Lífvísindi og lífsiðfræði
Ráðherra heilbrigðismála fer með mál sem varða lífvísindi og lífsiðfræði þar á meðal vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, lífsýnasöfn, líffæragjafir og líffæraígræðslu og ákvörðun dauða, dánarvottorð og krufningar.
Líffæragjafir og líffæraígræðsla
Í lögum um brottnám líffæra kemur fram að hver sem orðinn er 18 ára getur gefið samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efna úr eigin líkama til nota við læknismeðferð annars einstaklings. Lífi og heilsu líffæragjafa má þó aldrei stofna í augljósa hættu með slíkri aðgerð.
Áður en væntanlegur líffæragjafi veitir samþykki sitt skal læknir veita honum upplýsingar um eðli aðgerðar og hugsanlegar afleiðingar hennar. Líffæragjafi skal eiga kost á annarri ráðgjöf en læknis væntanlegs líffæraþega. Læknir skal ganga úr skugga um að væntanlegur líffæragjafi skilji þessar upplýsingar.
Lög um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar gilda um réttindi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar. Markmið laganna er að tryggja líffæragjöfum tímabundna fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.
Ef samþykki látins einstaklings liggur fyrir má að honum látnum nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama hans til nota við læknismeðferð annars einstaklings. Liggi slíkt samþykki ekki fyrir er heimilt að fjarlægja líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings ef fyrir liggur samþykki nánasta vandamanns hans og slíkt er ekki talið brjóta í bága við vilja hins látna.
- Lög um brottnám líffæra nr. 16/1991
- Lög um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar nr. 40/2009
- Lög um ákvörðun dauða
Líffæraígræðslunefnd
Líffæraígræðslunefnd er ætlað að vera ráðgefandi á sviði ígræðslu líffæra, safna saman upplýsingum um stöðu mála á hverjum tíma, svo sem fjölda líffæragjafa og líffæraþega, biðlista og biðtíma eftir líffæraígræðslu. Nefndin skal einnig gefa árlega út skýrslu um hið norræna samstarf sem fer fram á vegum Scandiatransplant. Þá skal nefndin koma með tillögur til ráðherra um hugsanlegar breytingar á lögum eða reglugerðum sem varða málaflokkinn eftir því sem nefndin telur ráðlegast hverju sinni.
Vísindasiðanefnd (VSN)
Vísindasiðanefnd metur vísindarannsóknir á heilbrigðissviði í þeim tilgangi að tryggja að þær samrýmist vísindalegum og siðfræðilegum sjónarmiðum. Nefndin metur einnig samstarfsverkefni, fjölþjóðlegar rannsóknir, klínískar lyfjarannsóknir og aðrar áætlanir um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði sem ekki falla undir verksvið siðanefnda heilbrigðisrannsókna. Vísindasiðanefnd skal taka þátt í almennri og fræðilegri umræðu á vettvangi lífsiðfræði, veita ráðgjöf og birta leiðbeinandi álit um viðfangsefni á verksviði nefndarinnar.
Lífsýnasöfn
Samkvæmt lögum um lífsýnasöfn er stofnun og starfræksla lífsýnasafns háð leyfi ráðherra.
Markmiðið með lögum um lífsýnasöfn er að heimila söfnun, vörslu, meðferð og nýtingu lífsýna úr mönnum með þeim hætti að persónuvernd sé trygg, gætt sé hagsmuna lífsýnisgjafa og nýting lífsýnanna þjóni vísindalegum og læknisfræðilegum tilgangi og stuðli að almannaheill. Aldrei skal setja hagsmuni vísinda og samfélags ofar hagsmunum lífsýnisgjafa. Óheimilt er að mismuna lífsýnisgjafa á grundvelli upplýsinga sem fengnar eru úr lífsýni hans.
- Ábyrgðarmaður lífsýnasafns ber ábyrgð á því að viðhaft sé innra eftirlit og að öryggismat sé framkvæmt reglulega.
- Persónuvernd hefur eftirlit með öryggi persónuupplýsinga í lífsýnasöfnum.
- Embætti landlæknis hefur eftirlit með starfsemi lífsýnasafna þjónustusýna.
- Landlækni er skylt að kynna ítarlega fyrir almenningi ákvæði laga þessara um lífsýnasöfn, sérstaklega ákvæðið um ætlað samþykki lífsýnisgjafa vegna þjónusturannsóknar, sem og rétt einstaklinga. Vakin er athygli á að fólk á rétt á að fara fram á að lífsýni úr því, sem hafa verið tekin vegna þjónusturannsókna, séu ekki nýtt til vísindarannsókna síðar eða varðveitt í lifsýnasafni í því skyni.
- Lög um lífsýnasöfn nr. 110/2000
- Reglugerð um vörslu og nýtingu lífsýna í lífsýnasöfnum nr. 1146/2010
- Um lífsýnasöfn á vef embættis landlæknis
Tæknifrjóvgun
Samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun má eingöngu framkvæma tæknifrjóvgun á heilbrigðisstofnun sem fengið hefur til þess leyfi ráðherra og undir eftirliti sérfræðinga í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Ráðherra er heimilt að binda slík leyfi sérstökum skilyrðum, m.a. um hæfni og þekkingu starfsmanna rannsóknastofu, eftirlit heilbrigðisyfirvalda, upplýsingagjöf og aðstöðu.
Ráðherra sem fer með heilbrigðismál fer með lög um ákvörðun dauða og lög um dánarvottorð, krufningar og fleira. Ráðherra skal setja reglur um það hvaða rannsóknum skuli beita til þess að ganga úr skugga um að öll heilastarfsemi sé hætt. Reglur þessar skulu vera í samræmi við tiltæka læknisfræðilega þekkingu á hverjum tíma.
Það er hlutverk læknis að ákvarða um dauða manns og rita dánarvottorð fyrir hvern mann sem deyr hér á landi. Honum ber að beita reynslu sinni og þeirri þekkingu sem hverju sinni er tiltæk til þessa verks.
Ákvörðun dauða, dánarvottorð og krufningar
Það er hlutverk læknis að ákvarða um dauða manns og rita dánarvottorð fyrir hvern mann sem deyr hér á landi, líkt og kveðið er á um í lögum um dánarvottorð, krufningar og fleira. Í lögum um ákvörðun dauða er gerð grein fyrir skilgreiningu dauða. Á grundvelli þeirra laga skal ráðherra sem fer með heilbrigðismál setja reglur um hvaða rannsóknum skuli beita til þess að ganga úr skugga um að maður sé látinn. Reglurnar skulu vera í samræmi við tiltæka læknisfræðilega þekkingu á hverjum tíma.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Stofnanir
Annað
Líf og heilsa
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.