Lýsing á aðgerð
A.4. Netnámskeið fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum.
Útbúið verði gagnvirkt netnámskeið með grunnfræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni fyrir fólk sem starfar með börnum og ungmennum. Efnistök byggist á efni sem hefur verið unnið í tengslum við námskeiðið Verndum þau en höfundar þess eru sérfræðingar í Barnahúsi. Námskeiðið verði í fjórum útgáfum með eftirfarandi markhópa í huga: 1) leikskóla, 2) yngri bekki grunnskóla ásamt frístundaheimilum, 3) eldri bekki grunnskóla ásamt félagsmiðstöðvum og 4) framhaldsskóla. Þá verði útbúið viðbótarefni sem beinist sérstaklega að fagaðilum sem starfa með fötluðum börnum og ungmennum. Byggt verði á netnámskeiði í barnavernd sem útbúið var fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þó verði lögð megináhersla á eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni. Námskeiðið verði hannað með þeim hætti að stjórnendur geti fylgst með að starfsfólk hafi lokið námskeiðinu og að Barnaverndarstofa fái sjálfkrafa upplýsingar um heildarfjölda þeirra sem taka námskeiðið.
- Mælikvarði: Netnámskeið verði tilbúin árið 2022.
Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr. á árinu 2021, 4 millj. kr. á árinu 2022 og 0,5 millj. kr. á árunum 2023–2025 til að tryggja eftirfylgni. - Ábyrgðaraðili: Barnaverndarstofa (Barnahús).
- Dæmi um samstarfsaðila: Umboðsmaður barna, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, forvarnafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Æskulýðsvettvangurinn, Menntamálastofnun, Jafnréttisstofa, Barnaheill, Stígamót, Þroskahjálp/Átak – félag fólks með þroskahömlun, réttindagæslumaður fatlaðs fólks, Tabú, Fjölmenningarsetur og Samtökin '78.
Staða verkefnis
Samkvæmt þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundu ofbeldi og áreitni ásamt áætlunu um aðgerðir fyrir árin 2021-2025 er hlutverk Barna- og fjölskyldustofu (áður Barnaverndarstofu) að setja á laggirnar netnámskeið fyrir starfsfólk sem starfar með börnum og ungmennum. Námskeiðið fjallar um einkenni barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og hvernig bregðast skuli við ef barn greinir frá ofbeldi. Námskeiðið er í fjórum útgáfum með eftirfarandi markhópa í huga: 1) leikskóla, 2) yngri bekki grunnskóla ásamt frístundaheimilum, 3) eldri bekki grunnskóla ásamt félagsmiðstöðvum og 4) framhaldsskóla. Námskeiðið er hannað með þeim hætti að stjórnendur geti fylgst með að starfsfólk hafi lokið námskeiðinu þar sem starfsfólk fær viðurkenningarskjal í lok námskeiðisins sem ætlað er til upplýsinga fyrir yfirmenn. Barna- og fjölskyldustofa fær sjálfkrafa upplýsingar um heildarfjölda þeirra sem taka námskeiðið. Mikilvægt er að yfirmenn fylgist með hverjir sæki námskeiðið og fylgi því eftir sem og gefi starfsfólki sínu ráðrúm til þess að nýta sér námskeiðið.
Námskeiðin má finna hér: https://bofs.teachable.com/
Mikilvægt er að öll þau sem vinna með börnum og unglingum þekki einkenni barna sem hafa orðið fyrir hvers kyns kynferðisofbeldi. Með því að bregðast við eins hratt og hægt er því minni líkur eru á því að ofbeldið eigi sér stað yfir lengri tíma eða afleiðingarnar hafi varanleg áhrif á líðan barnanna.
Mikilvægt er einnig að starfsfólk sem vinnur með börnum horfi á fyrirlesturinn á hverju ári til að tryggja að starfsfólk viðhaldi þekkingu sinni.
Verkefninu telst vera lokið.