Kortlagning kynjasjónarmiða – Stöðuskýrsla 2021
Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða er aðferð sem beitt er við innleiðingu jafnréttissjónarmiða inn í almenna starfsemi stofnunar. Samkvæmt 30. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 skal samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana. Samkvæmt sömu lögum á sér stað samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða þegar stefnumótunarferli er skipulagt, bætt, þróað og lagt á það mat þannig að sjónarhorn jafnréttis kynja sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.
Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð er ein tegund af kynjasamþættingu þar sem ráðstöfun fjármagns er sérstaklega skoðað. Í grunnskýrslu kynjaðrar fjárlagagerðar frá 2019 má finna greiningu á stöðu kynjanna á flestum þeim málefnasviðum sem fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp taka til. Öll ráðuneyti hafa unnið jafnréttismat á málefnasviðum og málaflokkum sem þau bera ábyrgð á en efni skýrslunnar er tekið saman af forsætisráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Skýrslunni er ætlað að varpa ljósi á þær áskoranir sem til staðar eru í jafnréttismálum og ávarpa má með markmiðssetningu, hvort sem það er við stefnumótun, lagasetningu eða fjárlaga- og áætlanagerð.
Stöðuskýrsla 2021
Stöðuskýrsla yfir kortlagningu kynjasjónarmiða í öllum málaflokkum kom út í annað sinn 2021. Hér að neðan er samantekt á helstu niðurstöðum.
Utanríkismál
- Jafnrétti kynjanna er ein af helstu áherslum í utanríkisstefnu Íslands.
- Helstu atvinnuvegir tengdir viðskiptasamningum Íslands eru allt frekar karllægir geirar ef horft er til eignarhalds, stjórna og mannauðs.
- Karlar eru nú í miklum meirihluta útsendra sérfræðinga á vegum íslensku friðargæslunnar auk þess sem dregið hefur úr áherslu á jafnréttismál og kynjaáhrif í verkefnum þeirra.
- Ísland er í fararbroddi á heimsvísu hvað varðar jafnrétti í þróunarsamvinnu sem endurspeglast í árlegri niðurstöðu á jafnréttisstiku OECD DAC.
Ríkisfjármál
- Á meðan vel hefur gengið að jafna hlut kynjanna í stjórnum félaga í eigu ríkisins eru aðeins 27% stjórnarformanna konur og rétt ríflega þriðjungur forstjóra eða framkvæmdastjóra í ríkisfyrirtækjum.
- Konur eru í miklum meiri hluta starfa hjá ríkinu og meðaltal launakostnaðar á stöðugildi karla er 15% hærra en meðaltal á stöðugildi kvenna. Um helmingur kvenna sem starfa hjá ríkinu er í hlutastarfi.
Nýsköpun
- Á heildina litið er staða kynjanna nokkuð jöfn þegar kemur að úthlutunum úr opinberum rannsóknarsjóðum. Hærri styrkir eru þó veittir í greinum þar sem karlar eru í meiri hluta og enn hallar mikið á konur í öndvegisstyrkjum sem eru hæstu styrkirnir og úthlutað til lengsta tímabilsins.
- Konur sækja síður um í samkeppnissjóði sem styðja við atvinnulíf og nýsköpun en karlar en eru almennt ekki ólíklegri til að fá styrk sæki þær um. Hlutfall kvenna sem sækja um styrki úr slíkum sjóðum hefur þó aukist á síðustu árum.
Byggðamál
- Meiri munur er á fjölda karla og kvenna í dreifbýli en þéttbýli og rannsóknir sýna að brottflutningur kvenna er eitt sterkasta einkenni dreifbýlla samfélaga í vanda. Utan höfuðborgarsvæðisins eru konur víðast hvar færri en karlar.
- Til þess að sporna við brottflutningi kvenna þarf að vera til staðar atvinna fyrir bæði kynin, tryggt húsnæðisframboð, möguleikar til náms og aðgangur að grunnþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, dagvistun og skóla.
Samgöngur
- Merkjanlegur munur er á kynbundinni notkun á samgöngukerfinu en hefðbundnar samgönguáætlanir, skipulag og umferðarlíkön taka almennt ekki tillit til mismunandi ferðamynsturs karla og kvenna.
- Mikill meiri hluti bíla er skráður í eigu karla og mun færri konur en karlar eru skráðar fyrir bíl. Konur sem eru skráðar fyrir bíl eiga almennt minni og sparneytnari bíla.
- Konur nota bíl hlutfallslega meira í daglegu lífi en karlar, þrátt fyrir minni bílaeign. Þær fara fleiri en styttri ferðir daglega, sérstaklega að loknum vinnudegi.
- Karlar eyða meiri tíma í að fara til og frá vinnu og fara oft langar leiðir (þar sem vinnusóknarsvæði þeirra er stærra en kvenna).
- Konur hjóla umtalsvert minna en nota Strætó svipað og karlar.
