Hoppa yfir valmynd
05. maí 1998 IRR Skýrslur til alþjóðlegra nefnda

Þriðja skýrsla Íslands um framkvæmd alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi

Þriðja skýrsla Íslands um framkvæmd alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi



EFNISYFIRLIT




Málsgreinar

I. Almennar athugasemdir 1 - 11

II. Upplýsingar sem varða
einstök ákvæði í
I. II. og III. kafla samningsins 12 - 103

1. grein 12 - 13
2. grein 14 - 21
3. grein 22 - 29
4. grein 30
5. grein 31
6. grein 32 - 34
7. grein 35 - 37
8. grein 38 - 40
9. grein 41 - 42
10. grein 43 - 49
11. grein 50
12. grein 51 - 53
13. grein 54 - 58
14. grein 59 - 62
15. grein 63 - 64
16. grein 65
17. grein 66 - 67
18. grein 68 - 70
19. grein 71 - 73
20. grein 74
21. grein 75 - 76
22. grein 77 - 80
23. grein 81 - 89
24. grein 90 - 92
25. grein 93 - 96
26. grein 97 - 99
27. grein 100 - 101

Fyrirvarar 102 - 103

Þriðja skýrsla Íslands um framkvæmd alþjóðasamnings
um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
samkvæmt 40. gr. samningsins.


I. Almennar athugasemdir

1. Hér verður lýst helstu lagabreytingum og aðgerðum sem gerðar hafa verið á þeim rúmlega tveimur árum sem liðin eru frá því að önnur skýrsla Íslands um framkvæmd samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var gerð haustið 1992. Aðeins verða taldar í stórum dráttum mikilvægustu lagabreytingar sem orðið hafa síðan eða eru fyrirhugaðar og máli skipta fyrir framkvæmd ákvæða samningsins á Íslandi. Nánari umfjöllun um efni laga og aðgerðir er síðan að finna í II. hluta í tengslum við einstaka ákvæði samningsins, en ekki verður fjallað sérstaklega um atriði í ákvæðum samningsins þar sem engar lagabreytingar hafa orðið eða ráðstafanir gerðar og ástand að öðru leyti óbreytt frá síðustu skýrslu. Hvað varðar almennar upplýsingar um land og þjóð, stjórnskipun og stjórnarhætti, úrlausnarvald um hvort mannréttindi eru brotin og um gildi alþjóðasamninga um mannréttindi að landsrétti er vísað til almennra athugasemda með annarri skýrslu Íslands um framkvæmd samningsins(HRI/CORE/1/Add.26), þar sem þessi atriði standa óbreytt, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

2. Af mikilvægustu lagabreytingum frá síðustu skýrslu Íslands má fyrst nefna að 1. janúar 1994 tóku gildi ný stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Stjórnýslulögin eru talin vera mikil réttarbót frá því sem áður var enda voru með þeim í fyrsta skipti lögfestar almennar reglur um meðferð mála í stjórnsýslunni. Lögin taka til allrar stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, nema sérlög geymi strangari málsmeðferðarreglur. Lögunum er ætlað að gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur einstaklinga eða lögaðila. Helsta markmið með setningu stjórnsýslulaganna er að tryggja sem best réttaröryggi manna í skiptum við hið opinbera þegar ákvarðanir eru teknar sem snerta þá. Með lögunum voru því lögfestar reglur um málsmeðferð í stjórnsýslunni, þ.e. bæði form- og efnisreglur varðandi undirbúning mála og úrlausn þeirra, þar á meðal um rétt þegnanna, auk þess að fylgjast með meðferð mála hjá stjórnvöldum og koma að sjónarmiðum sínum og andmælum. Þótt þessar reglur hafi áður verið ólögfestar var að meginstefnu byggt á þeim sem óskráðum grundvallarreglum innan stjórnsýslunnar.

3. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á lögum um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965. Samkvæmt eldri tilhögun laganna tók dómsmálaráðherra ákvörðun um brottvísun útlendings sem var á löglegan hátt kominn á landssvæði ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum og enginn málskotsréttur var fyrir hendi um þá ákvörðun. Með lögum nr. 133/1993 var þessari skipan breytt þannig að nú er það sérstök stofnun, Útlendingaeftirlitið, sem tekur ákvörðun um brottvísun útlendings úr landi við þessar kringumstæður. Slíka ákvörðun er hægt að kæra til dómsmálaráðherra til endurskoðunar og er skylt samkvæmt lögunum að leiðbeina útlendingi um þessa kæruheimild þegur honum er kynnt ákvörðun um brottvísun. Af þessari ástæðu varð óþarfur fyrirvari sem Ísland gerði við 13. grein samningsins og hefur hann því verið felldur niður.

4. Með lögum nr. 83/1994 var sett á stofn embætti umboðsmanns barna og tók umboðsmaður til starfa 1. janúar 1995. Með stofnun embættis umboðsmanns barna er stefnt að því að bæta hag barna í samfélaginu og er umboðsmanni ætlað að standa vörð um hagsmuni og réttindi barna. Starf umboðsmanns á að vera að vinna að því að stjórnsýsluhafar, einstaklingar, félög og samtök einstaklinga taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Þannig setur hann fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins. Í þessu felst meðal annars það hlutverk að stuðla að því að virtir verði þjóðréttarsamningar með ákvæðum sem varða réttindi og velferð barna og fullgiltir hafa verið af Íslands hálfu og enn fremur að benda á að samningar um þetta efni verði fullgiltir. Umboðsmaður barna er sjálfstæður í störfum sínum og óháður fyrirmælum framkvæmdarvaldsins en gefur forsætisráðherra árlega skýrslu um starfsemi sína.

5. Þegar þessi skýrsla er rituð liggur fyrir Alþingi frumvarp til nýrra mannanafnalaga. Núgildandi mannaanafnalög hafa sætt gagnrýni og þá sérstaklega sú tilhögun um að útlendingi sem gerist íslenskur ríkisborgari sé skylt að taka upp íslenskt eiginnafn, samhliða erlendu nafni sínu. Ber börnum hans 15 ára og yngri og þeim sem hann eignast þaðan í frá að kenna sig við íslenska eiginnafnið. Nái frumvarpið um ný mannanafnalög fram að ganga verður afnumin þessi skylda útlendings til að taka upp íslenskt nafn við veitingu ríkisborgararéttar og fá hann og börn hans að halda óbreyttu erlendu ættarnafni sínu.

6. Í júní 1994 gerði Alþingi þingsályktun um að endurskoða skyldi mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar og skyldi slíkri endurskoðun vera lokið fyrir næstu reglulegu þingkosningar vorið 1995. Í þingsályktuninni var sérstaklega tiltekið að tímabært væri að endurskoða mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar með tilliti til þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir með því að gerast aðili að alþjóðlegum sáttmálum til verndar mannréttindum. Í febrúarmánuði 1995 samþykkti Alþingi frumvarp til breytinga á mannréttindaákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Ef það verður aftur samþykkt óbreytt af Alþingi eftir að almennar kosningar hafa farið fram verður það að gildum stjórnskipunarlögum. Þar eru ráðgerðar margvíslegar breytingar og viðbætur við núgildandi mannréttindaákvæði, sem eru að ýmsu leyti orðin úrelt, enda standa þau nánast óbreytt frá árinu 1874. Hafa núgildandi mannréttindaákvæði verið gagnrýnd bæði í innlendri umræðu og á alþjóðlegum vettvangi. Sú gagnrýni hefur einkum beinst að því að í núgildandi mannréttindakafla stjórnarskrárinnar skorti skýr ákvæði um ýmis grundvallarmannréttindi. Þannig var ekki lengur talið nægilegt að ákvæði sem tryggja þessi réttindi sé að finna í almennri löggjöf eða að litið sé á slík réttindi sem óskráðar undirstöðureglur. Breytingunum á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar er ætlað að ráða bót á þessu, en samkvæmt þeim er ýmsum nýjum réttindum bætt við þau sem fyrir voru, auk þess að gera orðalag sumra eldri ákvæða mun ítarlegra.

7. Réttindi sem ráðgert er að bætist við núgildandi mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eru eftirfarandi, með vísun til greinarnúmera í stjórnarskránni:
- Almenn regla um jafnræði allra fyrir lögunum og að allir skuli njóta mannréttinda (1. mgr. 65. gr.)
- Jöfn réttindi karla og kvenna (2. mgr. 65. gr.)
- Reglur um ferðafrelsi og rétt til að velja dvalarstað (66. gr.)
- Bann við pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (1. mgr. 68. gr.)
- Bann við nauðungarvinnu (2. mgr. 68.gr.)
- Bann við afturvirkni refsilaga og bann við að heimila í lögum dauðarefsingu (69. gr.)
- Lágmarksskilyrði fyrir réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum í einkamálum og sakamálum (70. gr.)
- Skylda ríkis til að veita börnum sérstaka lagavernd (3. mgr. 76. gr.)
- Bann við afturvirkni skattalaga (77. gr.)

8. Þess ber að geta að íslenskir þegnar hafa í raun notið allra ofantalinna réttinda fram til þessa, enda eru flest þeirra annað hvort þegar talin í almennri löggjöf eða litið hefur verið á þau sem óskráðar en stjórnarskrárverndaðar grundvallarreglur. Engu að síður þykir tryggara að binda þessi réttindi í stjórnskipunarlög í ljósi mikilvægis þeirra. Verður nánar fjallað um einstaka ákvæði breytinganna á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar í tengslum við einstaka ákvæði samningsins.

9. Frá því að síðasta skýrsla um framkvæmd samningsins var rituð hefur Mannréttindasáttmáli Evrópu verið lögfestur á Íslandi með lögum 62/1994 fyrstur alþjóðlegra mannréttindasamninga og er því hægt að beita ákvæðum hans fyrir íslenskum dómstólnum eins og innanlandslöggjöf. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að lögfesta aðra alþjóðlega mannréttindasamninga eins og stendur. Áðurnefndar breytingar sem ráðgerðar eru á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar taka að mörgu leyti mið af ákvæðum alþjóðlegra mannaréttindasamninga, bæði á vegum Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna.

10. Þess má að lokum geta að niðurstöður nefndarinnar sem starfar samkvæmt samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, frá 29. nóvember 1993 um aðra skýrslu Íslands urðu tilefni nokkurrar opinberrar umræðu á Íslandi. Skýrslunni og niðurstöðum nefndarinnar var dreift til allra fjölmiðla og var skýrt frá niðurstöðunum í öllum stærstu fjölmiðlum landsins.

11. Segja má að umræður um mannréttindamál og áhugi almennings á þeim vettvangi hafi aukist töluvert á Íslandi undanfarin tvö til þrjú ár. Er ályktun Alþingis frá júní 1994 og fyrirhugaðar breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar til marks um þennan aukna áhuga. Miklar umræður urðu í þjóðfélaginu um efni stjórnarskrárfrumvarpsins þegar það var lagt fram á Alþingi. Urðu ábendingar og gagnrýni á ákvæði frumvarpsins sem þar kom fram tilefni ýmissa breytinga sem gerðar voru á því í meðförum Alþingis. Má vafalaust rekja aukin áhuga almennings á mannréttindum að einhverju leyti til umræðna á alþjóðlegum vettvangi um stöðu mannréttindamála á Íslandi og ábendinga um hvað má betur fara í þeim efnum. Þess má einnig geta að sérstök mannréttindaskrifstofa var stofnuð í Reykjavík vorið 1994, en sambærilegar skrifstofur hafa starfað á öðrum Norðurlöndum um nokkurt skeið. Þeir aðilar sem stóðu að stofnun mannréttindaskrifstofunnar voru Íslandsdeild Amnesty International, Samtökin Barnaheill, Biskupsstofa, Lögmannafélag Íslands, Hjálparstofnun Kirkjunnar, Rauði Krossinn, Kvenréttindafélag Íslands, Jafnréttisráð og UNIFEM á Íslandi. Má ætla að Mannréttindaskrifstofan láti meðal annars til sín taka hvernig til hefur tekist með framkvæmd alþjóðlegra mannréttindasamningu hér á landi og hefur hún þegar staðið fyrir fræðslu- og kynningarstarfi á vettvangi mannréttindamála, bæði fyrir lögfræðinga og fyrir almenning.


II. Upplýsingar sem varða einstök ákvæði í I. II. og III. kafla samningsins

1. grein

12. Vísað er til 1.-7. málsgreinar annarrar skýrslu Íslands og eru atriði sem þar er lýst óbreytt í öllum meginatriðum. Því má þó bæta við vegna umfjöllunar um samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES), að samningurinn tók gildi á Íslandi 1. janúar 1994 og samhliða því ýmsar lagabreytingar sem kveða á um réttarstöðu íbúa á evrópska efnahagssvæðinu á Íslandi

13. Í tengslum við umfjöllun í 7. málsgrein skýrslunnar um refsiaðgerðir gegn Suður-Afríku, má geta þess að með lögum nr. 33/1993 voru felld niður lög um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku.

2. grein

14. Frá því að síðasta skýrsla Íslands var gerð hafa ýmsar ráðstafanir verið gerðar í því skyni að tryggja þau réttindi sem talin eru í 1. og 2. málsgrein 2. greinar samningsins. Hvað varðar almennu jafnræðisregluna sérstaklega má einnig vísa til umfjöllunar um 26. grein samningins hér á eftir.

15. Sú tilhneiging er vaxandi í íslenskri löggjöf að setja í ýmis sérlög
ákvæði um bann við mismunun og að jafna hlut þeirra sem hafa áður þurft að þola mismunun. Í þessu sambandi má til dæmis nefna frumvarp sem nú liggur fyrir til nýrra mannanafnalaga, en eitt helsta markmið þess er að jafna nafnrétt manna eftir því sem kostur er meðal annars með því að auka rétt erlendra manna sem gerast íslenskir ríkisborgarar. Hefur núgildandi fyrirkomulag sem meðal annars skyldar útlendinga til að taka upp íslenskt kenninafn er þeir gerast íslenskir ríkisborgarar verið gagnrýnt.

16. Í 11. gr. nýju stjórnsýslulaganna frá 1993 hefur verið sett mikilvæg regla um jafnræði manna þegar leyst er úr málum þeirra í stjórnsýslunni. Þar segir að við úrlausn mála sé óheimilt að mismuna aðilum á grundvelli sjónarmiða byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu , ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Þótt þessi regla hafi fyrir gildistöku laganna verið talin meðal óskráðra undirstöðureglna í stjórnsýslunni
þótti nauðsynlegt að festa hana með skýrum hætti í lög.

17. Í almennum athugasemdum við skýrslu þessa var nefnt að samkvæmt breytingum á stjórnarskránni er ráðgert að í 1. mgr. 65. stjórnarskrárinnar verði almenn jafnræðisregla um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Er regla þessi að mörgu leyti sambærileg við jafnræðisregluna í 26. gr. samningsins og verður nánar fjallað um hana í skýringum við það ákvæði. Hún er því ekki einskorðuð við að menn skuli njóta réttinda sem tryggð eru í mannréttindaákvæðum án mismununar heldur gildir hún á öllum sviðum löggjafar.

18. Þess má geta að þar sem Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur öðlast lagagildi á Íslandi með lögum nr. 62/1994 má vísa til 14. gr. sáttmálans sem kveður á um að réttindi þau og frelsi sem lýst er í Mannréttindasáttmálanum skuli tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragð, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, sambands við þjóðernisminnihluta, eigna, ætternis, eða annarra aðstæðna.

19. Varðandi 3. málsgrein 2. greinar samningsins hafa engar sérstakar breytingar orðið í framkvæmd eða á löggjöf sem varðar rétt manna til að fá raunhæfar úrbætur ef brotið er á réttindum þeirra. Er því vísað til umfjöllunar í 19.-32. málsgreinar í síðustu skýrslu um þetta efni. Þó má árétta að sú meginregla gildir samkvæmt íslenskum rétti að dómstólar hafa talið sér heimilt að meta hvort almenn lög eru samrýmanleg stjórnarskránni, og skapast sú aðstaða ekki síst í tengslum við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Telji dómstólar að almenn lög brjóti gegn mannréttindaákvæðum, beita þeir ekki lögunum þar sem stjórnarskrárákvæðin ganga þeim framar. Hins vegar hafa þeir ekki heimild til þess að fella lög formlega úr gildi. Ekki er formlega kveðið á um þessa heimild dómstóla til þess að endurskoða lög hvorki í stjórnarskránni né annars staðar, en hún er talin meðal óskráðra grundvallarreglna í íslenskri stjórnskipan.

20. Þótt alþjóðlegir mannréttindasamningar aðrir en Mannréttindasáttmáli Evrópu hafi ekki lagagildi á Íslandi er ekki sjaldgæft að vísað sé til þeirra fyrir íslenskum dómstólum. Dómstólar skýra íslensk lög til samræmis við þjóðréttarskuldbindingar sem íslenska ríkið hefur gengist undir með aðild sinni að alþjóðlegum mannréttindasamningum en almennt er litið svo á að íslensk löggjöf sé í samræmi við þessa samninga. Þess eru dæmi um að í dómsniðurstöðum hafi verið vísað til samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

21. Vegna umfjöllunar um umboðsmann Alþingis í 27.-31. málsgrein annarrar skýrslu, má geta þess að umfang starfsemi hans fer vaxandi og kvörtunum sem honum berast fer enn fjölgandi. Frá því embættið tók til starfa árið 1988 hefur starfsemi umboðsmanns verið mjög árangursrík. Hafa ábendingar hans til stjórnvalda og gagnrýni á störf þeirra haft mikil áhrif og eftir þeim farið, þrátt fyrir að niðurstöður hans séu ekki bindandi fyrir stjórnvöld. Síðustu tölur um fjölda kvartana eru eftirfarandi:
Ár Fjöldi kvartana Mál tekin upp að eigin
frumkvæði umboðsmanns
1992 190 4
1993 235 3
1994 342 5

3. grein

22. Áður hefur verið nefnt samkvæmt breytingum á stjórnarskránni er tiltekið sérstaklega í 2. mgr. 65. gr. hennar að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Með þessu er lögð enn frekari áhersla á jafnrétti kynjanna, en leiða má af almennu jafnræðisreglunni sem sett er fram í 1. mgr. sama stjórnarskrárákvæðis. Ekki hafa orðið almennar lagabreytingar að öðru leyti sem tengjast jafnréttismálum milli kvenna og karla og má vísa til umfjöllunar í 40.-42. gr. um það efni. Alþingi samþykkti þingsályktun þann 7. maí 1993 um fjögurra ára áætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna, en með henni var ríkisstjórninni falið að vinna samkvæmt framkvæmdaáætlun að aðgerðum til að ná fram jafnrétti kynjanna á tímabilinu 1992-96. Hefur jafnréttisráði verið falið að hafa umsjón með að markmiðum framkvæmdaáætlunarinnar verði náð á tímabilinu.

23. Þrátt fyrir að kjör kvenna breyst mikið til batnaðar á síðustu áratugum og konur njóti nú að öllu leyti jafnrar lagalegrar stöðu á við karla hefur ekki enn náðst full jafnrétti í framkvæmd milli karla og kvenna á ýmsum sviðum. Þetta á hvað helst við um stöðu á vinnumarkaðnum, en þótt lög hafi lengi kveðið á um jöfn laun kvenna og karla og staða kvenna hafi batnað mikið í þeim efnum virðist þó sem ekki ríki þar enn fullt launajafnrétti. Má í þessu sambandi meðal annars vísa til eftirfarandi tölulegra upplýsinga.

24. Greitt tímakaup kvenna sem hlutfall(%) af tímakaupi karla á Íslandi 1990- 1993:
Verkakonur Afgreiðslukonur Skrifstofukonur
1990 92,6 73,6 72,0
1991 94,5 71,4 73,0
1992 93,7 70,7 74,6
1993 93,7 70,8 76,5

25. Þótt þátttaka kvenna í atvinnulífinu hafi aukist verulega á síðustu áratugum þá eru sum störf enn þá mjög kynjaskipt, og almennt er talið að störf sem álitin eru hefðbundin kvennastörf, svo sem umönnun barna eða sjúklinga, séu lægra launuð en hefðbundin karlastörf. Konur eru enn í miklum meirihluta í verslun og þjónustu en á því sviði eru þær í miklum minnihluta í stjórnunarstöðum og í stöðum sérfræðinga. Hlutur kvenna í opinberum nefndum, stjórnum og ráðum hefur aukist nokkuð undanfarin ár en þó er langt í land að hann sé jafn á við karla. Þannig má benda á að hlutfall kvenna í opinberum nefndum og ráðum var u.þ.b 20% árið 1994 en hafði þá aukist úr u.þ.b. 15% árið 1990 og var aðeins tæplega 10% árið 1987.

26. Eftirfarandi eru tölfræðiupplýsingar um skiptingu vinnuafls á Íslandi eftir atvinnugreinum í apríl 1994 (í prósentum talið):
Konur Karlar
Landbúnaður 4 5
Fiskveiðar 0 9
Iðnaður 14 20
- þ.a. fiskiðnaður 7 6
Veitur 1 1
Mannvirkjagerð 0 12
Verslun og viðgerðir 13 13
Hótel og veitingahús 4 3
Samgöngur/fjarskipti 5 8
Fjármálaþjónusta 5 2
Fasteignaviðskipti
og ýmis þjónusta 5 7
Opinber stjórnsýsla 5 5
Fræðslustarfsemi 9 3
Heilbrigðismál og
félagsleg þjónusta 28 5
Önnur samfélagsleg
þjónusta og menning-
arstarfsemi 8 7
Ótilgreint 0 -
Alls 100 100

27. Skipting vinnuafls eftir starfsgreinum var í apríl 1994 eftirfarandi (í prósentum talið):
Konur Karlar
Embættismenn og
stjórnendur 5 12
Sérfræðingar 13 12
Tæknar og sérmennt-
að starfsfólk 16 9
Skrifstofufólk 17 3
Þjónustu- og
verslunarfólk 25 10
Bændur og fiskimenn 3 11
Iðnaðarmenn 9 24
Véla- og vélgæsla 2 14
Ósérhæft starfsfólk 11 4
Ótilgreint 0 -
Alls 100 100

28. Með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28/1991 var sett á stofn kærunefnd jafnréttismála. Nefndin er skipuð af félagsmálaráðherra til þriggja ára í senn og eru nefndarmenn lögfræðingar. Tveir nefndarmanna eru tilnefndir af Hæstarétti, þar af annar sem formaður og einn er skipaður án tilnefningar. Hlutverk nefndarinnar er að taka við ábendingum um brot á ákvæðum jafnréttislaganna, rannsaka mál af því tilefni og senda að rannsókn lokinni niðurstöður til þeirra aðila er málið snertir. Nefndin getur einnig í ákveðnum tilvikum haft frumkvæði um ábendingar varðandi framkvæmd laganna. Atvinnurekendum, opinberum stofnunum, félagasamtökum og öðrum þeim sem upplýst geta mál, er skylt að veita nefndinni allar þær upplýsingar sem málið varða. Þegar um er að ræða mál sem ætla má að geti hafa stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild skal kærunefnd leita umsagnar frá heildarsamtökum launþega og viðsemjendum þeirra. Álitsgerðir kærunefndar eru ekki bindandi fyrir aðila. Í þeim tilvikum þar sem ákvæði laganna eru brotin að mati nefndarinnar, skal hún beina rökstuddum tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila. Í samráði við aðila er nefndinni heimilt að höfða mál fyrir dómstólum, fallist mótaðili ekki á tilmæli nefndarinnar. Í slíku dómsmáli getur nefndin krafist viðurkenningar á að jafnréttislög hafi verið brotin. Enn fremur getur hún krafist bóta vegna fjártjóns og miska. Þeim málum hefur fjölgað nokkuð þar sem aðili óskar eftir að máli hans sé fylgt eftir gagnvart atvinnurekanda. Í fyrstu er reynt að leita sátta, en ef það tekst ekki er málið falið sjálfstætt starfandi lögmönnum til frekari meðferðar. Á árinu 1993 gekk dómur í Hæstarétti Íslands í máli sem varðaði álitaefni um brot á jafnréttislögum í tengslum við stöðuveitingu. Niðurstaða réttarins var að veiting menntamálaráðherra í lektorsstöðu við Háskóla Íslands hefði brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Konunni sem kærði stöðuveitinguna voru hins vegar ekki dæmdar bætur þar sem hún hafði ekki orðið fyrir fjártjóni að mati réttarins og ekki voru taldar nægar líkur fyrir því að hún hefði orðið fyrir miska vegna málsins.

29. Á árinu 1993 bárust kærunefnd jafnréttismála ellefu mál. Kærunefndin lauk afgreiðslu tólf mála á árinu, þar af voru níu mál sem bárust henni á árinu 1992. Af áðurgreindum tólf málum voru karlar kærendur í fjórum, en konur í átta málum. Nefndin taldi að réttur hefði verið brotinn á kæranda að hluta eða öllu leyti í sex þessara mála. Fjögur málanna af heildarfjöldanum vörðuðu launajafnrétti kynja, þar af fjölluðu tvö þeirra um rétt feðra til launa í fæðingarorlofi; fimm mál fjölluðu um stöðuveitingar; tvö mál fjölluðu um vinnuaðstæður; tvö um uppsagnir og eitt mál um rétt til félagsaðildar og var það jafnframt eina málið sem ekki var vinnumarkaðsmál.

4. grein

30. Engar breytingar hafa átt sér stað hvorki í íslenskri löggjöf né í framkvæmd sem varða þetta ákvæði samningsins og eru slíkar breytingar ekki fyrirhugaðar. Er því vísað til umfjöllunar í 63. og 64. málsgreinar í annarri skýrslu Íslands.

5. grein

31. Vísað er til umfjöllunar í 65. og 66. málsgrein annarrar skýrslu Íslands en engin stefnubreyting hefur orðið á þeim grundvallarreglum um skýringu laga og þjóðréttarsamninga sem þar er lýst.

6. grein

32. Ekki hafa orðið breytingar á refsilöggjöf í tengslum við manndráp frá því önnur skýrsla Íslands var gerð og er því vísað til umfjöllunar þar um 6. grein samningsins.

33. Eins og fram kemur í 72. málsgrein annarrar skýrslu var dauðarefsing afnumin úr íslenskum lögum árið 1928 eftir að hafa ekki verið beitt í tæpa öld. Engin álitaefni hafa vaknað síðan um að taka aftur upp dauðarefsingar á Íslandi, hvorki í tengslum við stríðstíma né aðrar aðstæður. Ísland er aðili að annarri valfrjálsri bókun við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um afnám dauðarefsingar og viðbótarsamningi nr. 6 við Mannréttindasáttmála Evrópu varðandi afnám dauðarefsingar.

34. Þess má geta að í nýrri 69. gr. stjórnarskrárinnar er stjórnarskrárbundin sú regla að í lögum megi aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu. Slíkt afdráttarlaust orðalag gengur mun lengra en gert er bæði í samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og í Mannréttindasáttmála Evrópu. Þótt ekki hafi náðst alþjóðleg samstaða um algert afnám dauðarefsinga þykir eðlilegt og í samræmi við íslenska réttarvitund að fortakslaust bann við dauðarefsingum sé meðal mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar.

7. grein

35. Atriði sem lýst er í 80.-100. grein annarrar skýrslu Íslands í tengslum við efni 7. gr. samningsins standa í meginatriðum óbreytt þegar þessi skýrsla er rituð og er því vísað til þeirrar umfjöllunar.

36. Fram til þessa hefur engin almenn regla verið í íslenskri löggjöf eða stjórnarskrá sem kveður á um fortakslaust bann við pyndingum, eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur reglan hins vegar verið talin meðal mikilvægustu óskráðra grundvallarreglna að baki mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og hafa ekki vaknað álitaefni um gildi hennar. Í ljósi mikilvægis þessara réttinda hefur nú verið gerð tillaga um að hún verði skráð meðal mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar. Samkvæmt breytingum á stjórnarskránni verður skýrlega orðuð í 1. mgr. 68. gr. reglan um engan megi beita pyndingum ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

37. Í skýringum með stjórnarskrárbreytingum á áðurnefndu ákvæði kemur meðal annars fram að banninu við ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð sé einkum ætlað að skírskota til aðstæðna þar sem maður hefur verið sviptur frelsi, enda sé meiri hætta á en endranær að maður sæti ómannúðlegri meðferð þegar honum er haldið gegn vilja sínu. Kemur því sérstaklega til álita í þessum efnum meðferð handtekinna manna og gæslufanga svo og til dæmis manna sem hafa verið sviptir frelsi vegna andlegrar vanheilsu og er haldið nauðugum á sjúkrahúsi. Þá er litið svo á að í þessu ákvæði felist bann við læknisfræðilegum og vísindalegum tilraunum án samþykkis þess einstaklings sem á í hlut og er í skýringum við ákvæðið sérstaklega vísað í síðari málslið 7. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

8. gr.

38. Hvorki íslenska stjórnarskráin né almenn löggjöf hefur haft sérstakt ákvæði um bann við þrældómi og nauðungarvinnu. Í 2. mgr. áðurgreindrar 68. gr. í breyttri stjórnarskrár er lagt til að stjórnarskrárbinda reglu um að engum skuli gert að leysa af hendi nauðungarvinnu. Þrældómur eða þrælkunarvinna er ekki orðuð sérstaklega í ákvæðinu, en hún hefur ekki tíðkast á Íslandi um margar aldir. Er gengið út frá að ákvæðið um bann við nauðungarvinnu hljóti einnig að fela í sér bann við þrælkunarvinnu.

39. Áréttað er að ýmsar borgaraskyldur sem lýst er í 112.-116. málsgrein annarrar skýrslu Íslands eru ekki taldar falla undir hugtakið nauðungarvinna. Þess má geta að heimildin sem lýst er í 112. málsgrein annarrar skýrslu Íslands til að koma á herskyldu með lögum, fellur niður þegar breytingar á stjórnarskránni taka gildi. Henni hefur aldrei verði beitt enda hefur aldrei verið til íslenskur her. Er þó ekki litið svo á að brottfall reglunnar komi í veg fyrir að sett yrðu, ef þörf krefur, almenn lög þar sem yrði mælt fyrir um skyldu til að verða við herkvaðningu og taka til vopna.

40. Því má bæta við umfjöllun um frumvarp um samfélagsþjónustu í 111. málsgrein annarrar skýrslu Íslands að vorið 1994 voru samþykkt á Alþingi, lög um samfélagsþjónustu nr. 55/1994 og taka þau gildi 1. júlí 1995. Lögin fela í sér þá heimild, að hafi maður verið dæmdur í allt að þriggja mánaða óskilorðsbundna refsivist er heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta dóminn þannig að í stað refsivistar komi ólaunuð samfélagsþjónusta, minnst 40 klukkustundir og mest 120 klukkustundir. Í lögunum eru settar ítarlegar reglur um skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita, en þar á meðal er það skilyrði að dómþoli óski þess að samfélagsþjónusta komi í stað refsivistar. Maður verður því aldrei þvingaður til þess að inna af hendi samfélagsþjónustu. Með lögunum er sett á
stofn samfélagsþjónustunefnd sem hefur meðal annars það hlutverk að meta hvort skilyrði samfélagsþjónustu eru uppfyllt og að ákveða hvar, hvernig og á hve löngum tíma samfélagsþjónusta verði innt af hendi.

9. grein

41. Engar sérstakar breytingar hafa átt sér stað á löggjöf eða framkvæmd sem varðar frelsissviptingu og réttarstöðu frelsissvipts manns frá því að önnur skýrsla Íslands var gerð og er því vísað til umfjöllunar í 117. -147. málsgreinar skýrslunnar. Áréttað skal að grundvallarreglur um réttarstöðu frelsissvipts manns eru bundnar í 65. gr. stjórnarskrárinnar og nánari reglur, þar með talin öll þau atriði sem koma fram í 9. grein samningsins eru tryggð í löggjöf að öðru leyti, einkum í lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1992.

42. Í 67. gr. stjórnarskrárinnar er ráðgert samkvæmt fyrirhuguðum breytingum að stjórnarskrárbinda í ríkari mæli réttindi frelsissvipts manns sem talin eru í 9. grein samningsins. Ákvæðið er þannig mun ítarlegra en núgildandi 65. gr. stjórnarskrárinnar auk þess sem það nær í ýmsum atriðum einnig til réttarstöðu manna sem sviptir eru frelsi af öðrum ástæðum en í tengslum við rannsókn opinbers máls, en núgildandi 65. gr. tekur ekki til þeirra aðstæðna. Loks kveður 67. gr. sérstaklega á um bótarétt manns sem sviptur hefur verið frelsi að ósekju og er reglan því sambærileg við 5. málsgrein 9. greinar samningsins.

10. grein

43. Vísað er til umfjöllunar um meðferð fanga og fangavist í íslenskum fangelsum í 148.-171. málsgrein annarrar skýrslu Íslands. Frá því skýrslan var gerð hafa ekki verið gerðar sérstakar lagabreytingar sem tengjast þeim réttindum sem sett eru fram í 10. gr. samningsins.

44. Ýmsar ráðstafanir hafa hins vegar verið gerðar á undanförnum árum sem hafa það markmið að bæta meðferð og aðbúnað fanga í íslenskum fangelsum. Eins og nefnt er í 154. málsgrein annarrar skýrslu Íslands varð nokkur opinber umræða um málefni fanga á Íslandi á fyrri hluta árs 1992 eftir að nefnd sem gerði úttekt á fangelsismálum birti harðorða gagnrýni um húsakost og aðbúnað fanga almennt í íslenskum fangelsum. Í kjölfarið samþykkti ríkisstjórnin áætlun dómsmálaráðherra um úrbætur í fangelsismálum. Með samþykkt ríkisstjórnarinnar um fjögurra ára framkvæmdaáætlun í fangelsismálum skuldbatt dómsmálaráðherra sig til að forgangsraða þessu verkefni innan þess fjárhagsramma sem hann hefur yfir að ráða í samræmi við þá stefnumörkun sem kemur fram í framkvæmdaáætluninni.

45. Fyrsti áfangi áðurgreindrar framkvæmdaáætlunar í fangelsismálum er að reisa viðbótarfangelsi á Litla-Hrauni,sem í dag er stærsta fangelsi á landinu. Framkvæmdir við þá byggingu hófust í apríl 1994 og er áætlað að taka hana í notkun fyrir mitt ár 1995. Á árinu 1995 er síðan fyrirhugað að byggja fjölnota íþrótta- og vinnuskála á Litla-Hrauni. Á því ári verður jafnframt undirbúin bygging fangelsis í Reykjavík, sem ætlað er að leysa Hegningarhúsið í Reykjavík af hólmi, en að mati fangelsismálanefndar í skýrslu frá 1992 var ástand fangelsisins og aðbúnaður óviðunandi. Þessu nýja fangelsi er einnig ætlað að leysa af hólmi núverandi gæsluvarðhaldsfangelsi í Reykjavík. Núverandi áætlanir ráðgera að framkvæmdir við byggingu fangelsis í Reykjavík geti hafist í ársbyrjun 1996 og verði lokið á u.þ.b. tveimur árum.

46. Hvað varðar meðferð fanga sérstaklega má geta þess að árin 1991, 1992 og 1993 bárust engar kærur frá föngum vegna harðræðis af hálfu starfsmanna í fangelsum.

47. Í júlí 1993 kom hingað til lands sendinefnd á vegum Evrópusamningsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sem Ísland er aðili að. Nefndin heimsótti nokkrar lögreglustöðvar og fangelsi á landinu og meðferðarstofnun fyrir ósakhæfa afbrotamenn sem nýlega tók til starfa. Heimsóknin var liður í áætlun samkvæmt samningnum, þ.e. að athuga ástand sem ríkir í raun í þeim löndum sem hún sækir heim. Slík athugun felst meðal annars í því að athuga almennar aðstæður í þeim stofnunum sem eru heimsóttar; fylgjast með afstöðu opinberra starfsmanna sem heimild hafa til valdbeitingar og annarra starfsmanna til þeirra sem sviptir hafa verið frelsi; og eiga viðtöl við fólk sem hefur verið sviptir frelsi, í því skyni að mynd sér skoðun á því hvernig það skynjar tvö fyrrgreind atriði og til að taka við sérstökum kvörtunum sem það kann að hafa fram að færa; og loks kannar nefndin þar lagalega og stjórnarfarslega grundvöll sem frelsissvipting þess hvílir á. Í skýrslu nefndarinnar frá mars 1994 koma fram niðurstöður um heimsóknina, álit hennar á stöðu mála og ábendingar um það sem betur má fara.

48. Í umfjöllun um lögreglustöðvar sem sendinefndin heimsótti segir meðal annars í niðurstöðum hennar að hún hefði engar ásakanir heyrt um að menn sem höfðu verið í vörslu lögreglu á Íslandi hefðu sætt pyndingum og varð hún ekki áskynja um neitt annað sem benti til að pyndingar hefðu átt sér stað. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að lítil hætta virðist á að þeir sem sæta frelsissviptingu af hálfu íslenskrar lögreglu verði fyrir illri meðferð. Þó leggur hún áherslu á að nauðsyn þess að yfirmenn lögreglu geri undirmönnum sínum skýra grein fyrir því að ekki verði unað við að menn í gæslu séu látnir sæta illri meðferð, hvort sem slík meðferð er líkamlegs eða sálræns eðlis og að hæfilegum viðurlögum verði beitt í slíkum tilvikum. Efnislegar aðstæður til vistunar fólks í þeim íslensku lögreglustöðvum sem nefndin heimsótti voru almennt séð álitnar viðunandi.

49. Sendinefndin heyrði engar ásakanir um pyndingar eða illa líkamlega meðferð af öðru tagi á föngum í þeim fangelsum sem hún heimsótti á Íslandi eða í öðrum íslenskum fangelsum og ekki fundust heldur neinar aðrar sannanir um slíka háttsemi meðan á heimsókninni stóð. Nefndin tekur ennfremur fram í skýrslu sinni að almennt hafi samskipti starfsmanna og fanga verið afslöppuð. Nefndin tekur fram að lélegar aðstæður hafi verið til vistunar fanga í fangelsunum í Reykjavík og í ákveðnum hluta fangelsisins að Litla Hrauni.

11. grein

50. Vísað er til umfjöllunar með þessu ákvæði samningsins í 172.-174. málsgrein annarrar skýrslu Íslands. Engar breytingar hafa orðið á íslenskri löggjöf eða framkvæmd sem tengist þessu efni og er hún í fullu samræmi við 11. grein samningsins.

12. grein

51. Réttindi sem talin eru í 12. grein samningsins um ferðafrelsi og frelsi til að velja sér dvalarstað hafa fram til þessa aðeins verið tryggð í almennri íslenskri löggjöf en hafa ekki verið bundin í stjórnarskrá. Eftir að breytingar á stjórnarskránni hafa tekið gildi verður í 66. gr. hennar ákvæði sambærilegt við efni 12. greinar samningsins.

52. Íslenskar reglur í almennri löggjöf um hvenær mönnum verður meinað að yfirgefa land, um almennt ferðafrelsi innanlands og frelsi til að velja sér dvalarstað standa að meginstofni til óbreyttar frá því að önnur skýrsla Íslands var gerð. Er því vísað til umfjöllunar um 12. gr. samningsins í 175.-199. málsgrein annarrar skýrslu Íslands.

53. Þess má þó geta að ný lög hafa verið sett um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994. Helstu nýmæli þeirra laga varða reglur um atvinnuleyfi og flokkun þeirra, og undanþágur sem veittar eru EES-borgurum og starfsmönnum sendiráða erlendra ríkja. Engar breytingar urðu með nýju lögunum sem snerta efnisatriði 12. greinar samningsins.

13. grein

54. Skilyrðum þess að útlendingi sem er á löglegan hátt á landssvæði ríkis verði vísað úr landi er lýst í 200.-207. málsgrein annarrar skýrslu Íslands og er vísað til þeirrar umfjöllunar. Frumvarp til breytinga á lögum um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965 sem lýst er í umfjöllun um 13. grein í annarri skýrslu er nú orðið að lögum sem tóku gildi 1. janúar 1994.

55. Með áðurgreindum breytingum á lögunum um eftirlit með útlendingum var bætt réttarstaða útlendinga í tengslum við brottvísun úr landi og að öðru leyti settar ítarlegri reglur sem varða stjórnsýslumeðferð mála þegar útlendingar eiga í hlut.
Helsta breytingin felst í því að sérstök stofnun, Útlendingaeftirlitið, tekur ákvarðanir um málefni útlendinga á lægra stjórnsýslustigi en ákvarðanir þess er hægt að kæra til dómsmálaráðuneytisins.

56. Þannig er það Útlendingaeftirlitið sem tekur ákvörðun um að vísa skuli útlendingi sem löglega er kominn á landssvæði ríkis, úr landi en heimilt er að kæra þá ákvörðun til dómsmálaráðherra. Skylt er að leiðbeina útlendingi um þessa kæruheimild þegar honum er kynnt ákvörðun um brottvísun. Ef útlendingur vill nýta heimild til kæru, skal hann lýsa yfir kæru innan 15 daga frá því að honum var kynnt ákvörðun eða úrskurður fyrir þeim sem það gerir. Ef kæru er lýst yfir áður en ákvörðun er framfylgt með brottvikningu úr landi frestast framkvæmd þeirrar aðgerðar þar til úrskurður ráðherra liggur fyrir. Á árinu 1994 var sex útlendingum vísað úr landi í kjölfar afplánunar á refsidómum sem þeir höfðu hlotið hér á landi, en meirihluti dómanna var vegna fíkniefnabrota. Enginn þeirra nýtti sér heimild til að kæra ákvörðun Útlendingaeftirlitsins til dómsmálaráðuneytisins. Árið 1993 var 1 útlendingi vísað úr landi af Útlendingaeftirlitinum.

57. Árlega er nokkrum fjölda útlendinga synjað um landgöngu hér á landi, einkum á grundvelli þess að dvalarleyfi eða vegabréfsáritun skorti. Árið 1992 var 44 útlendingum synjað um landgöngu af þessum ástæðum en árið 1993 voru 17 slíkar synjanir. Af þessum 17 voru þrír sem báðust hælis sem flóttamenn en þeir voru sendir aftur til baka til þeirra nágrannalanda sem þeir komu frá (Danmörk, Noregur, Svíþjóð).

58. Stefnt er að því að fram fari heildarendurskoðun á lögum um eftirlit með útlendingum. Liður í þeirri endurskoðun verður mótun nýrrar stefnu í flóttamannamálum, en fram til þessa hefur slík stefna ekki verið fastmótuð og fá lagaákvæði um efnið. Mótun nýrrar flóttamennastefnu felst meðal annars í því að ákveða að árlega verði tekið á móti ákveðnum fjölda flóttamanna til landsins, þ.e. komið verði á ákveðnum flóttamannakvóta. Ríkisstjórnin hefur undanfarna áratugi ákveðið að taka á móti nokkrum hópum flóttamanna frá tilteknum löndum, þar á meðal löndum Austur-Evrópu og Víetnam. Frá árinu 1956-1993 hafa 207 flóttamenn í sex hópum komið til landsins með þessum hætti og 45 ættingjar þeirra hafa fylgt í kjölfarið. Árin 1992 og 1993 var ekki ákveðinn sérstakur flóttamannakvóti. Nokkrum útlendingum sem koma frá þeim svæðum þaðan sem flóttamenn koma helst hefur verið veitt landvist hér á landi og má þar nefna að árin 1992 og 1993 voru gefin út ný dvalarleyfi til 62 einstaklinga frá hinum ýmsu svæðum í fyrrum Júgóslavíu.

14. grein

59. Réttindi þau sem talin eru í 14. grein samningsins hafa fram til þessa verið tryggð í almennri löggjöf, einkum lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð opinberra mála, en ekki hefur verið sérstakt ákvæði í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sem tryggir þessi réttindi. Í sérstökum kafla stjórnarskrárinnar um dómsvaldið eru skýr ákvæði sem hafa það markmið að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins. Samkvæmt breytingum á stjórnarskránni verður í 70. gr. hennar stjórnarskrárbundinn réttur manna til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli og um meginregluna um að dómþing skuli háð í heyrandi hljóði. Í ákvæðinu verður einnig sú grundvallarregla sem er í 2. mgr. 14. greinar samningsins um að maður sem er borinn sökum um glæpsamlegt athæfi skuli talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Þótt þessi regla komi ekki berum orðum fram í núgildandi löggjöf um opinbert réttarfar, hefur tvímælalaust verið á henni byggt í framkvæmd. Í 45. gr. laganna um meðferð opinberra mála er þó ákvæði sem snýr mjög að þessu, en þar er mælt fyrir um að að sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik sem telja má honum í óhag hvíli á ákæruvaldinu. Þessi regla, in dubio pro reo, lýtur hins vegar aðeins að því hver ber sönnunarbyrði um sektina, en ekki berum orðum að því að maður teljist saklaus af refsiverðri háttsemi þar til sekt hans er sönnuð. Þykir eðlilegt að mælt verði skýrlega fyrir um síðarnefndu reglunna í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar í ljósi mikilvægis hennar.

60. Í umfjöllun í tengslum við 14. gr. samningsins í 208.-271. málsgrein annarrar skýrslu Íslands er lýst í ítarlegu máli íslenskri réttarskipan, aðgerðum til að tryggja sjálfstæði og hlutleysi dómstóla, helstu grunnreglum um meðferð mála fyrir dómstólum og reglum um réttarstöðu sakborninga í refsimálum. Þegar önnur skýrsla Íslands var rituð höfðu nýlega tekið gildi (1. júlí 1992) mjög umfangsmiklar breytingar á íslensku dómstólakerfi í kjölfar heildarendurskoðunar á öllum sviðum réttarfars og dómstólaskipunar. Eftir þessar gagngeru lagabreytingar er litið svo á íslensk löggjöf sé að öllu leyti í samræmi 14. grein samningsins og tryggi þau réttindi sem sett eru fram í ákvæðinu. Er vísað til áðurgreindrar umfjöllunar í annarri skýrslu Íslands um einstaka atriði sem talin eru í 14. gr.

61. Almenn löggjöf sem tengist efni 14. gr. er nánast að öllu leyti óbreytt frá því að önnur skýrsla Íslands var gerð og er því litlu við umfjöllun þar að bæta. Þó má geta þess að með lögum nr. 39/1994 urðu breytingar á lögum um Hæstarétt Íslands sem fela í sér að dómarar við réttinn eru nú níu, í stað átta áður. Einnig voru nokkrar breytingar gerðar árið 1994 á lögum um meðferð opinberra mála og lögum um meðferð einkamála, sem varða skilyrði til áfrýjunar í einkamálum og sakamálum.

