Hoppa yfir valmynd

Umfjöllun um lög um sjúklingatryggingu

Lög um sjúklingatryggingu veita sjúklingum rétt til bóta vegna líkamlegs eða geðræns tjóns sem viðkomandi verður fyrir í tengslum við rannsóknir eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt. Einnig eru tryggðir samkvæmt lögunum þeir sem gangast undir læknisfræðilega tilraun sem ekki er liður í sjúkdómsgreiningu eða meðferð vegna sjúkdóms viðkomandi og loks, þeir sem gefa vef, líffæri, blóð eða annan líkamsvökva.

Markmiðið með lögunum er að auka bótarétt sjúklinga sem verða fyrir heilsutjóni vegna áfalla í tengslum við læknismeðferð og jafnframt að gera þeim auðveldara að ná fram rétti sínum. Sjúklingatryggingin veitir sjúklingum víðtækari rétt til bóta en flestum öðrum tjónþolum þar sem ekki þarf að sýna fram á að neinn beri skaðabótaábyrgð á tjóninu. Einnig er talið að sjúklingatrygging greiði fyrir því að sem víðtækastar upplýsingar fáist um það sem betur má fara í heilbrigðiskerfinu, dragi úr tortryggni milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna og geri heilbrigðisstarfsmenn samvinnufúsari við upplýsingaöflun þar sem ekki þarf að sýna fram á sök.

Sjúklingar, það er notendur heilbrigðisþjónustu, sem verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð eru tryggðir. Það er að segja þeir sjúklingar sem verða fyrir raunverulegu tjóni. Ef mistök verða en valda engu tjóni er bótaskylda ekki fyrir hendi. Þeir sem missa framfæranda við andlát slíkra sjúklinga eiga bótarétt.

Gildissvið tryggingarinnar nær til alls heilbrigðiskerfisins og allrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er hér á landi. Ekki skiptir máli hvort kostnaður við heilbrigðisþjónustuna er greiddur af sjúkratryggingum almannatrygginga, beinum fjárframlögum úr ríkissjóði eða af sjúklingi sjálfum.

Sjúklingar eru tryggðir þegar þeir eru til rannsóknar eða sjúkdómsmeðferðar á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og stofnunum þar sem veitt er heilbrigðisþjónusta, til dæmis á hjúkrunarheimilum.

Sjúklingar eru einnig tryggðir í sjúkraflutningum á vegum ríkisins, það er að segja ef veitt er heilbrigðisþjónusta í sjúkraflutningnum, hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og í sjúkdómsmeðferð erlendis á vegum Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). Með sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum er ekki eingöngu átt við lækna, heldur alla heilbrigðisstarfsmenn sem starfa sjálfstætt og hafa hlotið starfsleyfi heilbrigðisráðherra.

SÍ annast sjúklingatryggingu fyrir heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir sem ríkið á í heild eða að hluta og einnig vegna sjúkraflutninga og sjúklinga erlendis á vegum SÍ og „siglinganefndar“. Aðrir, þá fyrst og fremst heilbrigðisstofnanir sem eru ekki í eigu ríkisins og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn, kaupa sjálfir sjúklingatryggingu hjá vátryggingafélögum.

Þeir sem verða fyrir tjóni vegna meðferðar eða rannsóknar á heilsugæslustöð, sjúkrahúsi eða öðrum heilbrigðisstofnunum sem ríkið á í heild eða að hluta geta beint kröfum sínum til Sjúkratrygginga Íslands. Verði menn fyrir heilsutjóni í tengslum við rannsókn eða meðferð hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki skal beina kröfunni til þess vátryggingafélags sem tryggir starfsemina. Sjúkratryggingar Íslands eða vátryggingafélögin afla gagna og taka að því búnu afstöðu til þess hvort um sé að ræða bótaskylt tjón. Síðan fer fram mat á miska og örorku og tekin er ákvörðun um fjárhæð bóta.

Sjá einnig:

Embætti landlæknis

Notendum heilbrigðisþjónustu er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis ef talið er að vanræksla eða mistök hafi átt sér stað þegar þjónusta var veitt.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta