Erindisbréf nefndarmanna í aðgerðahópi stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins til þess að vinna að launajafnrétti kynjanna
Hinn 20. desember 2012 skipaði þáverandi velferðarráðherra aðgerðahóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins til þess að vinna að launajafnrétti kynjanna. Hópurinn var skipaður til tveggja ára með möguleika á framlengingu ákveði aðilar að halda beri samstarfinu áfram.
Á fundi Ríkisstjórnar Íslands, þann 24. október 2014, var samþykkt að framlengja skipunartíma aðgerðahópsins um tvö ár. Í framhaldi af þeirri ákvörðun var óskað tilnefninga að nýju frá öllum hagsmuna- og aðildarfélögum sem sæti áttu í aðgerðahópnum og aðgerðahópurinn endurskipaður til tveggja ára frá 20. desember 2014 til 19. desember 2016. Hinn 24. október 2016 afhenti aðgerðahópurinn félags- og húsnæðismálaráðherra tillögur að framtíðarstefnu í jafnlaunamálum. Félags- og húsnæðismálaráðherra framlengdi sama dag skipunartíma hópsins aftur og nú til loka árs 2018.
Verkefni aðgerðahópsins eru meðal annars að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun, annast gerð áætlunar um kynningu og innleiðingu jafnlaunastaðals og sinna upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja.
Í samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016-2018 hefur félags- og húsnæðismálaráðherra falið aðgerðahópnum eftirfarandi verkefni:
- Að vinna að eftirfylgni tillagna um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum.
- Að vinna að útbreiðslu og innleiðingu staðalsins ÍST 85:2012, Jafnlaunakerfi – kröfur og leiðbeiningar.
- Að hafa umsjón með markvissu kynningarstarfi á faggildri vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð nr. 929/2014, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012.
- Að standa fyrir kynningarátaki og ráðgjöf í stofnunum og fyrirtækjum um aðgerðir gegn kynbundnum launamun.
- Að standa fyrir árlegum jafnlaunadegi sem nýttur verði til vitundarvakningar um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði.
- Að vinna að framkvæmdaáætlunar um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval. Sérstaklega verði hugað að því að fjölga konum í iðngreinum, verk- og raunvísindum og körlum í umönnunar- og kennslustörfum.
Aðgerðahópurinn skal reglulega gera félags- og húsnæðismálaráðherra grein fyrir framvindu verkefna. Einnig skal aðgerðahópurinn gera ráðherra grein fyrir sérstökum og/eða meiri háttar frákvikum við undirbúning eða framkvæmd verkefna.
Velferðarráðuneytinu, 24. október 2016
Eygló Harðardóttir,
félags- og húsnæðismálaráðherra
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.