Lýsing á aðgerð
D.3. Þróun námsefnis fyrir framhaldsskóla.
Tryggt verði að framhaldsskólar hafi aðgang að vönduðu námsefni sem stuðli að forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og henti framhaldsskólanemendum á öllum aldri, sbr. grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Farið verði heildstætt yfir náms- og fræðsluefni sem til er og mælt verði með uppfærslu og endurútgáfu þar sem það á við. Þá verði þróað nýtt gagnvirkt efni sem byggist á gagnreyndri þekkingu og hæfi aldri og þroska nemenda og taki mið af notkun framhaldsskólanema á stafrænni tækni. Sérstaklega verði tekið tillit til ólíkra þarfa og aðstæðna kynjanna og mismunandi einstaklinga og hópa, svo sem fatlaðra, hinsegin fólks og þeirra sem hafa annað móðurmál en íslensku. Einkum verði lögð áhersla á námsefni sem fjalli með beinum og opinskáum hætti um eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni. Jafnframt verði útbúið vandað námsefni um kynheilbrigði og kynhegðun, sbr. þingsályktun nr. 35/149, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Efninu fylgi greinargóðar leiðbeiningar til kennara og annars starfsfólks um notkun þess. Námsefnið verði aðgengilegt á vefsvæði Menntamálastofnunar og verði öllum opið og frjálst til notkunar.
- Mælikvarði: Nýtt námsefni fyrir framhaldsskóla verði tilbúið fyrir árslok 2022.
- Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr. árlega árin 2021 og 2022.
- Ábyrgðaraðili: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
- Dæmi um samstarfsaðila: Menntamálastofnun, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Barnaverndarstofa, Félag framhaldsskólakennara, Jafnréttisstofa, Stígamót, Þroskahjálp og Tabú.
Staða verkefnis
Út er komin handbókin Kynbundið ofbeldi og skólakerfið. Um er að ræða handbók fyrir kennara ásamt verkefnahugmyndum. Efnið var unnið af kennurum í kynjafræði framhaldsskóla. Handbókin er rafæn og vistuð á vefnum Stopp ofbeldi!
Verkefninu telst vera lokið.