Lýsing á aðgerð
A.1. Forvarnarfulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Innan Sambands íslenskra sveitarfélaga starfi forvarnafulltrúi sem hafi það hlutverk að fylgja eftir aðgerðaáætlun þessari, svo sem nánar er tilgreint í einstökum aðgerðum. Fulltrúinn styðji við skólaskrifstofur sveitarfélaganna við miðlun fræðslu og forvarna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, bæði í leikskólum og grunnskólum, ásamt frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Fulltrúinn miðli einnig þekkingu og fræðslu til grunnskóla og leikskóla sem ekki heyra undir skólaskrifstofur sveitarfélaga, þar á meðal sjálfstæðra skóla. Fulltrúinn hafi jafnframt það hlutverk gagnvart framhaldsskólum að miðla þekkingu og styðja framhaldsskóla við að efla kennslu og forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Þá safni forvarnafulltrúinn gögnum um árangur einstakra aðgerða.
- Mælikvarði: Forvarnafulltrúi hafi tekið til starfa á árinu 2021.
- Kostnaðaráætlun: 16 millj. kr. á ársgrundvelli, þar af eru 12–14 millj. kr. vegna launakostnaðar og annað vegna ferðakostnaðar.
- Ábyrgðaraðili: Samband íslenskra sveitarfélaga.
- Dæmi um samstarfsaðila: Forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Jafnréttisstofa, embætti landlæknis, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, Barnaverndarstofa, Menntamálastofnun, skólaskrifstofur sveitarfélaga, umboðsmaður barna, fagfélög skólastjórnenda, kennarar og Grunnur – félag fræðslustjóra.
Staða verkefnis
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ráðið Ölfu Dröfn Jóhannsdóttur í starf forvarnafulltrúa og tók hún til starfa í ágúst 2021.
Verkefninu telst vera lokið.