Hoppa yfir valmynd

Kortlagning kynjasjónarmiða – Stöðuskýrsla 2022

Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða er aðferð sem beitt er við innleiðingu jafnréttissjónarmiða inn í almenna starfsemi stofnunar. Samkvæmt 30. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 skal samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana. Samkvæmt sömu lögum á sér stað samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða þegar stefnumótunarferli er skipulagt, bætt, þróað og lagt á það mat þannig að sjónarhorn jafnréttis kynja sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð er ein tegund af kynjasamþættingu þar sem ráðstöfun fjármagns er sérstaklega skoðað. Í grunnskýrslu kynjaðrar fjárlagagerðar frá 2019 má finna greiningu á stöðu kynjanna á flestum þeim málefna­sviðum sem fjármála­áætlun og fjárlagafrumvarp taka til. Öll ráðuneyti hafa unnið jafnréttismat á málefnasviðum og mála­flokkum sem þau bera ábyrgð á en efni skýrslunnar er tekið saman af forsætisráðuneytinu og fjármála- og efna­hagsráðuneytinu. Skýrslunni er ætlað að varpa ljósi á þær áskoranir sem til staðar eru í jafnréttismálum og ávarpa má með markmiðssetningu, hvort sem það er við stefnumótun, lagasetningu eða fjárlaga- og áætlanagerð. Uppfærð skýrsla, Stöðuskýrsla yfir kortlagningu kynjasjónarmiða í öllum málaflokkum kom út í mars 2021.

Stöðuskýrsla 2022

Nýjasta stöðuskýrsla yfir kortlagningu var birt í ágúst 2022. Niðurstöður skýrslunnar má draga saman í fjögur þemu:

  • Íslenskur vinnumarkaður er kynskiptur, bæði lárétt og lóðrétt,
  • Konur hafa lægri atvinnutekjur en karlar
  • Rannsóknir benda til að enn beri konur almennt meiri ábyrgð á umönnun barna en karlar.
  • Konur lifa lengur en karlar en eiga að meðaltali færri ár við góða heilsu og eru líklegri til að lifa við heilsubrest í daglegu lífi.

Hér að neðan eru dæmi um birtingarmyndir þessa kynjamunar.

Íslenskur vinnumarkaður er kynskiptur, bæði lárétt og lóðrétt, og má sjá birtingar­myndir þess mjög víða:

Margar af helstu útflutningsgreinum, eins og sjávarútvegur, landbúnaður og orkugeirinn, eru heldur karllægir atvinnuvegir. Í ferðaþjónustu eru konur af erlendum uppruna í yfirgnæfandi meiri hluta þeirra sem sinna láglauna­störfum.

Konur eru um þriðjungur menntaðra lögreglumanna en hlutfall kvenna lækkar mikið eftir því sem ofar dregur í starfsstigi.

 

Konur eru í miklum meiri hluta vaktavinnufólks hjá ríkinu. Þær eru mun líklegri en aðrar konur sem starfa hjá ríkinu til að vera í hlutastarfi. Starfshlutfall kvenna í vaktavinnu hefur þó aukist við innleiðingu betri vinnutíma.

 

Á meðan vel hefur gengið að jafna hlut kynjanna í stjórnum félaga í eigu ríkisins eru aðeins 25% stjórnarformanna konur og tæplega 40% lykil­stjórnenda í ríkisfyrirtækjum.

 

Hlutfall kvenna meðal frumkvöðla er lágt og hvað lægst í umfangsmestu stuðnings­úrræðunum við nýsköpun. Kynjahlutfall styrkþega er almennt jafnara í minni og sérhæfðari stuðningsúrræðum en í flestum tilfellum hallar þar enn á konur.

 

Námsval í framhalds- og háskólum er ólíkt milli kynja. Í framhaldsskóla eru stúlkur fleiri í bóknámi en drengir fleiri í starfsnámi og þar er einnig mikil kynjaskipting milli greina.

 

Hlutfall drengja sem hverfa frá námi í almennu bóknámi er um helmingi hærra en stúlkna.

