Lýsing á aðgerð
Jafnrétti í stjórnun fyrirtækja.
Unnið verði að því að meta framkvæmd á ákvæðum laga um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja sem var bætt við lög um hlutafélög, nr. 2/1995, og lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með sérstökum breytingalögum, nr. 13/2010, og tóku gildi 2013. Verkefnið felur m.a. í sér eftirfarandi:
Skoðað verði hvort markmiðunum með setningu ákvæðanna hafi verið náð.
Löggjöfin verði rýnd og skoðað hver sé raunverulegur ávinningur m.t.t. markmiða jafnréttislaga um jöfn áhrif kvenna og karla í samfélaginu.
Leiðir til úrbóta verði greindar ef þörf þykir.
Tímaáætlun: 2020–2023.
Kostnaðaráætlun: Allt að 3 millj. kr.
Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (nú menningar- og viðskiptaráðuneytið).
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.5, 5.c, 10.2, 10.3 og 10.5.
Staða verkefnis
Verkefninu lauk samhliða skilum á greinargerð sem byggir á lýsingu verkefnisins. Með greinargerðinni var farið yfir aðdraganda að setningu kynjakvótaákvæða 1. mgr. 63. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 1. mgr. 39. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, auk þess sem framkvæmdin hérlendis var sett í samanburð við nokkur Evrópuríki sem hafa innleitt sambærileg lagaákvæði um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja. Á grundvelli tölfræðiupplýsinga frá Hagstofu Íslands var farið yfir kynjahlutföll í stjórnum félaga og þróun hérlendis frá árinu 2008 til dagsins í dag. Í samræmi við lýsingu verkefnisins voru ákvæði um kynjakvóta rýnd og varpað ljósi á þá óvissu sem virðist vera uppi, hvað varðar skýrleika viðurlagaákvæða vegna brota á fyrrnefndum kynjakvótaákvæðum. Fjallað um ávinning kynjakvótaákvæðanna með tilliti til markmiða jafnréttislaga um jöfn áhrif kvenna og karla í samfélaginu. Loks voru gerðar tillögur til úrbóta.Í eftirfarandi töflum má finna upplýsingar um samanburð á kröfu kynjakvótaákvæðanna um kynjahlutföll eftir fjölda stjórnarmanna og núverandi hlutfalli kvenna í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga:
Fjöldi stjórnarmanna í félögum með 50+ launamenn |
Krafa um kynjahlutfall skv. lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994 |
Tölur Hagstofunnar, um hlutfall kvenna, birtar 2023 |
2 |
50,0% |
21,0% |
3 |
33,3% |
33,6% |
4+ |
40,0% |
38,3% |
Fjöldi stjórnarmanna í félögum með 50+ launamenn |
Krafa um kynjahlutfall skv. lögum um hlutafélög nr. 2/1995 |
Tölur Hagstofunnar, um hlutfall kvenna, birtar 2023 |
3 |
33,3% |
38,3% |
4+ |
40,0% |
41,8% |
Við mat á því hvort kynjakvótaákvæðin hafi náð markmiði sínu, þarf að hafa í huga, að öllum félögum sem kynjakvótaákvæðin taka til, ber að uppfylla skilyrði ákvæðanna um kynjahlutföll stjórnarmanna. Af því leiðir, að heildarhlutfall kynja í stjórnum félaga, líkt og birtist í töflunum hér að framan, gefur ekki annað en vísbendingu um hvort markmiði laganna hafi verið náð. Á sama tíma er því ekki haldið fram, að ákvæðin geti ekki náð markmiði sínu þrátt fyrir að fáein félög starfi í andstöðu við kynjakvótaákvæðin. En þegar horft er til þess, að tíu ár eru liðin frá gildistöku kynjakvótaákvæðanna, og enn uppfylla 70 af þeim 288 félögum sem kynjakvótaákvæðin ná yfir, ekki lágmarkshlutfall annars kyns stjórnarmanna, er óhætt að slá því föstu að ákvæðin hafi ekki náð markmiði sínu. Að minnsta kosti ekki að öllu leyti. Nánar tiltekið er um að ræða 11,2% hlutafélaga með 50 eða fleiri starfsmenn sem uppfylla ekki skilyrði kynjakvótaákvæðanna, og 30,2% einkahlutafélaga með 50 eða fleiri starfsmenn.
Í samræmi við lýsingu verkefnisins var ákveðið að gera tillögur til úrbóta, en þær eru sem segir:
Sett verði markmið um að stjórnir allra hlutafélaga, sem og einkahlutafélaga, með 50 starfsmenn eða fleiri, verði skipaðar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, eða eftir atvikum 1. mgr. 39. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, að ári liðnu. Á meðan markmiðinu stæði mætti auka vitund félaga um kynjakvótaákvæðin, til dæmis með fræðslu um markmið ákvæðanna, samfélagslegum áhrifum þess að stjórn sé skipuð í samræmi við ákvæðin, sem og ávinning þess fyrir félögin sjálf.
Verkefninu er lokið.Ábyrgð
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið