Hoppa yfir valmynd

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu

Um sáttmálann

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10. desember 1984. Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd 4. febrúar 1983 og fullgiltur 23. október 1996.

Samningurinn bannar hvers kyns pyndingar og aðra ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, óháð aðstæðum. Hann mælir einnig fyrir um að aðildarríki megi ekki vísa úr landi, endursenda eða framselja einstakling til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að viðkomandi eigi á hættu að sæta pyndingum þar.

Eftirlit

Eftirlit með samningnum er í höndum nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum en hlutverk hennar er að fylgjast með framkvæmd samningsins, auk þess sem hún gefur út almenn tilmæli um túlkun hans.

Aðildarríki samningsins eru skuldbundin til þess að skila nefndinni reglulega skýrslum um framkvæmd samningsins. Nefndinni gefst þá færi á að gera athugasemdir og leggja fram spurningar um efni skýrslunnar og aðildarríkið getur síðan lagt fram viðbótarupplýsingar. Í kjölfarið gefur nefndin út lokaathugasemdir sínar þar sem bent er á hvað megi betur fara í framkvæmd aðildarríkisins til þess að það geti fullnægt skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum. Hér neðar á síðunni er að finna skýrslur Íslands og lokaathugasemdir nefndarinnar.  

Ísland er einnig aðili að kæruleið á grundvelli 21. og 22. gr. samningsins en þar kemur fram að aðildarríki geti samþykkt að nefndin geti tekið á móti erindum frá ríkjum eða einstaklingum um brot gegn samningnum. Í slíkum tilvikum rannsakar nefndin málið og getur gefið út álit með tilmælum til viðkomandi ríkis í kjölfarið.  Álitin eru einungis ráðgefandi en ekki bindandi fyrir aðildarríkið. 

Valfrjálsar bókanir

Ein valfrjáls bókun hefur verið gerð við samninginn (OPCAT) en hún var samþykkt 18. desember 2002. Ísland undirritaði bókunina árið 2003 og fullgilti hana árið 2019. Í bókuninni er kveðið á um sérstakt eftirlit innan hvers aðildarríkis með því hvort og þá hvernig réttindi frelsissviptra einstaklinga eru virt. Umboðsmaður Alþingis gegnir hlutverki eftirlitsaðila á grundvelli bókunarinnar hér á landi.

Framkvæmd

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ber meginábyrgð á skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum. Dómsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið bera þó einnig sérstaka ábyrgð á framkvæmd samningsins.

Texti samningsins

Helstu staðreyndir

Staða:  Fullgiltur
Titill á ensku:  Convention against Torture and Other Cruel, Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CAT)
Eftirlitsaðili:  Nefnd gegn pyndingum
Kæruleið:  Til staðar samkvæmt 21. og 22. gr. samningsins

 


Helstu hugtök

Undirritun

Með undirritun gefur ríki til kynna áform sín um að undirgangast skuldbindingar samkvæmt samningnum.

Fullgilding

Með fullgildingu skuldbindur Ísland sig gagnvart öðrum aðildarríkjum til að uppfylla þær skyldur og tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum. Oft þarf aðkomu Alþingis til að hægt sé að fullgilda alþjóðasamninga.

Lögfesting

Með lögfestingu samnings er texti hans í heild settur í lög og einstaklingum þar með gert kleift að byggja á ákvæðum hans fyrir innlendum dómstólum.

Innleiðing

Með innleiðingu eru réttindi og skyldur samkvæmt samningi gerð virk í landsrétti aðildarríkisins. Innleiðing getur átt sér stað með lagasetningu eða öðrum úrræðum sem duga til að tryggja framkvæmd samningsins.

Valfrjáls bókun

Viðauki við alþjóðlegan samning sem inniheldur viðbótarskuldbindingar fyrir aðildarríki. Aðildarríki hafa val um hvort þau gerist aðilar að bókunum.

Skýrslur

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta