Hoppa yfir valmynd
24.05.2017 11:45 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

43. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

Fundarheiti og nr. fundar: 43. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti.
Staður og stund:
Fjármála- og efnahagsráðuneytið, 24. maí 2017. Kl. 13.00–14.45.
Málsnúmer:
VEL17020025.

Mætt: Sigrún Helga Lund formaður (SHL), Berglind Eva Ólafsdóttir (BEÓ, SÍS), Hafdís Dögg Guðmundsdóttir (HDG, KÍ), Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB), Halldóra Friðjónsdóttir (HF, FJR), og Rósa G. Erlingsdóttir (RGE, VEL), starfsmaður aðgerðahóps.

Forföll boðaði:. Georg Brynjarsson (GB, BHM), Jóna Pálsdóttir (JP, MMR)

Fundarritari: Jóhanna Heiðdal Sigurðardóttir (JHS), Rósa G. Erlingsdóttir (RGE).

Gestur: Guðný Finnsdóttir, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Háskólanum í Reykjavík, Margrét Kristín Indriðadóttir og Kolbeinn Stefánsson, Hagstofu Íslands.

 

43. fundur
24. maí 2017, kl. 13.00–14.45

Dagskrá                                           

1. Fundargerð síðasta fundar

 Samþykkt án athugasemda.

2. Styrkir úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála

Aðgerðahópurinn hlaut í samstarfi við velferðarráðuneytið styrki til þriggja verkefna úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála. Sjóðnum er ætlað að stuðla að framkvæmd og eftirfylgni verkefna sem tilgreind eru í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum 2016–2019.

Styrkur fékkst til eftirfarandi verkefna:

a. Verkefnið Stelpur og tækni (4.0 milljónir) unnið í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Háskólann í Reykjavík. Markmið verkefnisins er að fjölga konum í verk- og raunvísindum. Styrkurinn verður nýtt til að fjármagna þátttöku stúlkna á landsbyggðinni. Verkefnisstjóri mun gera aðgerðahópnum grein fyrir verkefninu.

3. Gerður verður samstarfssamningur við Háskólann í Reykjavík um framkvæmd verkefnisins. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Tengsla í Háskólanum í Reykjavík kynnti verkefnið sem hefur verið starfrækt í fjögur ár í samstarfi við Samtök iðnaðarins og fyrirtæki í tæknigeiranum. Verkefnið miðar að því að vekja áhuga stelpna á fjölbreyttum möguleikum í raungreina- og tækninámi og störfum, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tæknigeiranum og brjóta niður staðalímyndir. Í samstarfi við velferðarráðuneytið og menntamálaráðuneytið er markmiðið að verkefnið nái einnig til stelpna í 8. bekk grunnskóla á landsbyggðinni. Þannig opnast möguleiki á að fjölga þátttakendum um helming eða úr 400 árið 2016 í 800 árið 2017.

Verkefnið fellur að þeim markmiðum stjórnvalda sem fram koma í framkvæmdaáætlun um að fjölga konum í verk-, tækni- og raunvísindum til að draga megi úr kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði og kynbundnu námsvali.

b. Verkefnið Rannsókn á launamun karla og kvenna fyrir árin 2014–2017 (2,5 milljónir).

Sótt var um styrk til framhaldsrannsóknar á kynbundnum launamun sem mun spanna árin 2014–2017. Verkefnið verður unnið í samstarfi við aðgerðahóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og Hagstofu Íslands. Lögð verður áhersla á að unnt verði að greina stöðu fólks af erlendum uppruna hvað varðar launamun í sömu rannsókn.

Gerður verður samstarfssamningur við Hagstofu Íslands um gerð framhaldsrannsóknar sem byggjast mun á sömu aðferðum og síðasta rannsókn sem náði til áranna 2008–2013.

Kostnaðarmat verður kynnt í ágúst og ætla má að unnt verði að kynna niðurstöður á jafnréttiþingi í lok október 2017.

c. Verkefnið Hlutastörf á íslenskum vinnumarkaði (2.5 milljónir) unnið í samstarfi við Hagstofu Íslands og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, prófessor í félagsfræði. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kanna nánar ástæður þess að fleiri konur en karlar vinna hlutastörf og hvort konum bjóðist síður en körlum að gegna fullu starfi á íslenskum vinnumarkaði og verða niðurstöðurnar nýttar við mótun tillagna um hvernig draga megi úr kynjamun hvað hlutastörf varðar.

Gerður verður samstarfssamningur við Háskóla Íslands og Hagstofuna um gerð rannsóknarinnar. Til að ná markmiði verkefnisins verður unnið úr fyrirliggjandi gögnum hjá Hagstofunni sem taka til umfangs og eðlis hlutastarfa.

            Gögn sem notuð verða:

1) Evrópska vinnumarkaðsrannsóknin, sem inniheldur upplýsingar um það hverjir eru í hlutastörfum, um ástæður fyrir því að fólk er í hlutastarfi og ýmsar aðrar upplýsingar um einkenni starfa; og

2) Lífskjararannsóknin, sem inniheldur ýmsar upplýsingar um afleiðingar slíkra starfa á þætti svo sem lífskjör, heilsu, starfsánægju og andlega líðan. Að auki verða nýtt gögn úr heilsufarsrannsókn Landlæknis.

Að auki verða tekin viðtöl við konur í hlutastarfi sem eru ánægðar með vinnuhlutfall sitt og þær sem eru óánægðar. Með því móti er hægt að varpa betur ljósi á jákvæðar og neikvæðar hliðar þess að vinna í hlutastarfi.

Niðurstöður munu liggja fyrir í ársbyrjun 2018. 

4. Starfshópur aðgerðahópsins um faggildingu og vottunarmál

Guðný kynnti stöðu verkefnisins fyrir hönd starfshóps aðgerðahópsins um faggildingu og vottunarmál.  Hópurinn hefur fundað með ýmsum aðilum til að fá yfirsýn yfir faggildingarmál og hvaða kröfur faggildingarsvið Einkaleyfastofu geti fyrir hönd stjórnvalda gert til vottunaraðila. Gert er ráð fyrir að verkefninu um gerð viðmiða vegna faggildingar muni ljúka á komandi hausti. Skilgreindar verða kröfur stjórnvalda um hæfi vottunaraðila m.a. inntak námskeiðs sem velferðarráðuneytið skal halda reglulega til að tryggja hæfi við úttekt og vottun jafnlaunakerfa.

Einnig mun starfshópurinn gera tillögur að breytingum á reglugerð um vottun jafnlaunakerfa svo undirbúa megi lögfestingu jafnlaunavottunar um komandi áramót. 

 

Fleira var ekki rætt.

Fundargerð rituðu JHS og RGE.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta