Húsnæðisstefna 2024-2038
Húsnæðisstefna til fimmtán ára (2024-2038) og aðgerðaáætlun til fimm ára (2024-2028) var samþykkt á Alþingi sumarið 2024. Var það í fyrsta sinn sem sett er fram heildstæð langtímastefna í húsnæðismálum á landsvísu.
Húsnæðisstefnan byggist á eftirfarandi framtíðarsýn:
„Stöðugleiki ríki á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mætir þörf í jafnvægi við umhverfið. Öllum er tryggt öruggt og gott húsnæði í blandaðri byggð og húsnæðiskostnaður þeirra er viðráðanlegur.“
Markmið húsnæðisstefnu eru fjórþætt:
- Jafnvægi á húsnæðismarkaði
- Skilvirkari stjórnsýsla og gæði íbúða í jafnvægi við umhverfið
- Húsnæðisöryggi og jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum
- Framboð íbúða stuðli að virkum vinnumarkaði um land allt
Settar eru fram 46 aðgerðir í fimm ára aðgerðaáætlun 2024-2028.
- Húsnæðisstefna fyrir árin 2024–2038 (ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028)
Fjölbreytt húsnæði mæti þörf
Tryggja þarf framboð á fjölbreyttu húsnæði sem endurspeglar íbúðaþörf mismunandi félagshópa . Íbúðauppbygging þarf að byggjast á áreiðanlegum upplýsingum um íbúðaþörf samkvæmt mannfjöldaspá og fyrirhugaða uppbyggingu hverju sinni. Festa þarf í sessi öflugt samstarf ríkis og sveitarfélaga til að tryggja framboð byggingarhæfra lóða, nauðsynlegt skipulag og innviði undir stöðuga íbúðauppbyggingu.
Gæði húsnæðis
Gæði húsnæðis felast ekki einungis í að húsnæði sé öruggt, heilnæmt og vandað, heldur einnig sjálfbært, aðlaðandi og vel hannað, m.a. með tilliti til grunngæða húsnæðis, s.s. dagsbirtu, hreins lofts, góðrar hljóðvistar, aðgengis, góðs skipulags og skilvirkni og að húsnæði uppfylli rýmisþörf daglegra athafna og tengingar hins byggða umhverfis við græn svæði og göngu- og hjólastíga. Skapa þarf skilyrði til að slíkt húsnæði standi öllum til boða, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, m.a. með blöndun byggðar.
Blöndun byggðar
Tryggja þarf blöndun byggðar til að stuðla að félagslegri blöndun og jöfnuði. Mæta þarf íbúðaþörf einstakra félagshópa sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði og öðrum þörfum þeirra þegar kemur að húsnæði. Í því sambandi þarf m.a. að horfa til þarfa leigjenda, fyrstu kaupenda, ungs fólks, námsmanna, tekju- og eignaminna fólks á vinnumarkaði, einstæðra foreldra og þeirra sem búa ein, aldraðs fólks, flóttafólks og annarra innflytjenda, fatlaðs fólks, skjólstæðinga félagsþjónustunnar, heimilislauss fólks og fólks sem býr í óviðunandi húsnæði.
Regluverk styðji við uppbyggingu
Mikilvægt er að regluverk og framkvæmd í skipulags- og byggingarmálum styðji við uppbyggingu íbúða og tryggi öryggi og gæði mannvirkjagerðar á sem skilvirkastan hátt, m.a. til að stytta þann tíma sem tekur að byggja húsnæði og lækka byggingarkostnað. Jafnframt er mikilvægt að laga mannvirkjagerð að sýn og markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og auðvelda innleiðingu vistvænnar mannvirkjagerðar á Íslandi. Þá þarf að huga að öðrum þáttum í mannvirkjagerð til að bæta gæði, öryggi og hagkvæmni við íbúðauppbyggingu, s.s. með rannsóknum og þróun, og stuðla að aukinni samkeppnishæfni og framleiðni á byggingarmarkaði.
Bætt húsnæðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum
Auka þarf húsnæðisöryggi þeirra sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði og stuðla þannig að jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum og félagslegum jöfnuði. Skapa þarf skilyrði til að öll hafi aðgengi að góðu og öruggu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði sem hentar mismunandi þörfum. Með öruggu og góðu húsnæði er m.a. vísað til fyrrnefndra grunngæða húsnæðis og lykilþátta húsnæðisöryggis, s.s. tryggt, heilnæmt og varanlegt húsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur á viðráðanlegu verði þannig að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu. Við mat á húsnæðisöryggi er því ekki síst horft til byrði húsnæðiskostnaðar, ástands húsnæðis, þröngbýlis og stöðugleika í búsetu.
Húsnæðisstuðningur stjórnvalda
Beita þarf húsnæðisstuðningi stjórnvalda með markvissum hætti til að stuðla að auknu húsnæðisöryggi en einnig til að draga úr hagsveiflum. Þá þarf að beina húsnæðisstuðningi í auknum mæli í íbúðauppbyggingu og afmarka húsnæðisstuðning á eftirspurnarhliðinni betur við þau sem þurfa á stuðningi að halda, þ.e. þau sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði. Er þar átt við tekju- og eignalægri einstaklinga og fjölskyldur, fyrstu kaupendur, heimili með þunga framfærslubyrði og þau sem búa við markaðsbrest á húsnæðismarkaði.
Miklar fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu
Unnið er að uppfærslu á forsendum samgöngusáttmála og að gera viðauka við hann. Í tillögunni er því gerður fyrirvari á framkvæmdatöflu sáttmálans. Viðbúið er að niðurstöður viðræðuhóps ríkis og sveitarfélaga um málið muni hafa áhrif á hana. Í tillögunni er fjármagn til undirbúnings Sundabrautar tryggt, en gert er ráð fyrir að framkvæmdir við brautina hefjist árið 2026 og að hún opni fyrir umferð 2031. Brautin verði framkvæmd og fjármögnuð sem samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila.
Skýr áhersla á umhverfis- og loftslagsmál
Í tillögunni segir að endurnýjun á ferjum ríkisins sé brýn og að á fyrri hluta tímabilsins þurfi að undirbúa og hanna það skip sem næst verður endurnýjað og huga þarf að útskiptum á orkugjöfum. Þá verður þjónusta almenningssamgangna efld, svo sem með aukinni samþættingu leiðakerfa á landi, lofti og sjó og innleiðingu sameiginlegrar upplýsingagáttar auk þess sem unnið skal að því að auka möguleika á virkum ferðamátum með framkvæmdum við göngu- og hjólastíga um land allt. Þróun hágæðaalmenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, Borgarlínu, ásamt nýju stofnleiðakerfi hjólreiða verður lykilþáttur í þróun svæðisins í átt að sjálfbærara borgarsamfélagi. Þá er hafin vinna við mótun vegvísis að vistvænum samgöngum á Íslandi til ársins 2030 með skilgreindum og tímasettum aðgerðum sem miði að því að markmiðum um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda miðað við 2005 verði náð.
Húsnæðisuppbygging á landsbyggðinni
Virkja þarf húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni með húsnæðisuppbyggingu til að rjúfa stöðnun og styðja við öflug atvinnusvæði um land allt. Virkur húsnæðismarkaður gerir fólki kleift að flytjast á milli staða vegna atvinnutækifæra. Sveigjanlegir húsnæðiskostir þurfa að standa til boða sem henta þörfum fólks og fyrirtækja og krefjast ekki jafn mikillar skuldbindingar og íbúðarkaup. Húsnæðismarkaður sem býður upp á valkosti sem henta fjölbreyttum hópi starfsfólk styður við það markmið. Aukið frelsi fólks að fara á milli atvinnusvæða eykur samkeppnishæfni Íslands.
Í húsnæðisstefnunni eru tilgreind átta lykilviðfangsefni til að takast á við áskoranir á sviði húsnæðismála:
- Stöðugleiki á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf.
- Skilvirk stjórnsýslu á sviði húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála.
- Greinargóðar upplýsingar um húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmál byggðum á áreiðanlegum tæknilegum innviðum.
- Húsnæðisöryggi og jafnrétti landsmanna í húsnæðismálum með félagslegum jöfnuði og blöndun byggðar.
- Sérhæfðar lausnir til að mæta áskorunum á landsbyggðinni.
- Markviss húsnæðisstuðningur til tekjulágra og eignalítilla heimila og heimila með þunga framfærslubyrði, óháð búsetuformi.
- Bætt réttarstaða og húsnæðisöryggi leigjenda og bættum rauntímaupplýsingum um leigumarkaðinn.
- Sjálfbær þróun, gæðum og rekjanleiki í mannvirkjagerð.
Áherslur og aðgerðir húsnæðisstefnu eiga að miða að því að takast á við þessi viðfangsefni og stuðli þannig að framförum í húsnæðismálum á Íslandi og að markmiðum húsnæðisstefnu verði náð.
Settar eru fram 46 aðgerðir í fimm ára aðgerðaáætlun 2024-2028 sem falla undir hvert af markmiðunum fjórum. Fjallað er nánar um hvert verkefni í aðgerðaáætlun með húsnæðisstefnunni.
1. Jafnvægi verði á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf og þróun húsnæðis- og leiguverðs sé stöðug.
1.1. Vönduð áætlanagerð um íbúðauppbyggingu með húsnæðisáætlunum og eftirfylgni með framkvæmd þeirra.
1.2. Samningar við sveitarfélög um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á grundvelli rammasamnings ríkis og sveitarfélaga.
1.3. Samráðsvettvangur stjórnvalda um íbúðaþörf vegna stóraukins íbúafjölda á Íslandi.
1.4. Fjölgun íbúða með minna vistspori með kortlagningu á húsnæði sem mætti endurnýta til búsetu.
1.5. Hærri fasteignagjöld á íbúðir sem ekki eru nýttar til búsetu.
1.6. Land í eigu ríkisins verði nýtt til að hraða uppbyggingu íbúða.
1.7. Skýrt regluverk um gististarfsemi í fjölbýlishúsum.
1.8. Tímabundnar uppbyggingarheimildir til að tryggja að uppbyggingaráform gangi eftir.
1.9. Greining og útgáfa upplýsinga á sviði húsnæðismála verði efld með sterkum tæknilegum grunninnviðum.
2. Skilvirk stjórnsýsla og bætt starfsumhverfi mannvirkjagerðar stuðli að auknum gæðum, öryggi, rekjanleika og hagkvæmni íbúðauppbyggingar í jafnvægi við umhverfið.
2.1. Einn ferill húsnæðisuppbyggingar.
2.2. Eitt viðmót fyrir umsókn um byggingarleyfi í mannvirkjaskrá.
2.3. Endurskoðun á byggingarreglugerð.
2.4. Aukin réttarvernd neytenda vegna byggingargalla.
2.5. Kolefnislosun bygginga verði reiknuð út, upplýsingunum skilað inn og kolefnislosun takmörkuð.
2.6. Uppbygging og útfærsla íbúðarbyggðar hafi lífsgæði íbúa að leiðarljósi og styðji við vistvænan lífsstíl.
2.7. Íbúðir sem byggðar eru með opinberum húsnæðisstuðningi verði vistvænar og styðji við hugmyndafræði Nýju norrænu kolefnishlutlausu Bauhaus-hreyfingarinnar.
2.8. Betri innleiðing regluverks með eflingu þekkingarnets innan mannvirkjageirans.
2.9. Mótun rannsóknarumhverfis mannvirkjagerðar.
2.10. Gerð stafrænna brunavarnaáætlana.
2.11. Tímabundin aðsetursskráning í annars konar húsnæði en íbúðarhúsnæði og eftirlit með brunavörnum.
2.12. Öryggisúttekt á íbúðarhúsnæði.
2.13. Algild hönnun og aðgengi fyrir öll.
2.14. Mannvirkjastefna.
2.15. Aukinn sveigjanleiki varðandi breytingar á deiliskipulagi og stjórnsýslu byggingarmála.
2.16. Ný og skilvirkari flokkun í leyfisveitingakerfum opinberra aðila.
3. Landsmenn búi við húsnæðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum með því að sköpuð verði skilyrði með markvissum húsnæðisstuðningi til að öll hafi aðgengi að öruggu og góðu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.
3.1. Endurskoðun lánaheimilda með tilliti til almannaþjónustuhlutverks Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á húsnæðismarkaði.
3.2. Húsnæðisstuðningur nýtist í auknum mæli til að auka framboð öruggra og góðra íbúða með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.
3.3. Aukin aðkoma sveitarfélaga að uppbyggingu innan almenna íbúðakerfisins.
3.4. Sveitarfélögum tryggð heimild til að skilyrða notkun lands til uppbyggingar íbúða með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.
3.5. Bætt réttarstaða og húsnæðisöryggi leigjenda.
3.6. Endurskoðun beins húsnæðisstuðnings við leigjendur í formi húsnæðisbóta frá ríki og sérstaks húsnæðisstuðnings frá sveitarfélögum.
3.7. Breytt fyrirkomulag hlutdeildarlána og stofnframlaga.
3.8. Fjármögnunarkostnaður byggingaraðila í almenna íbúðakerfinu verði lækkaður.
3.9. Greind verði þörf fyrir félagslegt húsnæði sveitarfélaga.
3.10. Jöfn kostnaðardreifing milli sveitarfélaga vegna félagslegra húsnæðisúrræða.
3.11. Fjölbreyttir búsetukostir fyrir eldra fólk.
3.12. Aukinn húsnæðisstuðningur úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til uppbyggingar á sértæku húsnæði á vegum sveitarfélaga fyrir fatlað fólk.
3.13. Húsnæði fyrir heimilislaust fólk.
3.14. Bætt upplýsingagjöf og þjónusta vegna beins húsnæðisstuðnings til einstaklinga í gegnum Ísland.is.
3.15. Stuðlað verði að hækkun hlutfalls þeirra sem búa í eigin húsnæði.
4. Framboð íbúða stuðli að virkum vinnumarkaði og styðji við öflug vinnusóknarsvæði um allt land.
4.1. Tryggð byggð – samstarfsvettvangur um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni.
4.2. Uppbygging leigufélaga með aðkomu stofnanafjárfesta.
4.3. Leiguíbúðum á landsbyggðinni verði fjölgað.
4.4. Húsnæðissamvinnufélög á landsbyggðinni.
4.5. Sveitarfélög hafi heimild til að takmarka umfang leigu íbúðarhúsnæðis undir rekstrarleyfisskylda gististarfsemi til að auka framboð íbúða til fastrar búsetu.
4.6. Lagaumgjörð verði sett um lóðarleigusamninga.