Öryggi
- Ný nálgun í rannsókn heimilisofbeldis, aukin áhersla á kynferðisbrot og fjölgun leiða til að hafa samskipti við lögreglu með tilkomu Bjarkarhlíðar, hafi leitt til þess að fleiri tilkynna slík brot til lögreglu nú en áður. Þá eru merki þess að þolendur í viðkvæmri stöðu leiti frekar til lögreglu nú en áður.
Réttindi einstaklinga
- Við sambúðarslit semja langflestir foreldrar um sameiginlega forsjá barna en lögheimili þeirra er í flestum tilfellum hjá móður.
- Karlar eru um tveir þriðju hlutar þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á Íslandi en mikill kynjamunur er eftir tegundum dvalarleyfis.
Atvinnuvegir
Íslenskur vinnumarkaður er bæði kynskiptur og lagskiptur og má sjá merki þess víða.
- Margar af helstu útflutningsgreinum, eins og sjávarútvegur, landbúnaður og orkugeirinn, eru heldur karllægir atvinnuvegir.
- Starfsframlag kvenna í landbúnaði er oft hvergi skráð í opinberum gögnum þar sem algengara er að karl sé skráður fyrir eignum, stuðningsgreiðslum o.fl.
- Í ferðaþjónustu eru konur af erlendum uppruna í yfirgnæfandi meiri hluta þeirra sem sinna láglaunastörfum.
Umhverfi
- Á heildina litið skortir kyngreind tölfræðigögn á sviði umhverfismála.
- Raunverulegt vinnuframlag og/eða eignarhald kvenna í skógrækt og landgræðslu er oft óskráð í opinberum gögnum.
- Mikill meirihluti starfa sem skapast við ýmis konar framkvæmdir eru unnin af körlum.
- Vísbendingar eru um að áhersla á flokkun sorps auki ólaunuð störf kvenna.
Menning
- Konur eru í meiri hluta meðal starfsfólks og gesta menningarstofnana.
- Síðustu ár hefur tekist að leiðrétta kynjahalla á úthlutunum úr starfslaunasjóðum sem var körlum í vil.
- Kynjamunur er á hvaða íþróttir börn stunda. Þátttaka stráka hefur minnkað frá árinu 2006 en þátttaka stelpna stendur nokkurn veginn í stað.
Menntun
- Drengjum vegnar almennt verr en stúlkum innan skólakerfisins og hærra hlutfall 15 ára drengja en stúlkna nær ekki lágmarkshæfni í lestri. Annar hver 15 ára innflytjandi hér á landi er undir lágmarkshæfni í lestri.
- Námsval í framhalds- og háskólum er ólíkt milli kynja. Hlutfall drengja sem hverfa frá námi í almennu bóknámi í framhaldsskóla er um helmingi hærra en stúlkna. Konur eru næstum tveir þriðju hlutar nemenda í háskólum.
Heilbrigðisþjónusta
- Þrátt fyrir að konur lifi lengur en karlar lifa þær að meðaltali færri ár við góða heilsu en karlar og eru líklegri til að lifa við heilsubrest í daglegu lífi.
- Þessi munur á heilsu karla og kvenna birtist víða í heilbrigðiskerfinu, t.d. nýta konur heilbrigðisþjónustu meira, fá ávísað meira af lyfjum og konur á efri árum virðast fremur þurfa á hjálpartækjum að halda en karlar á sama aldursbili.
- Fleiri karlar en konur fá greiddar bætur vegna slysa en fleiri tilkynntir atvinnusjúkdómar eru frá konum en körlum.
Velferðarmál
- Verri heilsa kvenna birtist einnig í aukinni örorku en konur eru um 60% þeirra sem eru með 75% örorkumat. Konur eru í meiri mæli metnar til örorku vegna stoðkerfissjúkdóma og mikil fjölgun örorkulífeyrisþega í hópi kvenna 50 ára og eldri bendir til að áhrifin séu utanaðkomandi og samfélagsleg.
- Aldraðar konur hafa almennt lægri tekjur en aldraðir karlar. Þær eru líklegri til að eiga minni lífeyrissparnað á efri árum og reiða sig því í meiri mæli en karlar á lífeyri almannatrygginga.
- Mæður nýta nánast allan sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs en hlutfall feðra sem fullnýta ekki sjálfstæðan rétt sinn hefur farið minnkandi.
- Í kjölfar COVID-19 hefur atvinnuleysi álíka mikið meðal kvenna og karla en mikill munur er á kynjahlutfalli meðal atvinnulausra eftir landshlutum. Næstum fjórði hver erlendur ríkisborgari var á atvinnuleysisskrá í október 2020 og voru þeir ríflega 40% skráðra atvinnuleitenda.
- Þegar aðeins einn fullorðinn er á heimili eru viðtakendur húsnæðisbóta í flestum tilvikum konur. Munurinn skýrist að mestu af fjölda kvenna sem búa einar með börnum. Algengast er að heimili einstæðra foreldra skorti efnisleg gæði.
Sjá einnig:
Lög og reglugerðir
Stofnanir
Úrskurðarnefndir
Samráðsvettvangur um jafnrétti kynjanna
Áhugavert
Jafnrétti
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.