Hoppa yfir valmynd
07.01.2015 00:00 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

23. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

Fundarheiti og nr. fundar: 23. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti.
Staður og stund:
Velferðarráðuneytið, 7. janúar 2015. Kl. 14.00 – 16.00.
Málsnúmer:
VEL12100264.

Mætt: Anna Kolbrún Árnadóttir formaður (AKÁ), Ása Sigríður Þórisdóttir (ÁSÞ, BHM), Berglind Eva Ólafsdóttir (BEÓ, Svf), Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Jóna Pálsdóttir (JP, MRN), Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB), Rósa G. Erlingsdóttir (RGE, VEL), starfsmaður aðgerðahóps, og Eva Margrét Kristinsdóttir (EMK, VEL).

Forföll boðuðu: Guðný Einarsdóttir (GE, FJR) og Hafdís Dögg Guðmundsdóttir (HDG, KÍ).

Fundarritarar: Eva Margrét Kristinsdóttir og Rósa G. Erlingsdóttir.

Dagskrá:

1.            Fundargerðir 21. og 22. fundar lagðar fram til samþykktar.

Fundargerðir samþykktar.

2.            Framvinda rannsóknarverkefna.

Katrín Ólafsdóttir mætti á fund aðgerðahópsins og gerði grein fyrir framvindu verkefnis um gerð rannsóknarskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Verkefnið er farið vel af stað og fyrir liggja drög að flestum köflum þess en áætlað er að ráðast í frekari kortlagningu á fyrirliggjandi rannsóknum og tölfræði auk þess sem tekin verða djúpviðtöl við fræðimenn o.fl. Áætluð verklok eru í lok febrúar 2015.

Rætt var um gerð framkvæmdaáætlunar um uppbrot kynbundins náms- og starfsvals sem aðgerðahópi er samkvæmt erindisbréfi ætlað að semja. Verkefni til að undirbúa gerð framkvæmdaáætlunarinnar verður unnið í samstarfi velferðarráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Samþykkt hefur verið að veita verkefninu fjármagn  úr framkvæmdasjóði jafnréttismála auk mótframlags frá velferðarráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Framundan er að skilgreina verkefnið nánar, auk þess að ráða starfsmann tímabundið sem mun hafa umsjón með því.

3.            Verk- og tímaáætlun 2015.

Farið var yfir tímasetta verkefnaáætlun aðgerðahópsins fyrir árið 2015 en drög að henni voru lögð fram á síðasta fundi hópsins. Aðgerðahópurinn ræddi nánar nokkur verkefni sem nefnd eru í verkáætluninni fyrir árið 2015.

Ráðstefna um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði.

Stefnt er að því að halda ráðstefnu vorið 2015 um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði þar sem niðurstöður rannsóknarverkefna aðgerðahópsins verða kynntar. Fulltrúar hópsins tóku vel í þá hugmynd starfsmanns aðgerðahópsins að leita eftir samstarfi við framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og tengja þannig ráðstefnuna þeim tímamótum auk þess sem rætt var að leita eftir samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Tillaga að dagsetningu umræddrar ráðstefnu er 20. maí 2015 og mun starfmaður aðgerðahópsins skoða fyrir næsta fund hvernig sú dagsetning hentar.

Jafnlaunadagur 2015.

Stefnt er að því að aðgerðahópurinn standi í fyrsta skipti fyrir Jafnlaunadegi árið 2015. Aðgerðahópurinn er sammála um að tengja umræddan dag við Kvennafrídaginn 24. október ár hvert. Unnið verður að nánari útfærslu sem allra fyrst.

4.            Önnur mál.

Kostnaðaráætlun vegna fyrirhugaðrar ráðstefnu í vor verður lögð fram á næsta fundi aðgerðahópsins. Einnig verður lögð fram kostnaðaráætlun námskeiðs vegna jafnlaunavottunar á grundvelli reglugerðar um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana vegna staðalsins ÍST 85:2012 sem haldið verður í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands. Drög að skipulagi námskeiðsins verða kynnt á næsta fundi. Á næsta fundi aðgerðahópsins mun starfsmaður hópsins kynna drög að dagskrá afmælisráðstefnunnar sem haldin verður 22–24. október í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi. Starfsmaður aðgerðahópsins er fulltrúi velferðarráðuneytisins í verkefnisstjórn ráðstefnunnar.

Jafnréttisþing verður haldið haustið 2015 í samræmi við lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Samtökin BPW (Business Professional Women Association) hafa sett sig í samband við starfsmann aðgerðahópsins, auk fulltrúa stéttarfélaga í aðgerðahópnum. Starfsmaður aðgerðahópsins og fulltrúi BSRB munu mæta á fund með félaginu þann 21. janúar.

Næsti fundur verður haldinn 4. febrúar í velferðarráðuneytinu kl. 14–16.

 

Eva Margrét Kristinsdóttir og Rósa Guðrún Erlingsdóttir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta