Lýsing á aðgerð
Framkvæmd Istanbúl-samningsins.
Unnin verði stefnumarkandi landsáætlun um framfylgd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins) frá 2011. Verkefnið er í samræmi við 10. gr. samningsins sem kveður á um ábyrgð hins opinbera á samræmingu, framkvæmd, eftirfylgni og mati á aðgerðum og ráðstöfunum sem eru tilkomnar vegna samningsskuldbindinga. Landsáætlunin hafi jafnframt að markmiði að skapa heildaryfirsýn yfir innleiðingu laga, stjórnvaldsaðgerðir og aðrar ráðstafanir, þ.m.t. gagnasöfnun og rannsóknir, sbr. 11. gr. samningsins. Samhliða verði unnið að undirbúningi fyrstu fyrirtöku Íslands árið 2021 hjá eftirlitsnefnd samningsins með framkvæmd skuldbindinga hans. Landsáætlunin verði unnin í samráði við önnur ráðuneyti, ríkisstofnanir, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra hlutaðeigandi og muni m.a. fela í sér eftirfarandi aðgerðir:
- Leitað verði fyrirmynda í landsáætlunum annarra aðildarríkja Evrópuráðsins.
- Mótuð verði tímasett landsáætlun með markmiðum, aðgerðum, árangursvísum og ábyrgðaraðilum.
- Metin verði framfylgni ákvæða samningsins hér á landi m.t.t. löggjafar og annarra ráðstafana.
- Undirbúin verði stöðuskýrsla um framkvæmd samningsins árlega.
- Staðið verði fyrir kynningu og fræðslu á samningnum og landsáætlun á vef Stjórnarráðsins og víðar.
Tímaáætlun: 2020–2023.
Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
Ábyrgð: Forsætisráðuneytið í samstarfi við stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er
varðar kynferðislegt ofbeldi og ráðuneytin sem eiga þar sæti.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.2, 5.3, 5.6, 10.2, 10.3, 10.4, 16.1, 16.2, 16.3, 16.6 og 16.10.
Staða verkefnis
Fyrstu úttekt GREVIO, sérfræðinganefndar Istanbúl-samningsins, á Íslandi lauk í nóvember 2022 með stöðuskýrslu nefndarinnar um innleiðingu samningsins á Íslandi. Haustið 2021 gáfu íslensk stjórnvöld út skýrslu um stöðu innleiðingar samningsins á Íslandi. Nefndarmenn sóttu Ísland heim í lok mars 2022, þar sem þeir funduðu með fulltrúum stjórnvalda, þ.e. ráðuneyta og undirstofnana, og fulltrúum frjálsra félagasamtaka og lauk úttektinni í nóvember sl. með framangreindri skýrslu. Í skýrslunni setur nefndin fram tilmæli um það sem betur megi fara við innleiðingu samningsins. Snerta tilmælin á margvíslegum málefnum og eru frá því að vera smávægilegar ábendingar um hvað stjórnvöld geti skoðað að gera betur yfir í sterklega orðaðar hvatningar til breytinga sem nauðsynlegar séu í því skyni að Ísland uppfylli að fullu skilyrði Istanbúl-samningsins. Skipaður var starfshópur af dómsmála- og forsætisráðherra um gerð landsáætlunar um innleiðingu Istanbúl-samningsins á Íslandi í febrúar 2022. Í starfshópnum var ákveðið að bíða eftir niðurstöðum GREVIO-nefndarinnar og í kjölfarið halda vinnu um gerð landsáætlunar áfram. Ákveðið var að skipa starfshópinn upp á nýtt og var það gert í september.
Verkefnið er komið vel á veg.
Ábyrgð
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið