Hoppa yfir valmynd

Mannréttindasáttmáli Evrópu

Um sáttmálann

Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE) var undirritaður á ráðherrafundi Evrópuráðsins í Róm árið 1950 og fullgiltur 29. júní 1953. Texti samningsins var síðar lögfestur í heild sinni árið 1994 með lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Sáttmálinn skyldar aðildarríkin til að tryggja öllum einstaklingum á þeirra yfirráðasvæði þau réttindi og frelsi sem eru skilgreind í sáttmálanum og viðaukum við hann, svo sem rétt til lífs og frelsis, til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, friðhelgi einkalífs, og tjáningar-, trú- og félagafrelsi svo dæmi séu tekin. Samningurinn leggur einnig bann við pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. 

Eftirlit

Mannréttindasáttmála Evrópu er framfylgt af Mannréttindadómstól Evrópu en þangað geta einstaklingar, samtök, hópar einstaklinga og önnur aðildarríki kært aðildarríki fyrir brot á samningnum. Mál verður þó aðeins tekið fyrir af dómstólnum ef fullreynt hefur verið að leita leiðréttingar fyrir innlendum dómstólum. Ef kæra er ósamrýmanleg ákvæðum samningsins eða samningsviðauka við hann, eða augljóslega illa ígrunduð að mati dómstólsins, t.d. vegna þess að sá réttur sem krafist er viðurkenningar á felur í sér brot á skýrum réttindum annarra samkvæmt sáttmálanum, þá er henni vísað frá sem ótækri. Hér má finna þau mál sem varða Ísland og hafa hlotið einhverja efnismeðferð hjá dómstólnum og lokið með ákvörðun eða dómi.

Samningsviðaukar

Allmargir viðaukar hafa verið gerðir við samninginn og bættu fimm þeirra við efnislegum réttindum (viðaukar nr. 1, 4, 6, 7 og 13). Hafa þessir viðaukar verið lögfestir hér á landi og lögum um sáttmálann breytt í samræmi við það. Aðrir viðaukar hafa verið fullgiltir af hálfu Íslands, utan samningsviðauka nr. 12 sem hefur eingöngu verið undirritaður en ekki fullgiltur, og samningsviðauka nr. 16 sem Ísland hefur ekki undirritað.

Framkvæmd

Mannréttindasáttmáli Evrópu nær yfir breitt svið réttinda og varðar framkvæmd sáttmálans því öll ráðuneyti Stjórnarráðsins. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ber þó meginábyrgð á að tryggja réttindi samkvæmt sáttmálanum.

Texti samningsins og samningsviðauka

Helstu staðreyndir

Staða:  Lögfestur
Titill á ensku:  European Convention of Human Rights (ECHR)
Eftirlitsaðili:  Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE)
Kæruleið:  Kæra má brot á sáttmálanum til MDE en fyrst verður að tæma kæruleiðir innanlands

 

Helstu hugtök

Undirritun

Með undirritun gefur ríki til kynna áform sín um að undirgangast skuldbindingar samkvæmt samningnum.

Fullgilding

Með fullgildingu skuldbindur Ísland sig gagnvart öðrum aðildarríkjum til að uppfylla þær skyldur og tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum. Oft þarf aðkomu Alþingis til að hægt sé að fullgilda alþjóðasamninga.

Lögfesting

Með lögfestingu samnings er texti hans í heild settur í lög og einstaklingum þar með gert kleift að byggja á ákvæðum hans fyrir innlendum dómstólum.

Innleiðing

Með innleiðingu eru réttindi og skyldur samkvæmt samningi gerð virk í landsrétti aðildarríkisins. Innleiðing getur átt sér stað með lagasetningu eða öðrum úrræðum sem duga til að tryggja framkvæmd samningsins.

Dómar og ákvarðanir

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta