Hoppa yfir valmynd

Gildissvið húsaleigulaga

Fjallað er um gildissvið húsaleigulaga nr. 36/1994 í 1. gr. laganna.

Lögin gilda um

Húsaleigulögin gilda um leigusamninga um afnot af húsnæði eða hluta af húsnæði gegn endurgjaldi, þar á meðal leigusamninga um framleigu húsnæðis, enda þótt endurgjaldið skuli að öllu leyti eða að hluta greiðast með öðru en peningum, svo sem vinnuframlagi. Lögin gilda um afnot húsnæðis samkvæmt vinnusamningi eða viðauka við slíkan samning. Þá gilda lögin um samninga sem ásamt öðru eru um afnot húsnæðis gegn endurgjaldi að því tilskildu að sá þáttur sé meginatriði þeirra. Sé leigusamningur um land sem nýta á í tengslum við afnot af húsnæði skal einnig fara um slíkan samning samkvæmt lögunum nema um landbúnaðarafnot sé að ræða.

Leigusamningar geta tekið til leigu á íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði og öðru húsnæði. Sé húsnæði bæði leigt til íbúðar og til annarra nota gilda ákvæði laganna um íbúðarhúsnæði um slíka leigusamninga. Ákvæði laganna sem samkvæmt orðanna hljóðan gilda um íbúðarhúsnæði gilda um atvinnuhúsnæði eftir því sem við getur átt og að því leyti sem lögin hafa ekki að geyma sérreglur um atvinnuhúsnæði.

Lögin gilda ekki um

Húsaleigulög gilda ekki um samninga um afnot húsnæðis samkvæmt lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög, og lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þá gilda lögin hvorki um leigu á íþróttasölum og geymsluhúsnæði þegar leigutími er skemmri en ein vika né um samninga um afnot húsnæðis sem sérreglur gilda um samkvæmt öðrum lögum.

Íbúðarhúsnæði

Það er meginregla að ákvæði laganna um íbúðarhúsnæði séu ófrávíkjanleg hvað varðar réttindi og skyldur leigjanda. Réttindi leigjanda eru samkvæmt lögunum lágmarksréttindi og skyldur hans hámarksskyldur. Óheimilt er því að semja um að leigjandi íbúðarhúsnæðis taki á sig ríkari skyldur og öðlist minni réttindi en lögin mæla fyrir um nema ákvæði laganna hafa að geyma sérstök frávik þess efnis. Með samningi verða réttindi hans hvorki rýrð né skyldur hans auknar. Hins vegar er hægt að semja um aukinn rétt og minni skyldur leigjanda en fram kemur í lögunum.

Heimilt er þó að víkja frá einstökum ákvæðum laganna með samningi þegar um leigu íbúðarhúsnæðis á áfangaheimili er að ræða eða leigu íbúðarhúsnæðis til námsmanna á vegum lögaðila sem ekki er rekinn í hagnaðarskyni og hefur þjónustu við námsmenn að meginmarkmiði.

Atvinnuhúsnæði

Ákvæði laganna um atvinnuhúsnæði eru frávíkjanleg og gilda þau því aðeins um slíkt húsnæði ef ekki er um annað samið.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta