Hoppa yfir valmynd

Réttindi sjúklinga

Allir íbúar landsins eiga jafnan rétt á að njóta heilbrigðisþjónustu og flestir þurfa einhvern tímann á ævinni á henni að halda. Þegar heilsan bregst og fólk verður háð aðstoð annarra á það ekki jafnauðvelt með að gæta réttar síns eins og meðan það er við fulla heilsu.

Lög um réttindi sjúklinga eru sett til að styrkja réttarstöðu sjúklinga gagnvart heilbrigðisþjónustunni og hlúa að því trúnaðarsambandi sem ríkja þarf milli þeirra og heilbrigðisstarfsfólks. Lögin tóku gildi 1. júlí 1997 og endurspegla þær meginreglur sem mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmáli Evrópu og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafa að geyma.

Á seinni árum hefur löggjöf víða um heim, ekki síst löggjöf vestrænna þjóða, tekið æ meira mið af þeim mannréttindasjónarmiðum sem höfð eru að leiðarljósi í framangreindum sáttmálum. Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða að setja sérstök lög um réttindi sjúklinga.

Til skamms tíma voru ýmis ákvæði sem vörðuðu rétt sjúklinga dreifð í íslenskum lögum og því erfitt fyrir almenning og heilbrigðisstarfsfólk að hafa yfirsýn yfir þau. Ástæða þótti til að safna þessum ákvæðum saman og gera þau þannig aðgengilegri.

Upplýsingaskylda

Upplýsingaskylda gagnvart sjúklingi er lögð á herðar læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum eftir því sem við á og er rík áhersla lögð á að upplýsa sjúklinga um ástand sitt, meðferð og annað sem tengist sjúkdómnum. Sé sjúklingurinn fær um að taka við upplýsingum á hann að fá þær, og ekki aðrir, nema í samráði við hann. Upplýsingar á að veita jafnóðum og tilefni skapast og á þann hátt og við þau skilyrði að sjúklingurinn geti skilið þær. Hlutverk heilbrigðisstarfsmannsins er að vega og meta hvenær sjúklingurinn er tilbúinn til þess að fá upplýsingar og að skapa heppilegar aðstæður til að miðla þeim, til dæmis næði og notalegt umhverfi.

Kvartanir og kærur

Í lögum um réttindi sjúklinga er sérstakur kafli sem gera á sjúklingum það léttara að gera athugasemdir við og kvarta yfir þeirri þjónustu sem hann fær. Almenna reglan er sú að vilji sjúklingur gera athugasemd við þjónustu sem hann hefur fengið á heilbrigðisstofnun skal hann beina henni til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Rík leiðbeiningaskylda er lögð á starfsmenn stofnunar og er þeim skylt að leiðbeina sjúklingum sem vilja gera athugasemdir vegna þjónustu eða bera fram kvörtun. Það er einnig gert ráð fyrir því í lögunum að telji starfsmaður að réttur sjúklings sé á einhvern hátt brotinn innan stofnunar getur hann vakið athygli stjórnar stofnunarinnar á því og ber henni þá að athuga málið.

Í lögunum segir að sjúklingur skuli fá skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum og er ákvæðinu ætlað að tryggja að fólk fái lausn mála sinna og að til séu upplýsingar um afgreiðslu málsins.

Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð á hann nokkra kosti. Hann getur beint athugasemdum og kvörtun til þess læknis sem veitti honum meðhöndlun, hann getur kvartað til yfirlæknis, stjórnar stofnunar eða framkvæmdastjóra og hann getur beint kvörtun til landlæknis. 

Telji sjúklingur sig hafa orðið fyrir heilsutjóni eða örorku vegna meðferðar á sjúkrastofnun sem starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu kann hann að eiga rétt á bótum samkvæmt lögum  um sjúklingatryggingu. Sjúkratryggingar Íslands annast afgreiðslu slíkra mála. Hafi sjúklingurinn hlotið meðferð hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanni og telji sig hafa orðið fyrir heilsutjóni eða örorku vegna  hennar skal hann snúa sér til tryggingafélags viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns. 

 

Sjá einnig:

Embætti landlæknis

Notendur heilbrigðisþjónustu geta beint formlegri kvörtun til landlæknis ef talið er að vanræksla eða mistök hafi átt sér stað þegar þjónusta var veitt.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta