Hoppa yfir valmynd

Launafyrirkomulag forstöðumanna ríkisstofnana

Fjármála- og efnahagsráðherra ákveður föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við grunnmat starfs viðkomandi forstöðumanns og önnur laun er starfinu fylgja. Ráðherra ákveður hverjar skuli vera forsendur grunnmats og skal þar einkum horft til umfangs og ábyrgðar. Við ákvörðun kjara forstöðumanna skal sérstaklega gæta samræmis við þau kjör hjá ríkinu sem byggjast á kjarasamningum og skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.

Við gerð og framkvæmd grunnmatsins var haft samráð við Félag forstöðumanna ríkisstofnana og öll ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hefur frumkvæðisskyldu og ber ábyrgð á samræmi launafyrirkomulagsins. Félagi forstöðumanna ríkisstofnana gefst kostur á að fylgjast með og fjalla um álitamál sem upp kunna að koma fyrir hönd forstöðumanna.

Grunnmat starfa forstöðumanna

Við ákvörðun launa er nú byggt á samræmdu grunnmati þar sem störf forstöðumanna eru metin út frá umfangi og kröfum um færni, ábyrgð og stjórnun. Þetta er ný aðferð við mat á störfum forstöðumanna. Matið er óháð því hver gegnir starfinu hverju sinni. Matið er unnið út frá heildstæðri nálgun þar sem störf allra forstöðumanna eru metin á grundvelli samræmds matskerfis sem byggist á gagnsæjum og hlutlægum þáttum. Hver þáttur er metinn með tilliti til innbyrðis röðunar innan kerfisins.

Dreifing starfa forstöðumanna í launaflokka

Þegar grunnmat allra starfa lá fyrir var þeim skipað í 11 hópa og sama fjölda launaflokka. Jafnframt var samsetning heildarlauna ákveðin þannig að vægi dagvinnulauna skyldi vera 80% en önnur laun er starfinu fylgja vægju 20%.

Þessar breytingar leiddu til þess að heildarlaun um þriðjungs starfa lækkuðu miðað við fyrri úrskurð kjararáðs, þriðjungur starfa var óbreyttur og þriðjungur hækkaði frá fyrri úrskurðum. Meðalhækkun hópsins var rúmlega 4,5%, sem er í samræmi við hækkanir BHM á sama tíma. Í þeim tilvikum sem niðurstaðan var lægri en fyrri úrskurður var ákveðið að viðkomandi nyti óskertra kjara þar til framtíðarhækkanir yrðu jafnar þeim eða hærri.

 

Almennar launabreytingar og endurmat grunnmats

Nýtt launafyrirkomulag forstöðumanna var kynnt í árslok 2018 og innleitt í byrjun árs 2019. Er það í fyrsta sinn sem störf forstöðumanna ríkisstofnana eru metin með samræmdu matskerfi. Mikilvægt er að matskerfið þróist áfram í ljósi reynslunnar, breytinga í starfsumhverfi og nýrrar þekkingar. Með það að leiðarljósi er stefnt að því að leggja mat á virkni og árangur grunnmatsins á árinu 2022 í samstarfi við öll ráðuneyti og Félag forstöðumanna ríkisstofnana. Sem stuðningur við framangreint mat er unnin greining með forritinu PayAnalytics.

Gert er ráð fyrir að laun forstöðumanna verði endurmetin eigi sjaldnar en árlega til samræmis við sameiginlega launastefnu á vinnumarkaði eða önnur viðmið sem lýsa almennri launaþróun á vinnumarkaði. Með því móti verður hægt að koma í veg fyrir að endurskoðun dragist og tryggja betur að endurmat launa forstöðumanna verði í takt við almenna launaþróun.

Verði grundvallarbreyting á starfsemi stofnunar kann það að leiða til endurskoðunar á grunnmati starfs forstöðumanns. Hlutaðeigandi ráðuneyti getur þá óskað eftir endurskoðun. Slík endurskoðun getur einnig farið fram að frumkvæði Kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Endurmat mun þá byggjast á endurskoðuðu erindisbréfi starfs forstöðumanns viðkomandi stofnunar.

Almenn starfskjör og viðbótarlaun

Reglur um viðbótarlaun og almenn starfskjör eru settar í samræmi við 39. gr. a. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Í lögunum er kveðið á um að fjármála- og efnahagsráðherra ákveði almenn starfskjör forstöðumanna. Ráðherra ákveður einnig forsendur viðbótarlauna, en hlutaðeigandi ráðherra, eða eftir atvikum stjórn, ákveður greiðslu viðbótarlauna innan ramma hinna almennu forsendna.  

Reglur um almenn starfskjör er ígildi réttinda sem jafnan er samið um í kjarasamningi. Við gerð reglnanna var horft til þess að almenn starfskjör forstöðumanna væru í samræmi við réttindi félagsmanna Bandalags háskólamanna (BHM) sem starfa hjá ríkinu. Í reglunum er mælt fyrir um réttindi í veikindum og framlag í fjölskyldu- og styrktarsjóð, orlof, endurmenntun og fleira.

Í reglum um greiðslu viðbótarlauna ákveður fjármála- og efnahagsráðherra forsendur viðbótarlauna en viðkomandi ráðuneyti ákveður hvort og hvenær greiða á viðbótarlaun í samræmi við þær. Heimild til greiðslu viðbótarlauna er bundin við sérstakt álag, t.d. vegna óvæntra eða ófyrirséðra ytri atvika, eða verkefna sem eru verulega umfram reglubundnar starfsskyldur og rúmast ekki innan venjubundinnar starfsemi stofnunar. Fjárhæð viðbótarlauna skal rúmast innan fjárveitingar viðkomandi stofnunar og byggja á málefnalegum sjónarmiðum og vera í takt við tilefni og í samræmi við aðstæður. Fjármála- og efnahagsráðherra tekur árlega saman lista yfir viðbótarlaun og birtir opinberlega.

Frammistöðumat

Gert er ráð fyrir að innleitt verði frammistöðumat forstöðumanna sem framkvæmt verður með skipulögðum og hlutlægum hætti. Á þeim grundvelli verða nýjar reglur um viðbótarlaun ákvarðaðar.

Launafyrirkomulag forstöðumanna ríkisstofnana

Síðast uppfært: 12.12.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta