Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins
Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins 2024-2026
Jafnréttisáætlun þessi tekur til Stjórnarráðsins sem sameiginlegs vinnustaðar starfsfólks í ráðuneytum, sbr. II. kafla, Réttindi og skyldur, í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (jafnréttislaga), nr. 150/2020, og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Stjórnarráðsins þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögum. Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins tekur einnig mið af lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018, jafnlaunastefnu Stjórnarráðsins, mannauðsstefnu Stjórnarráðsins og stefnu, forvarnar- og viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins vegna EKKO (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni, ofbeldi).
Eitt af markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 er að vinna gegn fjölþættri mismunun. Fjölþætt mismunun er bönnuð skv. 16. gr. sömu laga og tekið skal tillit til hennar við framkvæmd jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins.
Sérhvert ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands ber ábyrgð á að framfylgja jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins í störfum sínum.
Leiðarljós
Stjórnarráðið skal vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem jafnrétti og jafnræði kynjanna er virt í hvívetna. Allt starfsfólk skal eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína í starfi og á ekki að sæta mismunun. Í anda mannauðsstefnu Stjórnarráðsins skal starfsfólk Stjórnarráðsins sýna hvert öðru virðingu.
I. Launajafnrétti
Í gildi er Jafnlaunastefna Stjórnarráðsins sem tekur til allra ráðuneyta og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki í Stjórnarráðinu þau réttindi varðandi launajafnrétti sem kveðið er á um í lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
Við ákvörðun launa skal þess gætt að óútskýrður munur sé ekki á launum starfsfólks. Fólk af öllum kynjum skal njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
Samkvæmt jafnréttislögum er starfsfólki Stjórnarráðsins ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef það kýs og er yfirmanni eða öðrum sem koma að ákvörðun launa óheimilt að óska trúnaðar starfsmanns um launakjör sín.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Að kynbundinn launamunur mælist ekki innan Stjórnarráðsins | #1:Áfram verður unnið að stöðugum umbótum jafnlaunakerfa ráðuneytanna í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST85:2012 og jafnlaunastefnu Stjórnarráðsins. | Yfirstjórn hvers ráðuneytis | Árlega |
#2:Kanna skal árlega hvort kynbundinn munur sé á launum og starfskjörum, niðurstöður ásamt jafnlaunastefnu skulu kynntar fyrir starfsfólki ráðuneyta og grípa skal til viðeigandi ráðstafana ef marktækur launamunur mælist í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012. | Yfirstjórn hvers ráðuneytis | Árlega | |
|
II. Laus störf og framgangur í starfi, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun
Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns. Jafnréttissjónarmið verði metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Stefnt er að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í störfum innan ráðuneytanna. Sérstök áhersla er lögð á að jafna stöðu kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Að öll kyn eigi jafna möguleika á ráðningu í störf hjá Stjórnarráðinu | #3:Í auglýsingum eru störf ókyngreind. Hvetja skal fólk af öllum kynjum til að sækja um auglýst störf. | Ábyrgðaraðili ráðninga | Alltaf |
Að öll kyn eigi jöfn tækifæri til framgangs í starfi | #4:Hluti af árlegri rýni stjórnenda er samantekt upplýsinga um kynjahlutföll í störfum í ráðuneytunum. | Yfirstjórn/ þau sem fara með mannauðsmál | Árlega |
#5:Ef hallar á konur eða karla ber að gæta sérstaklega að jafnréttissjónarmiðum við nýráðningar eða tilfærslur í störfum innan ráðuneyta þegar einstaklingar eru jafnhæfir og nýta þá tækifærið til að rétta hlut þess kyns sem á hefur hallað. Gæta skal einnig að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. | Ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar | Alltaf | |
| #6:Í árlegri starfsmannakönnun skal kanna viðhorf starfsfólks til þess hvernig framgangi starfsfólks í starfi innan ráðuneytisins sé háttað. Komi í ljós að starfsfólki finnist vera kynbundinn munur þar á eða ef kynin hafa ólík viðhorf til stöðunnar ber að gera frekari greiningar og grípa til ráðstafana ef þörf krefur. | Yfirstjórn/ þau sem fara með mannauðsmál | Árlega |
Að öll kyn hafi jafnan aðgang að símenntun, endurmenntun og starfsþróun | #7:Í árlegri starfsmannakönnun skal kanna hvort starfsfólk hafi fengið hvatningu og tækifæri til að sækja sér sí- og endurmenntun. Komi í ljós að starfsfólki finnist vera kynbundinn munur þar á eða ef kynin hafa ólík viðhorf til stöðunnar ber að gera frekari greiningar og grípa til ráðstafana. | Yfirstjórn/ þau sem fara með mannauðsmál | Árlega |
III. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu óháð kyni. Tilhögun vinnutíma og sveigjanleiki í starfi skal gagnast starfsfólki til að njóta frítíma síns. Óheimilt er að láta fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um framgang í starfi, endurmenntun, uppsögn, vinnuaðstæður og fleiri slíka þætti. Þá skal leitast við að halda yfirvinnu starfsfólks innan eðlilegra marka.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Að starfsfólk geti samræmt starfsskyldur og fjölskyldulíf | #8:Starfsfólki skal kynnt viðverustefna Stjórnarráðsins auk þeirra úrræða sem í boði eru til að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, s.s. jafnan rétt til fæðingarorlofs, fjarveru vegna veikinda barna, sveigjanlegan vinnutíma, fjarvinnu og aðrar einstaklingsbundnar lausnir. | Yfirstjórn/ þau sem fara með mannauðsmál | Árlega |
| #9:Í árlegri starfsmannakönnun skal kanna viðhorf og reynslu starfsfólks af samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Komi í ljós að fyrirkomulag betri vinnutíma hafi ekki náð markmiðum sínum eða að reynsla kynjanna sé ólík skal gera frekari greiningar og grípa til ráðstafana. | Yfirstjórn/ þau sem fara með mannauðsmál | Árlega |
Að yfirvinna starfsfólks sé innan hóflegra marka og uppræta kynbundinn munþar á | #10:Leitast skal við að tryggja að yfirvinna starfsfólks sé hófleg, til að takmarka neikvæð áhrif á einkalíf. Bregðast skal við með endurskipulagningu verkefna eða annarri vinnuhagræðingu ef þörf er á. | Yfirstjórn ráðuneyta | Árlega |
IV. Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni
Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki áreitni eða ofbeldi af kynbundnum eða kynferðislegum toga. Kynbundin áreitni og áreitni er varðar kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu líðst einnig ekki.
Unnið skal markvisst að því að skapa menningu innan Stjórnarráðsins sem einkennist af virðingu í samræmi við mannauðsstefnu Stjórnarráðsins. Í gildi er stefna, forvarnar- og viðbragðsáætlun Stjórnarráðsins vegna EKKO sem tryggja skal að úrræði séu til staðar og stuðlað sé að forvörnum og verkferlum í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Stjórnarráðið leitast við að vera leiðandi í aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni innan Stjórnarráðsins.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Að kynbundið ofbeldi og áreitni og kynferðisleg áreitni sé ekki liðin á vinnustaðnum | #11: Í árlegri starfsmannakönnun skal kanna hvort að starfsfólk hafi orðið fyrir kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og/eða áreitni. Komi í ljós að einhver hafi upplifað slíkt ofbeldi skal gera frekari greiningar og grípa til ráðstafana. | Þau sem fara með mannauðsmál | Árlega |
Að allt starfsfólk þekki þær leiðir sem eru til staðar á vinnustaðnum ef fólk verður fyrir kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni | #12:Starfsfólk Stjórnarráðsins fái fræðslu um kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni og EKKO stefnu Stjórnarráðsins á tveggja ára fresti. EKKO stefna Stjórnarráðsins skal vera hluti af nýliðakynningu Stjórnarráðsins. | Þau sem fara með mannauðsmál og Stjórnarráðsskólinn | Á tveggja ára fresti |
|
V. Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum
Unnið skal markvisst að því að jafna hlut kvenna og karla í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir skal þess gætt að kynjahlutfall sé sem jafnast og að hlutfall kvenna eða karla sé ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Slíkt fyrirkomulag á ekki að koma í veg fyrir tilnefningu og skipan fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá en hlutfall kvenna skal þó aldrei vera minna en 40%.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Að kynjahlutfall í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytanna sé sem jafnast | #13:Þegar leitað er tilnefninga í opinberar stjórnir, nefndir og ráð skal minnt á ákvæði 28. gr. laga nr. 150/2020 um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Skal sérstaklega óskað eftir tilnefningu karls og konu í hvert sæti sem skipa á í. Ef slíkt er ekki gert skal kalla eftir ástæðum þess.Aðgerð þessi kemur ekki í veg fyrir tilnefningu og skipun fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í nefndir, ráð og stjórnir á vegum hins opinbera. | Ráðherrar og ráðuneytisstjórar | Alltaf |
VI. Mismunun
Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og hvers kyns mismunun, fordómar eða áreitni vegna kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist, samanber lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018.
Unnið skal markvisst að því að skapa menningu innan Stjórnarráðsins sem einkennist af virðingu í samræmi við mannauðsstefnu Stjórnarráðsins.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Að mismunun finnist ekki innan Stjórnarráðsins | #14:Starfsfólk Stjórnarráðsins fái fræðslu um jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu. Starfsfólk þekki réttindi sín og hvert skal leita verði það fyrir mismunun eða óæskilegri hegðun. | Þau sem fara með mannauðsmál í samstarfi við jafnréttisfulltrúa | Fyrir lok gildistíma jafnréttisáætlunarinnar |
VII. Eftirfylgni
Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna hafa umsjón með eftirfylgni jafnréttisáætlunar í samstarfi við þau sem fara með mannauðsmál í ráðuneytunum og yfirstjórnum ráðuneyta.
Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna
Í hverju ráðuneyti skal starfa jafnréttisfulltrúi með sérþekkingu á jafnréttismálum, sbr. 27. gr. laga nr. 150/2020.
Fundur jafnréttisfulltrúa og mannauðshóps Stjórnarráðsins
Árlega er haldinn samráðsfundur jafnréttisfulltrúa og mannauðshóps um framkvæmd jafnréttisáætlunar og jafnréttismál innan Stjórnarráðsins. Ábyrgðin liggur hjá því ráðuneyti sem fer með jafnréttismál.
Gildistími og endurskoðun
Jafnréttisáætlun þessi gildir í þrjú ár frá samþykki. Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála skal hafa forgöngu um endurskoðun jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins á þriggja ára fresti.
Staðfest á fundi ráðuneytisstjóra 05.09.2024.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Jafnréttisfulltrúar
Stofnanir
Úrskurðarnefndir
Samráðsvettvangur um jafnrétti kynjanna
Áhugavert
Jafnrétti
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.