Lýsing á aðgerð
Innleiðing jafnréttisvottunar í þróunarsamvinnu.
Utanríkisráðuneytið innleiði jafnréttisvottun í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands í samstarfi við Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP). Helsta markmið vottunarinnar verði að styrkja ráðuneytið og sendiráð Íslands í Lilongwe og Kampala í innra stefnumótunarstarfi í þróunarsamvinnu með sérstakri áherslu á ytra starf á sviði jafnréttismála. Innleiðingarferli hefjist árið 2020 og áætluð lok vottunarferlisins verði í janúar 2021. Ísland verði fyrst aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og þróunarsamvinnunefndar hennar (DAC) til að innleiða slíkt vottunarferli á sviði jafnréttismála.
Tímaáætlun: 2020–2021.
Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Samræmist öllum heimsmarkmiðum en styður einkum markmið 3.1, 3.2, 3.7, 4.1, 4.5, 4.a, 5.4, 6.1 og 6.2.
Staða verkefnis
Ísland hlaut gullvottun frá Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (United Nations Development Programme, UNDP) í apríl 2022 og er þar með fyrsta framlagsríkið sem undirgengst slíka vottun.
Markmið vottunarinnar er meðal annars að efla stjórnendur og starfsfólk utanríkisráðuneytisins, einkum á sviði þróunarsamvinnu, í stefnumótun og framkvæmd verkefna í jafnréttismálum, og styrkja áherslur á sviði jafnréttismála í samvinnu við stjórnvöld í samstarfsríkjum Íslands. Meðal þeirra atriða sem voru nefnd sérstaklega framúrskarandi í úttekt UNDP vegna jafnréttisvottunarinnar má nefna frumkvæði Íslands innan mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um árlegan jafnlaunadag sem haldinn hefur verið hátíðlegur frá árinu 2020, vinnu Íslands á sviði þróunarsamvinnu í Malaví þar sem unnið er heildstætt með samfélögum við að stuðla að kyn- og frjósemisheilbrigði og starfi í Úganda þar sem Ísland aðstoðar héraðsyfirvöld við útrýma skaðlegum samfélagsviðhorfum varðandi tíðir kvenna og þar með auka aðgengi stúlkna að menntun. Jafnréttisvottunarverkefni UNDP veitir stofnunum viðurkenningu samkvæmt alþjóðlegum stöðlum sem mæla jafnrétti. Stofnanirnar sem gangast undir vottunina geta fengi brons-, silfur- eða gullvottun. Ferlið er virt á alþjóðavettvangi og mælir hæfni og árangur stofnanna á sviði jafnréttismála og valdeflingar kvenna út frá settum árangursviðmiðum. Alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofa utanríkisráðuneytisins vann með UNDP að vottuninni frá árinu 2019.
Verkefninu er lokið.
Ábyrgð
Utanríkisráðuneytið