Lýsing á aðgerð
Jafnrétti og öryggi í leik- og grunnskólum og framhaldsskólum.
Unnið verði að eflingu fræðslu og þekkingar um kynbundna mismunun og kynferðislega áreitni, hótanir og ofbeldi meðal barna og ungmenna auk allra þeirra sem vinna í leik- og grunnskólum og framhaldsskólum. Fræðslan verði aðlöguð að aldri og þroska barna og ungmenna auk þess sem þekking á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði efld.
Tímaáætlun: 2020–2023.
Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið (nú mennta- og barnamálaráðuneytið).
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 4.1, 4.2, 4.5, 4.a, 5.1, 5.2 og 5.c.
Staða verkefnis
Námskeiðið Kynbundið ofbeldi: forvarnir og fræðsla er í boði í Menntafléttu bæði 2022 og 2023. Námskeiðið er fyrir kennara í grunn- og framhaldsskólum, tómstunda- og félagsmálafræðinga og starfsfólk í félagsmiðstöðvum, frístundaheimilum og æskulýðsstarfi, skólahjúkrunarfræðinga, fólk sem sér um félagsstörf nemenda, sálfræðinga og annað fólk í stoðþjónustu skóla- og frístundastarfs frá upphafi grunnskólans til loka framhaldsskólans. Í námskeiðinu eru viðteknar hugmyndir samfélagsins um jafnrétti og ofbeldi teknar til gagnrýnnar skoðunar. Markmið námskeiðsins er tvíþætt: Annars vegar að auka skilning þátttakenda á kynbundu ofbeldi og birtingarmyndum þess í samfélaginu. Hins vegar að þátttakendur efli færni sína í að leiða umræðu, vinna með samfélagsleg viðhorf og að málum tengdum kynbundnu ofbeldi sem kunna að koma upp í starfi á vettvangi.
Vefur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hefur verið endurskoðaður með stuðningi stjórnvalda og aðkomu ýmissa félagasamtaka, Umboðsmanns barna og Menntamálastofnunar. Þar má finna upplýsingar fyrir börn, foreldra og kennara um réttindi barna og verkferli tilkynninga til barnaverndar. Vefurinn Stopp ofbeldi! Hjá Menntamálastofnun er nýr safnvefur. Þar er búið að taka saman efni sem nýtist til forvarnarvinnu um kynbundið ofbeldi og áreiti á öllum skólastigum. Efnið kemur víða að en Menntamálastofnun fékk það verkefni að gera málaflokkinn aðgengilegan á einum stað til að auðvelda vinnu með hann. Efnið á vefnum Stopp ofbeldi! tekur mið af aldri barna en að sjálfsögðu getur mikið af því hentað ýmsum skólastigum. Það er flokkað fyrir börn í leikskóla og yngstu börn í grunnskóla, nemendur á miðstigi, unglingadeild og framhaldsskóla. Bækur sem bent er á er bæði hægt að kaupa hjá bóksölum og fá þær að láni á bókasöfnum.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti gerði vorið 2022 styrktarsamning til þriggja ára við UNICEF til þróunar og innleiðingar á Réttindaskóla UNICEF og innleiðingur á verkefninu um barnvæn sveitarfélög. Samningur UNICEF á Íslandi og ráðuneytisins gerir UNICEF á Íslandi kleift að veita skólum og sveitarfélögum um allt land ráðgjöf og fræðslu við innleiðingu Barnasáttmálans. Í dag vinna 45 grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar með UNICEF að verkefninu Réttindaskóli og -frístund.
Menntamálastofnun hefur vakið athygli á handbókum um velferð og öryggi barna í leik- og grunnskólum, sem gefnar voru út af mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir starfsfólk skóla á prenti og rafrænu formi. Menntamálastofnun hefur einnig það hlutverk að endurskoða handbækurnar og uppfæra eftir þörfum og er sú vinna í gangi.
Auk þess er margvíslegt efni um ofbeldi, m.a. gegn börnum aðgengilegt á vef 112.is.
Verkefninu er lokið.
Ábyrgð
Mennta- og menningarmálaráðuneytið