Hoppa yfir valmynd
29.06.2017 11:49 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

44. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

Fundarheiti og nr. fundar: 44. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti.
Staður og stund:
Fjármála- og efnahagsráðuneytið, 29. júní 2017, kl. 13.00–14.45.
Málsnúmer:
VEL17020025.

Mætt: Sigrún Helga Lund formaður (SHL), Hafdís Dögg Guðmundsdóttir (HDG, KÍ), Georg Brynjarsson (GB, BHM), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB), Halldóra Friðjónsdóttir (HF, FJR), og Rósa G. Erlingsdóttir (RGE, VEL), starfsmaður aðgerðahóps.

Forföll boðuðu: Jóna Pálsdóttir (JP, MMR), Berglind Eva Ólafsdóttir (BEÓ, SÍS), Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ),

Fundarritarar: Jóhanna Heiðdal Sigurðardóttir (JHS), Rósa G. Erlingsdóttir (RGE).

Gestur: Guðný Finnsdóttir, verktaki í velferðarráðuneytinu.

 

44. fundur
29. júní 2017, kl. 13.00–14.45

Dagskrá        

1. Fundargerð síðasta fundar

 

            Fundargerð síðasta fundar hefur verið send til samþykkis.

 

2. Starfshópur aðgerðahópsins um faggildingu og vottunarmál – staða verkefnis

 

Greint var frá vinnu starfshóps um faggildingu og vottunarmál. Unnið er að skilgreiningu sértækra viðmiða til vottunaraðila á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana umfram þær almennu kröfur sem settar eru fram í staðlinum ÍST EN ISO/IEC 17021. Viðmiðin munu gilda fyrir alla vottunaraðila sem sækja um faggildingu til að votta jafnlaunakerfi samkvæmt jafnlaunastaðlinum.        

 

Drög viðmiða verða send hagsmunaðilum til umsagnar og verða þau rædd á næsta fundi aðgerðahópsins. 

 

Við lögfestingu jafnlaunavottunar lagði meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis áherslu á að aðgangur að jafnlaunastaðlinum yrði tryggður vegna þeirrar skyldu sem breyting á lögum nr. 10/2008 felur í sér gagnvart atvinnurekendum. Var því beint til velferðarráðuneytisins að semja við Staðlaráð Íslands um aðgang almennings að staðlinum.

 

Óskað verður í sumar eftir samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, sem fer með mál staðla og Staðlaráðs Íslands, um þau álitamál sem upp komu í aðdraganda lögfestingar jafnlaunavottunar en óljóst er hvort eða með hvaða hætti velferðarráðuneytinu sé heimilt að birta efnisatriði staðalsins.

 

 

3. Lögfesting jafnlaunavottunar – undirbúningur

 

Framundan er í velferðarráðuneytinu vinna við reglugerð um nánari framkvæmd jafnlaunavottunar, sbr. heimild í 19. gr. laga nr. 10/2008, sem hefur meðal annars að markmiði að staðfesta skyldubundna notkun jafnlaunastaðalsins til að atvinnurekendur geti uppfyllt kröfur um vottun jafnlaunakerfa. Nánar verður rætt um undirbúning þess verkefnis á næsta fundi aðgerðahópsins.

 

Reglugerð nr. 365/2017, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85, og reglur um notkun jafnlaunamerkisins verða endurskoðaðar í samræmi við breytingar á lögum nr. 10/2008 vegna jafnlaunavottunar og lagðar fyrir næsta fund aðgerðahópsins.

 

Í haust verður haldið námskeið fyrir úttektar- og vottunaraðila í jafnréttis- og vinnumarkaðsmálum sem þýðingu hafa fyrir vottun í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins.

 

Í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 365/2017 er vottunaraðilum, sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt staðli 17021, heimilt að framkvæma úttektir og votta jafnlaunakerfi fyrirtækja og stofnana til 31. desember 2019 þótt ekki liggi fyrir faggilding sem á við jafnlaunastaðalinn. Vottunaraðilar skulu á tímabilinu tilkynna ráðuneytinu um úttektir sem þeir framkvæma og hafa reglulegt samráð við ráðuneytið um framkvæmd úttekta og innleiðingu vinnuferla. Haldinn verður samráðsfundur með vottunaraðilum í haust þar sem óskað verður eftir ofangreindum upplýsingum.

 

4. Kynning á skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði, maí 2017

 

Nefnd BSRB um fjölskylduvænna samfélag gaf í lok maí síðastliðinn út skýrslu um dagvistunarúrræði bæjar- og sveitarfélaga.

 

Helstu niðurstöður skýrslunnar voru kynntar af fulltrúa BSRB og rætt um leiðir til að koma efni hennar á framfæri í samræmi við umfjöllun um jafnrétti á vinnumarkaði. Á jafnréttisþingi mætti til dæmis bjóða upp á málstofu um stöðu fæðingarorlofsmála.

 

 

5. Jafnréttisþing – afhending jafnlaunagripsins

 

Ráðgert er að jafnréttisþing 2017 verði haldið 26. og 27. október næstkomandi og verður meðal annars lögð áhersla á jafnlaunamál  og jafnrétti á vinnumarkaði sem og lögfestingu mismununar-tilskipana Evrópusambandsins hér á landi.

 

Óskað hefur verið eftir samstarfi við aðgerðahópinn vegna þingsins og fulltrúar í hópnum beðnir um að senda inn hugmyndir að efni sem áhugavert væri að kynna og ræða á þinginu. 

 

Fleira var ekki rætt.

 

RGE. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta