Hoppa yfir valmynd

Heilbrigðisþing

Heilbrigðisþing 2023: Data and Digitalization - Crafting the Future of Sustanable Healthcare

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra boðaði til heilbrigðisþings í Hörpu 14. nóvember 2023.  Að þessu sinni var sjónum beint að tækifærunum sem felast í nýtingu margvíslegra heilbrigðisgagna, stafrænnar þjónustu og gervigreindar. Vegna formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári ákvað heilbrigðisráðherra að tileinka heilbrigðisþingið norrænu samstarfi, enda felst margvíslegur ávinningur í auknu og áframhaldandi samstarfi Norðurlandanna þegar kemur að nýtingu heilbrigðisgagna og stafrænni þróun. Þingið fór fram á ensku og bar yfirskriftina Data and Digitalization: Crafting the Future of Sustainable Healthcare. Fyrirlesarar komu víða að, allir vel þekktir og með yfirgripsmikla þekkingu á þeim viðfangsefnum sem voru í brennidepli á þinginu.

 

Heilbrigðisþing 2022 helgað lýðheilsu

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra boðaði til heilbrigðisþings 10. nóvember 2022 sem að þessu sinni var helgað lýðheilsu. 

Alþingi samþykkti á síðasta ári lýðheilsustefnu til ársins 2030. Stefnan á sér stoð í heilbrigðisstefnu þar sem fram koma þau markmið að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lýðheilsustefnu skulu stjórnvöld stuðla að því að landsmenn verði meðvitaðir um ábyrgð á eigin heilsu, m.a. með fræðslu og vitundarvakningu um gildi forvarna og heilsueflingar, svo sem á sviði næringar, hreyfingar og geðræktar. Liður í því er að tryggja fólki greiðan aðgang að hagnýtum og gagnreyndum upplýsingum um þessi efni sem auðvelda hverjum og einum að stunda heilbrigðan lífsstíl og viðhalda heilsu sinni eða bæta hana.

Verkefnahópur vinnur nú að mótun aðgerðaáætlunar um framkvæmd lýðheilsustefnu og er gert ráð fyrir að nýta afrakstur þingsins inn í þá vinnu.

 

Heilbrigðisþing 2021: Framtíðarsýn um heilbrigðisþjónustu við aldraða

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra boðaði til heilbrigðisþings 20. ágúst 2021 um framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu við aldraða. Ráðherra efndi til þingsins í samræmi við áherslur sínar á kjörtímabilinu um heilbrigðisþjónustu við aldraða sem forgangsmál með áherslu á að efla þjónustu við aldraða í heimahúsum, fjölga úrræðum og auka sveigjanleika þjónustunnar, samhliða átaki í uppbyggingu hjúkrunarheimila.

Heilbrigðisþing 2020: Mönnun, menntun og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra boðaði til rafræns heilbrigðisþings 27. nóvember 2020 undir yfirskriftinni „Mönnun, menntun og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu." Umfjöllunarefnið var í samræmi við óskir og áherslur þeirra fjölmörgu sem tóku þátt í heilbrigðisþinginu 2019, samkvæmt niðurstöðu rafrænnar könnunar sem lögð var fyrir gesti þingsins. Í framhaldi af þinginu og í samræmi við umfjöllun þess skipaði ráðherra landsráð sem hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana á sviði mönnunar og menntunar i heilbrigðisþjónustu og að vera samráðsvettvangur á þessu sviði.

Heilbrigðisþing 2019: Siðferðileg gildi og forgangsröðun

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra boðaði til heilbrigðisþings 15. nóvember 2019 undir yfirskriftinni „Siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni." Þingið var liður í vinnu við gerð þingsályktunartillögu um þessi mál sem ráðherra lagði fyrir Alþingi í mars árið 2020 og var samþykkt sem þingsályktun nr. 38/150 um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu þann 9. júní sama ár. 

Heilbrigðisþing 2018: Samtal um heilbrigðisþjónustu fyrir alla

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra boðaði til heilbrigðisþings 2. nóvember 2018 þar sem til umfjöllunar voru drög að heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og styrkari grunnur lagður að mótun hennar. Ný heilbrigðisstefna varð að veruleika með ályktun Alþingis nr. 29/149 um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í júní 2019. Í heilbrigðisstefnu segir að ætlun ráðherra sé að boða til heilbrigðisþings ár hvert, til umræðna og samráðs um áherslur í heilbrigðismálum.

Síðast uppfært: 6.8.2024 0
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta