Hoppa yfir valmynd
30.03.2023 Innviðaráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um tilfærslu verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga til ríkisins

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Með frumvarpinu eru gerðar nauðsynlegar breytingar á lögunum til að færa verkefni Innheimtustofnunar, þ.á m. innheimtu meðlaga, frá sveitarfélögum til ríkisins. Gert er ráð fyrir að sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, sem er hluti af innheimtumönnum ríkissjóðs, muni taka við verkefninu.

Markmiðið með tilfærslu verkefnanna til ríkisins er að skapa trausta umgjörð um innheimtu meðlaga og annarra framfærsluframlaga, einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, stuðla að jákvæðri þróun starfseminnar og bæta þjónustu við meðlagsgreiðendur. 

Ráðherra sagði frá því í framsöguræðu sinni að um langt skeið hafi hugmyndir verið um að færa verkefni stofnunarinnar til ríkisins. Árið 2021 hafi verkefnisstjórn verið skipuð til að annast skoðun á skipulagi og rekstri Innheimtustofnunar og í tengslum við þá vinnu hafi ráðuneytið gert samning við Ríkisendurskoðun um að framkvæma stjórnsýsluúttekt á Innheimtustofnun. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem kom út í október 2022, hafi verið lagt til að innheimtumanni ríkissjóðs yrði falin ábyrgð á innheimtu meðlaga. Einnig komi þar fram að lög um stofnunina væru ekki í takt við tímann og tækju ekki með fullnægjandi hætti á yfirumsjón og eftirliti með starfseminni. Ríkisendurskoðun hafi jafnframt bent á að verulega skorti á að skráðir verkferlar og verklagsreglur væru fyrir hendi hjá stofnuninni. Loks sagði í úttektinni að skortur á skriflegum verkferlum og kerfisbundinni vöktun með gæðastjórnunar kerfi eða viðeigandi innra eftirliti væri ámælisverður og leiða til viðvarandi áhættu á sviksemi í starfsemi stofnunarinnar.

„Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á þá augljósu hagræðingu sem í því felst að færa verkefni stofnunarinnar til innheimtumanna ríkissjóðs, þ.e. að innheimta meðlaga verði ekki í því tómarúmi sem verið hefur varðandi starfsumgjörð, ábyrgð og eftirlit. Endurskipulagning á innheimtustarfseminni og núverandi starfsumgjörð er ein og sér líkleg til að stuðla að hagræði í rekstri, bæta innheimtu, stuðla að jákvæðri þróun starfseminnar og auka þjónustu við meðlagsgreiðendur,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í framsöguræðu sinni.

Innviðaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að í ljósi langrar reynslu sýslumannsembættanna af innheimtu ýmissa opinberra gjalda og góðs árangurs innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi, sé verkefnið best staðsett hjá sýslumanninum á Norðurlandi vestra, þótt aðsetur starfsfólks verði einnig áfram á höfuðborgarsvæðinu og á Ísafirði. 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta