á jöfnunarkerfinu:
- Nýtt jöfnunarframlag. Lagt er til að verði veitt vegna sérstakra áskorana sem skiptist í:
Framlag vegna sérstaks byggðastuðnings.
Framlag til sveitarfélaga með sérstakt höfuðstaðarálag. - Breytingar á framlögum vegna íslensku sem annað tungumál. Lagt er til að Reykjavíkurborg fá greidd framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál.
- Vannýting útsvars dregin frá framlögum. Starfshópurinn leggur til að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.
Starfshópurinn leggur til að nýtt líkan jöfnunarframlaga verði innleitt í skrefum á fjögurra ára tímabili til að stuðla megi að fyrirsjáanleika í rekstri sveitarfélaga.
Nánar um Jöfnunarsjóð
Umtalsverðar breytingar voru gerðar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árið 1990 og segja má að þá hafi sjóðurinn orðið til í núverandi mynd. Frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á sveitarfélagaskipan og hefur þeim fækkað úr 204 niður í 64. Á sama tíma hefur sjóðnum verið falin veigamikil hlutverk t.d. í tengslum við yfirfærslu grunnskólans og málefni fatlaðs fólks. Sjóðurinn starfar því í gerbreyttu umhverfi og þarf umgjörð hans að endurspegla það.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, skipaði starfshóp í janúar sl. um endurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Markmið með vinnu hópsins var að gera tillögur í því skyni að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og að sjóðurinn fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Starfshópurinn byggði á vinnu verkefnastjórnar sem innviðaráðherra skipaði í apríl 2021 um endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga.