Lýsing á aðgerð
Jöfn tækifæri kynjanna í alþjóðaviðskiptum - „Jafnrétti til útflutnings“.
Utanríkisráðuneytið leggi áherslu á að ryðja úr vegi kynbundnum viðskiptahindrunum og breiða út þá þekkingu sem hefur skapast á Íslandi varðandi jafnrétti, t.d. á vegum Uppbyggingarsjóðs EES. Ráðuneytið „markaðssetji“ markvisst jafnréttisverkefni í þeim 15 ríkjum sem falla undir Uppbyggingarsjóð EES í því skyni að miðla reynslu og þekkingu hérlendis til þeirra. Jafnframt verði unnið að því að nýta til fullnustu það fjármagn sem í boði er til að skerpa á jafnréttisáherslum, og efla það orðspor sem Ísland hefur byggt upp sem land jafnréttis, og þeirri hugmyndafræði sem Ísland vill vera leiðandi fyrirmynd að í alþjóðastarfi.
Utanríkisráðuneytið beiti sér fyrir því að jafnréttisákvæði verði sett í viðskiptasamninga, bæði á vegum EFTA og í öðrum tvíhliða samningum. Jafnframt haldi utanríkisráðuneytið áfram að setja jafnrétti á dagskrá í umræðu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og fylgja eftir yfirlýsingu um valdeflingu kvenna og þátttöku í alþjóðaviðskiptum sem yfir 120 ríki WTO sendu frá sér á ráðherrafundi stofnunarinnar árið 2017.
Utanríkisráðuneytið vinni að því að jafna hlut kvenna í starfsemi ráðuneytisins á sviði viðskiptamála, t.d. við gerð viðskipta- og fríverslunarsamninga, setu í nefndum og vinnuhópum á sviði alþjóðaviðskiptamála og þátttöku í viðskiptasendinefndum embættismanna eða ráðherra erlendis.
Tímaáætlun: 2020–2023.
Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.4, 8.3, 8.5, 8.7 og 8.8.
Staða verkefnis
Jafnréttisákvæði er nú að finna í fyrirmynd af samningskafla EFTA á sviði viðskipta og sjálfbærni sem er grundvöllur samningaviðræðna við þriðju ríki.. Samningaviðræður við Síle, Indland og Moldóvu er öllum ný lokið og innihalda allir samingarnir jafnréttisákvæði. Í yfirstandandi viðræðum EFTA um gerð eða uppfærslu á fríverslunarsamningum við Malasíu, Tæland, Merkósúr (Brasilía, Argentína, Paragvæ, Úrúgvæ), Kósovó og Úkraínu leggur Ísland ríka áherslu á að samningarnir innihaldi jafnréttisákvæði og sem stendur lítur út fyrir að það muni ganga eftir.
Óformlegur vinnuhópur um viðskipti og kynjajafnrétti var settur á laggirnar hjá Alþjóðaviðskipastofnuninni á grundvelli Buones Aires ráðherrayfirlýsingarinnar, sem samþykkt var í tengslum við ráðherrafund stofnunarinnar árið 2017. Ísland var í leiðandi hlutverki í þeirri vinnu og leiddi starf vinnuhópsins fyrstu árin, ásamt Botswana og El Salvador. Þökk sé öflugu starfi vinnuhópsins og líkt þenkjandi ríkja var að finna ákvæði um efnahagslega valdeflingu kvenna í ráðherrayfirlýsingum ráðherrafunda Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar árin 2023 og 2024. Þannig hefur málefninu verið haldið á lofti í dagskrá stofnunarinnar.
Í tengslum við reglubundna rýni á viðskiptastefnu aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur Ísland lagt fyrir ríkin spurningar um kynjasjónarmið og viðskipti. Hefur það leitt til þess að aðildarríki gera í auknum mæli grein fyrir kynjaðri stefnumótun í skýrslum sínum.
Í lok árs 2023 var samið við Evrópusambandið um komandi starfstímabil Uppbyggingarsjóðs EES fyrir árin 2021-2028. Ísland hefur lagt áherslu á að markmið sjóðsins taki mið af jafnréttismálum og samvinnu á þeim vettvangi. Utanríkisráðuneytið rekur gagnagrunn til þess að auðvelda aðilum í viðtökuríkjum styrkja Uppbyggingarsjóðsins að finna samstarfsaðila á sviði jafnréttismála. Gagnagrunnurinn veitir upplýsingar um félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki sem hafa áhuga á að deila með viðtökuríkjunum þeim leiðum sem þau hafa farið í jafnréttismálum en einnig á fleiri sviðum.
Verkefninu er lokið.
Ábyrgð
Utanríkisráðuneytið