Lýsing á aðgerð
Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða.
Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða hefur verið viðvarandi verkefni innan Stjórnarráðsins, m.a. í tengslum við fyrri framkvæmdaáætlanir ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og áætlanir um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Á gildistíma áætlunarinnar verði unnið að gerð og innleiðingu heildstæðrar áætlunar til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og stofnana ríkisins. Áætlunin taki mið af þeim samþættingarverkefnum sem þegar hafa verið unnin í ráðuneytum og ríkisstofnunum, einkum verkefni um jafnréttismat á stjórnarfrumvörpum og verkefni unnin í tengslum við innleiðingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, þ.m.t. gerð skapalóna fyrir stefnumótun og innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð fyrir tímabilið 2019–2023. Verkefnið er samstarfsverkefni verkefnisstjórnar um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða og jafnréttisfulltrúa ráðuneyta auk verkefnisstjórnar um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Áætlunin feli m.a. í sér:
- Tillögur um innleiðingu samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða í starfsemi og stefnumótun ráðuneyta og ríkisstofnana, einkum lögbundnar áætlanir og áætlanagerð ráðuneyta og ríkisstofnanir.
- Tillögur um hvernig betur megi hagnýta niðurstöður kynja- og jafnréttismats við frumvarpsgerð og aðra stefnumótun.
- Kortlagningu og tillögur um úrbætur við söfnun og notkun kyngreindra upplýsinga og gagna, sem og hagnýtingu rannsókna, til stuðnings stefnumörkun og ákvörðunum sem taki mið af kynja- og jafnréttissjónarmiðum.
- Tillögur um fræðslu og þjálfun.
- Tillögur um verkefni á málefnasviði hvers ráðuneytis sem prófunarverkefni og síðan sem hluti af reglubundinni starfsemi og verklagi þar eftir.
- Tillögur um eftirfylgni með verkefnum.
- Tillögur um reglubundið samráð og samstarf allra þeirra sem gegna lykilhlutverki á sviði samþættingarmála.
Tímaáætlun: 2020–2023.
Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr. til framkvæmdar verkefna auk launa sérfræðings.
Ábyrgð: Forsætisráðuneytið, í samstarfi við jafnréttisfulltrúa ráðuneyta, og fjármála- og
efnahagsráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum við markmið 5.1, 10.3, 10.4, 16.6, 16.7, 16.10, 16.b og stuðlar að samþættingu markmiðs 5 við önnur heimsmarkmið..
Staða verkefnis
Samþætting kynja- og jafnréttissónarmiða er viðvarandi verkefni og er unnið samkvæmt 30. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.
Málefnasvið og málaflokkar hins opinbera hafa verið jafnréttismetin og kortlögð sbr, Kortlagning kynjasjónarmiða – Stöðuskýrsla 2022 sem birt var í ágúst 2022. Kortlagning þessi styður við stefnumótun, markmiðasetningu, lagasetningu sem og ákvarðantöku við gerð fjárlaga og fjármálaáætlunar.
Þá hafa nokkur ráðuneyti gert frekari kortlagningu á málaflokkum sínum út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum, sjá m.a. hér: https://www.stjornarradid.is/verkefni/mannrettindi-og-jafnretti/jafnretti/utgefid-efni/#Tab1
Unnið var að tveim tilraunaverkefnum til að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við tvær lögbundnar áætlanir, byggðaáætlun og samgönguáætlun. Byggðaáætlun 2022-2036 var samþykkt á Alþingi í júní 2022, í henni er sett fram aðgerð sem snýr að kynja- og jafnréttismálum. Við gerð samgönguáætlunar var gerð Grænbók um samgöngur þar sem stöðumat var unnið á kynja- og jafnréttissjónarmiðum þegar kemur að samgöngum, ráðgert er að samgönguáætlun verði lögð fram á Alþingi vorið 2023.
Starfshópur var skipaður um kyngreind tölfræðigögn. Markmiðið er að bæta yfirsýn yfir kyngreind tölfræðigögn og stuðla að því að söfnun og notkun á kyngreindum tölfræðigögnum hjá opinberum aðilum verði gerð með sambærilegum hætti. Vinna við kortlagningu og tilllögur um úrbætur við söfnun og notkun kyngreindra upplýsinga og gagna er komin vel á veg.
Leiðbeiningar um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við frumvarpagerð, aðrar stefnur og áætlanir hafa verið unnar.
Gefið hefur verið út skjal um stöðumat og valkosti er kemur að stefnumótun og áætlanagerð og er því ætlað að vera tæki sem öll þau sem vinna að stefnumótun og áætlanagerð í Stjórnarráðinu, geti notað við undirbúningstefnumótunar. Hluti af stöðumatsferlinu er að gera grein fyrir mati á kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Tilgangurinn er að tryggja að stefnan sem mótuð verður viðhaldi eða stuðli að kynjajafnrétti og öðrum jafnréttissjónarmiðum eftir því sem við á.
Greiningarammi fyrir jafnréttismat var útbúinn fyrir starfsfólk Stjórnarráðsins, sem ákveðinn leiðarvísir við gerð jafnréttismats og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða. Þá er námskeið um jafnréttismat aðgengilegt í Stjórnarráðsskólanum fyrir starfsfólk Stjórnarráðsins sem vinnur að kynjaðri fjárlagagerð og samþættingu.
Við undirbúning fjárlagafrumvarps fyrir árið 2022 skiluðu ráðuneyti í fyrsta skipti jafnréttismati með fjárlagatillögum sínum. Áhrif á jafnrétti eru þannig orðin hluti af ákvarðanatöku við fjárlagagerð.
Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð er ein tegund af kynjasamþættingu þar sem ráðstöfun fjármagns er sérstaklega skoðað. Þessi aðgerð hefur því mikla skörun við aðgerð 6 í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020 - 2023: Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð.
Verkefninu er lokið.
Ábyrgð
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið