Hvernig teljast dagar vegna ferðakostnaðar erlendis?
Heilir dagar á ferðalagi erlendis teljast til greiddra daga. Ferðadagur telst hluti af ferð og er greiddur. Ferðadagur er bæði brottfarardagur og komudagur.
Dæmi: Ef flogið er erlendis á mánudegi og heim á miðvikudegi þá greiðast dagpeningar vegna þriggja daga og tveggja gistinátta.
Hvernig teljast dagar ef um næturflug er að ræða eins og er t.d. algengt í flugferðum heim frá Bandaríkjunum?
Til greiddra daga teljast ferðadagar og eru þeir að hámarki 2 á ferð. Brottfarardagur og komudagur. Þegar ferðast er frá USA með flugi sem hefst að kvöldi telst brottfarardagur sem ferðadagur. Þ.e. það bætist ekki við aukadagur þrátt fyrir að lent sé að morgni næsta dag. Þegar ekki þarf að greiða kostnað við gistingu, t.d. vegna þess að starfsmaður er um borð í flugvél, þá skulu ekki greiddir dagpeningar vegna gistingar. Meginregla við greiðslu dagpeninga er að greiða útlagðan kostnað.
Dæmi: Þegar ferðast er til USA á mánudegi og aftur heim á miðvikudegi þá greiðast dagpeningar vegna þriggja daga og tveggja gistinátta.
Hvernig eru dagpeningar reiknaðir út?
Meginregla við útreikning dagpeninga er að þeim er ætlað að standa undir kostnaði starfsmanns sem hlýst af fjarveru frá heimili vegna vinnu. Því er reiknaður fjöldi gistinátta sem þarf að greiða fyrir og fjöldi daga sem þarf að greiða fyrir uppihald. Fjöldi SDR eininga fer einnig eftir því hversu kostnaðarsamt svæðið er sem dvalið er á. Að lokum fer fjárhæðin í krónum eftir SDR gengi útgreiðsludags dagpeninga. SDR gengi er skráð og birt hjá Seðlabanka Íslands.
Hvað ræður flokkun borga/landa í flokk 1-4?
Kostnaður við gistingu og uppihald er breytilegur á milli borga og er reynt að koma til móts við það með flokkun svæða í flokka 1-4. Þessi flokkun tekur þó breytingum og er flokkun svæða til endurskoðunar hjá ferðakostnaðarnefnd.
Hvað er SDR gengi og hvar get ég nálgast gengisskráninguna?
Gengisskráninguna má nálgast t.d. á vef Seðlabanka Íslands.
SDR er skammstöfun á reiknieiningu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notar og er reiknað út frá gengi tiltekinnar körfu gjaldmiðla sem helst eru notaðir í milliríkjaviðskiptum.
Þarf að greiða skatt af dagpeningum?
Meginreglan er að dagpeningar standi undir útlögðum kostnaði. Því er heimilt að færa frádrátt á móti dagpeningum séu skilyrði uppfyllt. Að hámarki má færa frádrátt sem nemur dagpeningum samkvæmt ákvörðum ferðakostnaðarnefndar.
Sjá nánar um skattalega meðferð á vef Skattsins.
Kostnaður við að koma sér til og frá flugvelli?
Almennt er dagpeningum ætlað að standa undir öllum venjulegum ferðakostnaði öðrum en fargjöldum, þar með talið kostnaði að og frá flugvöllum.
Má greiða starfsfólki rýmri dagpeninga heldur en reiknaðir dagpeninga?
Heimilt er að greiða hærri dagpeninga en sem nemur ákvörðun ferðakostnaðarnefndar hverju sinni. Þó ber að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu af mismun.
Sjá nánar um skattalega meðferð á vef Skattsins.