 

Mikil fylgni er milli lokaeinkunna úr grunnskóla og brotthvarfs úr framhaldsskóla. Strax í grunnskóla byrja drengir að dragast aftur úr stúlkum námslega og gefa einkunnir það til kynna.

Konur eru næstum tveir þriðju hlutar nemenda í háskólum en karlar eru naumur meiri hluti akademískra starfsmanna Háskóla Íslands. Hlutfall kvenna í akademískum stöðum lækkar eftir því sem ofar dregur í framgangs­stiga háskólanna.

Konur og karlar eru álíka líkleg til að fá opinbera rannsóknarstyrki en hærri styrkir eru veittir í greinum þar sem karlar eru í meiri hluta og enn hallar mikið á konur í öndvegisstyrkjum sem eru hæstu styrkirnir.

 

Hlutfall karla og kvenna sem eru í atvinnuleit er sambærilegt. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er um 40% sem er mun hærra en hlutfall þeirra á vinnumarkaði.

 

Konur hafa að meðaltali tæplega 13% lægri atvinnutekjur en karlar. Dæmi um áhrif þess:

Fleiri karlar en konur tóku út séreignarsparnað í kjölfar kórónuveirufaraldursins og þeir tóku út næstum tvo þriðju hluta heildarupphæðar.

 

Aldraðar konur hafa almennt lægri tekjur en aldraðir karlar. Þær eru líklegri til að eiga minni lífeyrissparnað á efri árum og reiða sig því í meira mæli en karlar á lífeyri almannatrygginga.

Mun fleiri aldraðar konur eiga rétt á fjárhagslegum viðbótarstuðningi en karlar. Fjárhagsleg staða aldraðra með erlendan ríkisborgararétt er umtalsvert verri en íslenskra.

 

Um fjórðungur feðra en aðeins um tíunda hver móðir fékk hámarksgreiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Nýting feðra á rétti sínum til fæðingarorlofs hefur aukist hægt í takt við hækkun hámarksgreiðslna.

 

Rannsóknir benda til að enn beri konur almennt meiri ábyrgð á umönnun barna en karlar. Dæmi um birtingarmyndir þess:

Konur vinna að meðaltali færri vikulegar vinnustundir í launaðri vinnu en karlar.

 

Mæður nýta nánast allan sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs en hlutfall feðra sem fullnýta ekki sjálfstæðan rétt sinn hefur farið minnkandi.

 

Við sambúðarslit semja langflestir foreldrar um sameiginlega forsjá barna en lögheimili þeirra er í flestum tilfellum hjá móður. Konur eru því líklegri en karlar til að eiga rétt á ýmsum tekjutengdum bótum sem taka sérstakt tillit til einstæðra foreldra.

 
 

Konur lifa lengur en karlar en eiga að meðaltali færri ár við góða heilsu og eru líklegri til að lifa við heilsubrest í daglegu lífi. Meðal ástæðna og birtingar­mynda:

Karlar eru líklegri en konur til að verða fyrir ofbeldi af hálfu ókunnugra en konur hins vegar af hálfu einhvers sem þær þekkja.

Fleiri karlar en konur fá greiddar bætur vegna slysa en fleiri tilkynntir atvinnusjúkdómar eru frá konum en körlum.

Karlar eru mun líklegri en konur til þess að aka of hratt eða undir áhrifum og einnig líklegri til að slasast alvarlega eða látast í umferðarslysum.

 

Konur nýta heilbrigðisþjónustu meira og fá ávísað meira af lyfjum en karlar.

 

Verri heilsa kvenna birtist einnig í aukinni örorku en konur eru um 60% þeirra sem eru með 75% örorkumat. Mikil fjölgun örorkulífeyrisþega í hópi kvenna 50 ára og eldri bendir til þess að áhrifin séu utanaðkomandi og samfélagsleg.

 

Geðraskanir eru nú algengasta orsök þess að konur eru metnar til örorku. Dregið hefur úr vægi stoðkerfissjúkdóma meðal kvenna og karla og er talið að aukin áhersla á endurhæfingu skýri það. Konur eru þó áfram í mun meira mæli metnar til örorku vegna stoðkerfissjúkdóma.

 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta