Framtíðarskipulag og hlutverk byggðastefnu í öryggis- og viðbúnaðarmálum
Norrænir ráðherrar byggðamála funduðu í Reykjavík í síðastliðinni viku. Þau ræddu meðal annars öryggis- og viðbúnaðarmál út frá sjónarhorni byggðaþróunar og hvernig við þurfum að aðlaga varnir okkar og verklag að þeirri vá sem við stöndum frammi fyrir sökum loftslagsbreytinga og stríða.
Dorothée Allain-Dupré, yfirmaður byggðaþróunar hjá OECD, var gestur á fundinum. Hún ræddi meðal annars um mikilvægi alþjóðlegs samstarfs í þessum málaflokki.
40 tillögur frá norrænum ungmennum
Á fundinn komu einnig fulltrúar norrænna ungmenna úr ráðgjafahópi sem settur var saman fyrir ári síðan og samanstendur af 25 norrænum ungmennum á aldrinum 18-25 ára. Markmið ráðgjafahópsins var að taka saman tillögur sem veita eiga innsýn og ýta undir lausnir og tækifæri til þess að ungt fólk vilji búa á landsbyggðinni. Á fundinum kynntu fulltrúar ráðgjafahópsins bráðbirgðatillögur sínar fyrir norrænu ráðherrunum. Tillögurnar eru alls 40 talsins og verða gefnar út og kynntar formlega fyrir ríkisstjórnum Norðurlandanna í nóvember.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sagði það búið að vera lærdómsríkt að fá betri innsýn í hvað það er sem stjórnar því hvar ungt fólk vill búa, stunda nám og vinna í framtíðinni. „Á síðustu árum höfum við reynt að hlusta eftir því hvað unga fólkið hefur að segja í tengslum við stefnumótun okkar. Það er mikilvægt að eiga samráð við unga fólkið og hlusta á sjónarmið þess í öllu starfi okkar og ákvarðanatöku um byggðamál í framtíðinni.“
Nánari upplýsingar er að finna á vef Norrænu ráðherranefndarinnar.