Aðgerðahópur um launajafnrétti
Þann 24. október 2012, undirrituðu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins viljayfirlýsingu um samstarf til að eyða kynbundnum launamun. Í desember 2012 skipaði velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, aðgerðahóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Hópurinn var skipaður til tveggja ára með möguleika á framlengingu ákveði aðilar að halda samstarfinu áfram. Í maí 2013 var Rósa Guðrún Erlingsdóttir ráðin sem sérfræðingur á skrifstofu lífskjara og vinnumála hjá velferðarráðuneytinu og starfar hún með aðgerðahópi um launajafnrétti. Á fundi ríkisstjórnar, þann 24. október var samþykkt að framlengja skipunartíma aðgerðahópsins um tvö ár. Í framhaldi af þeirri ákvörðun var óskað tilnefninga að nýju frá öllum hagsmuna- og aðildarfélögum sem sæti áttu í aðgerðahópnum og hann endurskipaður til tveggja ára frá 20. desember 2014 til 19. desember 2016. Þannig 24. október 2016 var skipunartími aðgerðahópsins framlengdur til 20. desember 2018.
Aðgerðahóp um launajafnrétti var samkvæmt erindisbréfi meðal annars ætlað að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun, hafa umsjón með innleiðingu jafnlaunastaðalsins gerð tillagna til stefnumótunar um leiðir til að brjóta upp kynjaskiptingu starfa á íslenskum vinnumarkaði og annast upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja. Í maí 2015 efndi aðgerðahópurinn til morgunverðarfundar undir heitinu Kyn, starfsframi og laun þar sem kynntar voru niðurstöður rannsóknarverkefna hópsins. Annars vegar niðurstöður fyrstu rannsóknar sem gerð hefur verið hér á landi á kynbundnum launamun sem tekur til vinnumarkaðarins í heild og hins vegar rannsóknarskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Í október 2014 skilaði hópurinn ráðherra jafnréttismála ítarlegum tillögum að framtíðarstefnu stjórnvalda um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði.
Í tillögum aðgerðahópsins er lögð áhersla á að fyrirtæki og stofnanir reki virka fjölskyldustefnu, að unnið verði að því að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskólavistar barna auk áherslu á reglubundnar rannsóknir á launamun karla og kvenna sem nái til vinnumarkaðarins í heild.
Meðal verkefna aðgerðahóps um launajafnrétti er að:
- vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun,
- framkvæma tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals,
- annast gerð áætlunar um kynningu og innleiðingu jafnlaunastaðalsins,
- standa fyrir sérstöku kynningarátaki og ráðgjöf í fyrirtækjum og stofnunum gegn kynbundnum launamun,
- gerð kynningarefnis um markvissar aðgerðir til að draga úr launamisrétti.
Í aðgerðaáætluninni er tilgreint að stjórnvöld skuli efla fræðslu til atvinnurekenda og virkra þátttakenda á vinnumarkaði um leiðir til að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og að gerð verði áætlun um hvernig unnt sé að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali með það að markmiði að brjóta upp kynskiptan vinnumarkað. Þessi verkefni eru efnislega nátengd baráttunni gegn kynbundnum launamun og hefur félags- og jafnréttismálaráðherra falið aðgerðahópnum að vinna áætlun um aðgerðir á þessum sviðum. Við þessu vinnu er horft til fyrirmynda á hinum Norðurlöndunum og samráð haft við mennta- og háskólastofnanir sem og fagfélög. Gert er ráð fyrir að áætlanirnar feli í sér langtímaaðgerðir til úrbóta þar sem sérstök áhersla verði lögð á að fjölga körlum í kvennastéttum og konum í karlastéttum.
Ábendingar og athugasemdir
Áhugasamir eru hvattir til að koma ábendingum og athugasemdum til verkefnisstjórnar með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected]. með efnislínunni: Launajafnrétti.
Sjá einnig:
Yfirlit um lög
Yfirlit um lög er varða mannréttindi og jafnrétti er að finna á vef Alþingis
Yfirlit um reglugerðir
Yfirlit um reglugerðir er varða jafnrétti er er að finna á reglugerd.is
Stofnanir
Úrskurðarnefndir
Nefndir
Áhugavert
Jafnrétti
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.