Hoppa yfir valmynd
13.11.2023 Innviðaráðuneytið

Ljósi varpað á veikleika fámennra sveitarfélaga

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Ekkert af tíu fámennustu sveitarfélögum á landinu sér um velferðarþjónustu við íbúa upp á eigin spýtur. Aðeins þrjú þeirra reka sjálf grunn- og leikskóla. Því er mun algengara að viðkomandi sveitarstjórn hafi samið við sveitarstjórn annars sveitarfélags um veitingu þjónustunnar eða tekið sig saman með öðrum sveitarstjórnum um veitingu hennar í gegnum byggðasamlag að því er fram kemur í umsögnum innviðaráðuneytisins um álit sveitarfélaga með undir 250 íbúa.

Í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga um 1.000 íbúa lágmark í sveitarfélögum fór innviðaráðuneytið fram á að sveitarstjórnir tíu sveitarfélaga með innan við 250 íbúa skiluðu áliti um getu sveitarfélaganna til að sinna lögbundnum verkefnum og kosti sameininga eigi síðar en 14. maí 2023. Ráðuneytið sendi sveitarstjórnum sveitarfélaganna umsögn sína um álitin til kynningar fyrir íbúa þann 25. september síðastliðinn.

Umsagnirnar varpa í senn ljósi á ýmsa veikleika sveitarfélaganna og tækifæri í tengslum við sameiningar. Sem dæmi er hægt að nefna að íbúasamsetning sjö sveitarfélaga af tíu er ekki talin tryggja náttúrulega fjölgun innan viðkomandi sveitarfélaga. Með sama hætti er ljóst að mörg sveitarfélaganna ættu í erfiðleikum með að taka á móti íbúum með flókna þjónustuþörf, meðal annars vegna skorts á sérfræðingum og nauðsynlegum innviðum.

Rekstur sveitarfélaganna er fremur óhagstæður í samanburði við önnur sveitarfélög. Eigin tekjur þeirra eru að jafnaði heldur lægri heldur en tekjur annarra sveitarfélaga. Með tekjum úr Jöfnunarsjóði eru tekjurnar heldur hærri en tekjur sveitarfélaga að jafnaði. Engu að síður er fjárhagur þeirra flestra frekar þröngur. Vegur þar þyngst hár rekstrarkostnaður á hvern íbúa.

Ráðuneytið bendir á að ýmis tækifæri felist í sameiningu sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög. Öflugri stjórnsýsla fjölmennara sveitarfélags hefði meiri slagkraft til að standa að veitingu þjónustu innan sveitarfélagsins sjálfs. Með því væri í senn stuðlað að auknum áhrifum íbúa á mótun þjónustunnar, skýrari ábyrgð og hagkvæmni í rekstri. Þannig væri lagður grunnur að því að efla þjónustu, lækka útsvar og/eða byggja upp innviði í sveitarfélaginu.

Í framhaldi af opinberri kynningu á áliti um stöðu sveitarfélagsins og umsögn ráðuneytisins ber sveitarstjórn að eiga tvær umræður um hvort hefja eigi sameiningarviðræður við annað eða önnur sveitarfélög. Ef tekin er ákvörðun um að hefja ekki sameiningarviðræður geta minnst 10% kosningabærra íbúa óskað almennrar atkvæðagreiðslu um ákvörðun sveitarstjórnarinnar hafi slík atkvæðagreiðsla ekki þegar farið fram. Sveitarstjórn skal verða við ósk íbúa eigi síðar en innan sex mánaða frá því að hún berst og er niðurstaða atkvæðagreiðslunnar bindandi fyrir sveitarstjórn.

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta