Hoppa yfir valmynd

Reglur um farangurstryggingar

Verði persónulegur farangur starfsmanns fyrir tjóni á ferðalagi á vegum ríkisins, skal skaðinn bættur af ríkinu í eftirfarandi tilvikum og með svofelldum reglum og takmörkunum:

1. Tryggingin tekur til allra starfsmanna ríkisins, er þeir ferðast á vegum ríkisins og ríkisstofnunar. Einnig eru tryggðir aðrir aðilar, sem ferðast á vegum og á kostnað þessara aðila.

2. Útgáfa ferðaheimildar til utanlandsferðar, sem forstöðumaður ráðuneytis eða stofnunar eða staðgengill hans hefur gefið út viðkomandi til handa, er staðfesting á, að farangur sé tryggður. Verði tjón í ferð innanlands, skal forstöðumaður viðkomandi stofnunar staðfesta skriflega, að ferð starfsmanns hafi verið á vegum stofnunarinnar.

3. Til farangurs teljast persónulegir lausafjármunir, sem tryggði hefur með sér í ferðalagið og taldir eru nauðsynlegir þess vegna, þó ekki peningar og ávísanir.

4. Tryggingin bætir tjón á farangri af völdum bruna, skyndilegs óhapps, innbrots, þjófnaðar og ennfremur ef hann glatast. Vátryggingarupphæð tryggingarinnar miðast við verðmæti farangursins en þó að hámarki 120.000 krónur í hverri ferð. Fyrir hvern einstakan hlut, par eða samstæðu er ekki bætt hærri upphæð en 23.000 kr. Bótaskylda takmarkast við þessa fjárhæð nema hluturinn og verðmæti hans hafi verið tilkynnt skriflega fyrirfram til þess, sem gaf út ferðaheimildina og samþykkt sbr. 2. lið. Nær tryggingin þá einnig til þess hlutar, jafnvel þótt verðmæti hans eða heildarbótafjárhæð fari með því fram úr hámarksfjárhæðum hér á undan. Tjónþoli ber í eigin áhættu 20% af hverju tjóni, þó ekki lægri upphæð en 2.000 kr. Fjárhæðir þessar endurskoðast tvisvar á ári, 1. janúar og 1. júlí. Þær miðast við vísitölu framfærslukostnaðar 1. janúar 1988, 233,41 stig og skulu breytast í samræmi við hana.

Bótafjárhæðir
Flokkur 01.01.1988
Síðara misseri 2014 
Fyrra misseri 2015 
Vísitala 233,41 stig 1035 stig 1028 stig
Hámarksvátryggingarfjárhæð 120.000 532.100 kr. 528.500 kr.
Hámark fyrir hvern einstakan hlut 23.000 kr. 102.000 kr. 101.300 kr..
Lágmarksfjárhæð eigin áhættu 2.000 kr. 8.900 kr. 8.800 kr.
5. Tryggði skal gæta farangurs síns vel og gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir tjón. Ef tjón verður rakið til ásetnings, gáleysis eða ölvunar eða annarrar vímuefnaneyslu tryggða, fellur bótaskylda niður. Skemmdir, sem hljótast af mölflugum, meindýrum eða eðlilegu sliti, bætast ekki.

6. Verði tjón, skal tjónþoli gera ráðstafanir, sem sanna að tjónið hafi orðið, t.d. tilkynna lögreglu, viðkomandi hóteli eða flutningsaðila um skemmdir, missi eða þjófnað. Tjón sem verður á tryggðum munum á gisti- og veitingahúsum eða í vörslu flutningamanna, skal tilkynna sérstaklega fyrirsvarsmönnum þessara aðila og um leið skal áskilja rétt til skaðabóta úr þeirra hendi. Skemmist farangur eða týnist, meðan hann er í vörslu flugfélags, skal tilkynna skemmdirnar eða tapið strax eða innan 7 daga til afgreiðslu flugfélagsins á þar til gerðu eyðublaði (P.I.R. skýrslu). Vanræksla á tilkynningarskyldu getur valdið lækkun eða bótamissi eftir reglum laga um vátryggingarsamninga. Tjón skal tilkynnt sem fyrst til launaskrifstofu ríkisins.

7. Launaskrifstofa ríkisins sér um uppgjör tjóna. Samið skal um uppgjör á tjóni, þegar fyrir liggja nauðsynleg sönnunargögn og skýrslur.

8. Þegar tjón er metið, skal hlutur sem er yngri en tveggja ára, bætast sem nýr væri, en sé hluturinn eldri, bætist hann á grundvelli raunvirðis síns, sbr. 37. gr. laga um vátryggingarsamninga.

9. Eigi tryggði kröfu á hendur þriðja aðila vegna tjóns, eignast ríkið kröfuna án sérstaks framsals, að svo miklu leyti sem það hefur bætt tjónið. Komi glataður farangur í leitirnar óskemmdur, eftir að hann hefur verið bættur af ríkissjóði, skal starfsmaðurinn endurgreiða bæturnar eða afhenda tryggingarsala hinn glataða farangur, að svo miklu leyti sem hann hefur verið bættur.

10. Lög nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga, gilda um þau atriði, sem ekki er öðruvísi mælt fyrir um í þessum reglum.

11. Rísi ágreiningur um umfang tryggingar eða tjónauppgjör, skal fjármálaráðuneytið tilnefna einn mann og stéttarfélag viðkomandi starfsmanns annan, sem úrskurða skulu um ágreininginn. Ef matsmenn eru ekki sammála, skulu fjármálaráðuneytið og stéttarfélagið koma sér saman um oddamann.

12. Mál, sem rísa kunna út af tryggingu þessari, skulu rekin fyrir Bæjarþingi Reykjavíkur.

Fjármálaráðuneytið, 25. maí 1988


Jón Baldvin Hannibalsson.
_______________________
Indriði H. Þorláksson.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta