Hoppa yfir valmynd

Leigusamningar, leigutími og forgangsréttur leigjenda

Leigusamningar

Leigusamningar um húsnæði eiga að vera skriflegir. Einnig eiga allar breytingar á leigusamningi eða viðbætur við hann, sem heimilar eru samkvæmt húsaleigulögum, að vera skriflegar og undirritaðar af aðilum samningsins.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefur út eyðublöð á rafrænu formi er varða húsaleigusamninga og úttektaryfirlýsingu. Hægt er að fylla inní eyðublöðin og prenta þau út til undirritunar. Þá er hægt að skoða sýnishorn af tilkynningum sem samningsaðilar geta sent sín á milli.

Húsaleigusamningur þarf að vera í tveimur samhljóða eintökum leigjenda og leigusala. Eigi að þinglýsa samningi þarf að auki eitt eintak á löggiltum skjalapappír.

Hafi leigusamningi verið þinglýst skal leigjandi láta aflýsa honum þegar leigutíma lýkur. Hafi hann ekki látið gera það í síðasta lagi innan viku þar frá skal honum aflýst að kröfu leigusala.

Fjallað er um leigusamninga í II. kafla húsaleigulaga.

Leigutími

Húsaleigusamningar geta verið tvennskonar, tímabundnir og ótímabundnir.

Tímabundinn leigusamningur

Tímabundnum leigusamningi lýkur á umsömdum degi án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila.

Ótímabundinn leigusamningur

Leigusamningur telst ótímabundinn nema um annað sé ótvírætt samið. Hafi aðilar vanrækt að gera skriflegan samning þá teljast þeir hafa gert ótímabundinn leigusamning. Upphæð leigunnar ákveðst þá sú fjárhæð sem leigusali getur sýnt fram á að leigjandi hafi samþykkt.

Forgangsréttur leigjanda

Meginreglan er sú að leigjandi íbúðarhúsnæðis skal að umsömdum leigutíma loknum hafa forgangsrétt til leigu þess ef leigusali hyggst leigja húsnæðið áfram í a.m.k. eitt ár. Forgangsrétturinn nær bæði til tímabundna og ótímabundna leigusamninga. Undantekningar frá forgangsrétti leigjandi eru í 51. gr. húsaleigulaga. Leigjandi sem vill nýta sér forgangsréttinn þarf að tilkynna leigusala það skriflega og með sannanlegum hætti a.m.k. þremur mánuðum áður en leigusamningurinn rennur út við lok uppsagnarfrests eða við lok umsamins leigutíma, annars fellur forgangsrétturinn niður.

Fjallað er um forgangsrétt leigjanda í X. kafla húsaleigulaga.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta