Hoppa yfir valmynd
09.12.2015 00:00 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

30. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

  • Fundarheiti og nr. fundar: 30. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytið, 9. desember 2015. Kl. 14.00–15.45.
  • Málsnúmer: VEL15050483.
  • Mætt: Anna Kolbrún Árnadóttir formaður (AKÁ), Georg Brynjarsson (GB, BHM), Berglind Eva Ólafsdóttir (BEÓ, Svf), Guðný Einarsdóttir (GE, FJR), Hafdís Dögg Guðmundsdóttir (HDG, KÍ), Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Jóna Pálsdóttir (JP, MMR), Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB), og Rósa G. Erlingsdóttir (RGE, VEL), starfsmaður aðgerðahóps.
  • Forföll boðaði: Stefán Stefánsson (SS, MMR).

Gestur á fundi: Sif Einarsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands.

Fundarritari: Rósa G. Erlingsdóttir.

Dagskrá:

1.    Fundargerð 29. fundar

Fundargerð samþykkt.

2.    Vinnudagur aðgerðahóps um launajafnrétti 3. desember

Starfsmaður kynnti samantekt um þær tillögur sem hópurinn setti fram á vinnudegi um  drög að framkvæmdaáætlunum um annars vegar samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs  og hins vegar um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval. Markmið vinnudagsins var að kalla eftir hugmyndum fulltrúa í aðgerðahópum um tillögur að framkvæmdaáætlunum. Aðgerðahópurinn er sammála um að hann muni ekki standa fyrir aðgerðum en skila af sér framkvæmdaáætlunum með vel ígrunduðum tillögum ásamt greinargerð um hvernig tillögurnar geti aukið launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Samþykkt var að starfsmaður vinni samantekt um þær tillögur sem oftast voru nefndar og hefji vinnu við greinargerð sem byggist annars vegar á rannsóknarverkefnum aðgerðahópsins og hins vegar á tillögum þeim sem fram hafa komið. Starfsmaður mun óska eftir gögnum frá fulltrúum hópsins eftir því sem við á og kortleggja þá vinnu sem þegar hefur verið unnin á málefnasviðum í öðrum starfshópum.  

Varðandi framkvæmdaáætlun um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs komu m.a fram tillögur um að samræma þurfi leyfi ungra barna í leik- og grunnskólum þannig að foreldrar eigi auðveldara með að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Brúa þurfi hið svokallaða umönnunarbil á milli fæðingarorlofs og dagvistunar og lengja þurfi skólaár grunn- og framhaldsskóla til samræmis við það sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Einnig voru ræddar tillögur um sveigjanlegan vinnutíma, styttri vinnuviku og fæðingarorlof. Varðandi framkvæmdaáætlun um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval var meðal annars rætt um að nauðsynlegt sé að styrkja starf náms- og starfsráðgjafa og auka vinnumarkaðsfræðslu á öllum skólastigum. Einnig komu fram hugmyndir um tillögur að aðgerðum eins og vitundarvakningu, tæknidögum, námskynningum, vinnustaðaheimsóknum og fleira. Samþykkt var að næsti vinnudagur aðgerðahópsins verði 2. mars næstkomandi, starfsmaður sendir fundarboð. 

3.    „Á brattann að sækja“ – Sif Einarsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands

Sif Einarsdóttir prófessor var gestur fundarins. Hún hélt kynningu um grunnforsendur náms- og starfsvals ungmenna og fjallaði um kynjaskiptingu starfa á íslenskum vinnumarkaði. Sif telur að bæta þurfi náms- og starfsráðgjöf í íslenskum skólum en til að brjóta upp gamalgróið mynstur kynbundins náms- og starfsvals þurfi samhent átak margra aðila. Reglulega séu framkvæmdar áhugasviðskannanir sem sýni að starfsáhugi ungmenna sé mjög kynbundinn og hafi lítið breyst á undanförnum áratugum.  Á brattann sé að sækja fyrir þau ungmenni sem velji að fara óhefðbundnar leiðir og því þurfi margvíslegur stuðningur að vera fyrir hendi. Sif nefndi rannsóknir og nöfn sérfræðinga sem aðgerðahópurinn getur leitað til í vinnu sinni varðandi gerð framkvæmdaáætlunar um leiðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval.

4.    Jafnlaunastaðall

Guðný Einarsdóttir kynnti stöðu tilraunaverkefnis um innleiðingu jafnlaunastaðalsins; fór yfir hvar í innleiðingarferlinu þátttakendur eru staddir og hvaða vottunarstofur hyggjast bjóða upp á úttekt og vottun á staðlinum. Ýmis álitaefni hafa komið upp og munu GE og RGE leita upplýsinga og kynna úrlausn vandamála á næsta fundi hópsins. Eins og áður hefur verið fjallað um stendur til að opna vefsíðu jafnlaunastaðalsins á vefsíðu velferðarráðuneytisins og verður hún sett upp sem „verkfærakista“ fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem hyggjast innleiða staðalinn. Á síðunni verða hýst excelskjöl og leiðbeiningar um skjölun, starfaflokkun og launagreiningu. Einnig er fyrirhugað að tengja beint á erlendar síður sem hýsa sambærileg verkefni. Næstu námskeið hjá Starfsmennt um innleiðingu jafnlaunastaðals verða um mánaðamótin janúar – febrúar 2016 og ráðgert er að halda fjögur námskeið á vorönn. Eru fulltrúar aðgerðahópsins beðnir um að vekja athygli á námskeiðunum í sínu baklandi.

Rósa Guðrún Erlingsdóttir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta