Mannréttindadómstóll Evrópu
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) var stofnaður árið 1959 á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu en sáttmálinn var lögfestur á Íslandi með lögum nr. 62/1994.
MDE er ætlað að tryggja að aðildarríki Evrópuráðsins (Council of Europe) virði þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur aðsetur í Strassborg í Frakklandi. Einstaklingar innan aðildarríkja Evrópuráðsins geta leitað til dómstólsins telji þeir að stjórnvöld hafi brotið á réttindum þeirra sem vernduð eru í Mannréttindasáttmálanum. Einstök ríki geta líka lagt fram kæru á hendur öðru aðildarríki vegna brota á sáttmálanum.
Einstaklingar sem vilja kæra til dómstólsins geta fyllt út til þess gert kæruform sem þeir þurfa að skila til dómstólsins innan 4 mánaða frá því að síðasta ákvörðun var tekin í máli þeirra innanlands (oftast innan 4 mánaða frá dómi Hæstaréttar). Mikilvægt er að öll nauðsynleg gögn fylgi með, svo sem úrskurðir og/eða dómar frá innlendum dómstólum.
Heimilt er að fylla út kæruformið á íslensku og skila fylgigögnum á íslensku en ákveði dómstóllinn að taka málið til meðferðar verða samskiptin við hann að fara fram á ensku eða frönsku.
Dómstóllinn tekur ekki mál til meðferðar nema kærandi hafi fyrst tæmt innlend réttarúrræði. Í því felst að oftast þarf að vera búið að fara með málið fyrir innlenda dómstóla.
Mannréttindasáttmálinn
Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE) var undirritaður á ráðherrafundi Evrópuráðsins í Róm árið 1950. Sáttmálinn skyldar aðildarríkin til að tryggja öllum einstaklingum á þeirra yfirráðasvæði þau réttindi og frelsi sem eru skilgreind í sáttmálanum og viðaukum við hann, svo sem rétt til lífs og frelsis, til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, bann við pyndingum, friðhelgi einkalífs og tjáningar-, trú- og félagafrelsi svo dæmi séu tekin.
Mannréttindadómstól Evrópu er ætlað að tryggja að aðildarríki Evrópuráðsins virði þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum og geta einstaklingar leitað til dómstólsins ef þeir telja ríki hafa brotið gegn þeim réttindum sem kveðið er á um það að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Fullgilding MSE er skilyrði fyrir aðild að Evrópuráðinu og hafa mörg aðildarríkjanna þar að auki innleitt hann í landsrétt sinn. Ísland undirritaði sáttmálann árið 1950 og fullgilti hann árið 1953. Sáttmálinn var lögfestur á Íslandi með lögum nr. 62/1994.
Mannréttindadómstóll Evrópu
Sjá einnig:
Mannréttindadómstóll Evrópu
Heimilisfang dómstólsins:
European Court of Human Rights
Council of Europe
F-67075 Strasbourg cedex
France
Fax : +33 (0)3 88 41 27 30
Evrópuráðið
Annað gagnlegt efni
Helstu lög
Mannréttindi
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.