Lýsing á aðgerð
C.1. Forvarnateymi grunnskóla.
Í hverjum grunnskóla starfi teymi sem hafi það hlutverk að tryggja kennslu í öllum árgöngum um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem hæfir aldri og þroska nemenda. Teymið verði kennurum og öðru starfsfólki til stuðnings og ráðgjafar varðandi fræðslu og umræðu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og sjái einnig um að tryggja viðunandi þekkingu og þjálfun starfsfólks. Teymið leitist jafnframt við að tryggja samhæfð viðbrögð starfsfólks með tilliti til ólíkra hópa og ólíkra einstaklinga í tilfellum þar sem börn reyna að greina frá ofbeldi og áreitni. Sérstaklega verði horft eftir merkjum um slíkt í tengslum við umfjöllun sem tengist forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Hvert teymi verði skipað með eftirfarandi hætti, þó eftir því sem við á innan hvers skóla: stjórnandi, kennari með þekkingu á málaflokknum, skólahjúkrunarfræðingur, skólasálfræðingur, þroskaþjálfi/sérkennari eða annar aðili sem ber ábyrgð á sérkennslu, námsráðgjafi, tengiliður við frístundaheimili og/eða tengiliður við félagsmiðstöð og tengiliður við félagsþjónustu. Teymið verði jafnframt tengiliður við skólaskrifstofur sem sjái um að miðla þekkingu og fræðslu. Skólaskrifstofur fylgi því eftir að innan hvers skóla verði starfrækt slíkt teymi.
- Mælikvarði: Teymi verði starfrækt í hverjum grunnskóla fyrir árslok 2021.
- Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
- Ábyrgðaraðili: Skólastjórar grunnskóla og skólaskrifstofur sveitarfélaga.
- Dæmi um samstarfsaðila: Forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og heilsugæslan.
Staða verkefnis
Nú hefur forvarnarteymum ofbeldis verið komið til framkvæmda innan allra grunnskóla landsins. Forvarnarteymi ofbeldis hafa fengið fræðslu á vegum forvarnarfulltrúa til að styrkja þau í starfi, sú vinna mun halda áfram.
Verkefninu telst vera lokið.