62. Með vísan til 5. mgr. 14. greinar samningsins verður nú lýst helstu breytingum sem orðið hafa á rétti sakfellds manns til að áfrýja dómi. Samkvæmt eldri löggjöf voru engar takmarkanir gerðar á heimild sakfellds manns til að áfrýja dómi í opinberu máli nema að því leyti að ekki var unnt án leyfis Hæstaréttar að áfrýja dómi í máli þar sem ákærði hafði ekki sótt þing í héraði. Var rétturinn til áfrýjunar þannig ekki takmarkaður af tilliti til brotsins sem mál varðaði eða þyngdar viðurlaga samkvæmt héraðsdómi. Með lögum nr. 19/1994 voru gerðar breytingar á lögum um meðferð opinbera mála sem takmarka áfrýjunarréttinn nokkuð. Eftir sem áður er gengið út frá þeirri grundvallarreglu að sakfelldur maður eigi að öðru jöfnu rétt á að leita endurskoðunar á sakfellingu og viðurlögum á hendur sér. Hins vegar fela breytingarlögin í sér að mál um minniháttar brot geti ekki sætt áfrýjun til Hæstaréttar nema með leyfi dómsins. Þetta eru nánar tiltekið mál þar sem ákærða hefur hvorki verið gert að sæta frelsissviptingu né sekt eða eignaupptöku sem fer fram úr tiltekinni fjárhæð (500.000 ISK). Þótt þessi regla miði að því að takmarka rétt til áfrýjunar á dómi í minniháttar málum, er endurskoðun æðra dóms engan veginn útilokuð því sakfelldur maður getur leitað leyfis Hæstaréttar til áfrýjunar þótt viðurlög á hendur honum séu innan þeirra marka sem áður var getið. Þannig getur endurskoðun á héraðsdómi einnig átt sér stað í minniháttar málum og þá í sambandi við ákvörðun Hæstaréttar um hvort leyfi verður veitt til áfrýjunar. Eftir atvikum verður slíkt leyfi til áfrýjunar vetitt ef breyting á niðurstöðu þykir ekki ósennileg eða málið varðar mikilsverða hagsmuni. Eitt helsta markmið með þessum breytingum er að draga úr fjölda áfrýjana í tilvikum þar sem tilgangur með málskoti er lítill sem enginn og mikilvægi máls er takmarkað.

15. grein

63. Íslensk löggjöf og framkvæmd sem tengist réttindum í 15. grein samningsins er óbreytt frá því að önnur skýrsla Íslands var rituð og má því vísa til 272. og 273. málsgreinar þeirrar skýrslu.

64. Þess má geta að í 69. stjórnarskrárinnar er ráðgert að skýrlega verði orðað bann við afturvirkni refsilaga og að viðurlög megi ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þegar refsiverð háttsemi átti sér stað. Þetta er gert í ljósi þess að bann við afturvirkni refsilaga er ein mikilvægasta grundvallarregla íslenskrar refsilöggjafar og þykir nauðsynlegt að árétta mikilvægi hennar með því að stjórnarskrárbinda hana meðal mannréttindaákvæða.

16. grein

65. Íslensk löggjöf er að öllu leyti í fullu samræmi við þetta ákvæði samningsins þótt þessi regla sé ekki orðuð berum orðum enda er litið á hana sem sjálfsagða. Ekki hafa komið upp álitaefni sem tengjast þessum réttindum. Löggjöf og framkvæmd í tengslum við efni 16. greinar samningsins er óbreytt frá því að önnur skýrsla Íslands er rituð og er því vísað til umfjöllunar í 274.-279. málsgreinar þeirrar skýrslu.

17. grein

66. Engar breytingar hafa orðið á íslenskri löggjöf eða framkvæmd í tengslum við réttindi sem tryggð eru í 17. grein samningsins frá ritun annarrar skýrslu Íslands sem gefa tilefni til sérstakrar umfjöllunar. Er því vísað til umfjöllunar um 17. grein samnings í 280-298. málsgrein annarrar skýrslu Íslands. Íslensk löggjöf og framkvæmd er í fullu samræmi við þetta ákvæði samningisns.

67. Í 71. gr. breyttrar stjórnarskrár verður efni stjórnarskrárákvæðis um friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis gert öllu ítarlegra en er í núgildandi 66. gr. stjórnarskrárinnar. Í núgildandi stjórnarskrárákvæði er til dæmis eingöngu rætt berum orðum um friðhelgi heimilisins, en friðhelgi einkalífs og fjölskyldu er ekki nefnd sérstaklega. Ákvæðið hefur á hinn bóginn verið túlkað rúmt og þannig í raun falið í sér vernd á öllum fyrrgreindum réttindum. Í nýju stjórnarskrárákvæði um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er einnig mælt fyrir um heimildir til þess að skerða þennan rétt, en um þær verður alltaf að vera mælt fyrir í lögum eða samkvæmt sérstökum dómsúrskurði.


18. grein

68. Eins og lýst er í annarri skýrslu Íslands er trúfrelsi meðal stjórnarskrárverndaðra mannaréttinda. Samkvæmt fyrirhuguðum breytingum á núgildandi stjórnarskrárákvæðum um trúfrelsi í 63. og 64. gr. stjórnarskrárinnar er ekki stefnt að því að breyta efnisinntaki þeirra eins og það hefur verið túlkað. Fyrst og fremst er stefnt að því færa orðalag þeirra til nútímahorfs, enda bera þau merki þess að vera meira en aldar gömul. Þannig verður til dæmis breytt orðalagi um að landsmenn eigi "rétt á að þjóna guði með þeim hætti sem á best við sannfæringu hvers eins" en í staðinn er sett almennara orðalag þar sem segir að allir eigi "rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins."

69. Vísað er til umfjöllunar í 299.-309. málsgreinar annarrar skýrslu Íslands og hafa ekki orðið breytingar síðan hún var rituð sem gefa tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

70. Skráning í trúfélög og utan trúfélaga á Íslandi árið 1994 var eftirfarandi 1. desember 1994:

Alls 266.786

Þjóðkirkjan 244.925
Fríkirkjur 8.490
Fríkirkjan í Reykjavík 4.872
Óháði söfnuðurinn í Reykjavík 1.040
Fríkirkjan í Hafnarfirði 2.578
Önnur skráð trúfélög 6.944
Kaþólska kirkjan 2.535
Aðventistar 781
Hvítasunnusöfnuður 1.105
Sjónarhæðarsöfnuður 52
Votta Jehóva 576
Baháísamfélag 399
Ásatrúarfélag 172
Krossinn 345
Kirkja Jesú Krists h.s.d.h. 154
Vegurinn 771
Orð lífsins 54
Óskráð trúfélög og ótilgreind trúarbrögð 2.639
Utan trúfélaga 3.788

19. grein

71. Í 73. stjórnarskrárinnar eftir fyrirhugaðar breytingar verður ákvæði um skoðana- og tjáningarfrelsi orðað með nokkuð ítarlegri hætti en gert er í núgildandi 72. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Í áðurgreindri 72. gr. er skoðanafrelsi ekki verndað sérstaklega og auki skortir almennt ákvæði um vernd tjáningar í hvaða formi sem hún birtist, þar sem ákvæðið tekur einvörðungu til prentfrelsis. Með breytingum á efni ákvæðisins er ætlað að ráða bót á þessu og færa orðalag og efni þess til nútímahorfs, en ákvæðið stendur nú óbreytt frá árinu 1874.

72. Löggjöf eða framkvæmd laga sem tengist reglum um tjáningarfrelsi hefur ekki breyst í megindráttum frá því sem lýst er í umfjöllun um 19. grein samningsins í 310.-325. málsgrein annarrar skýrslu Íslands.

73. Eins og vikið er að í 324. málsgrein annarrar skýrslu Íslands var sérstakt refsiákvæði í 108. gr. almennra hegningarlaga, þar sem æru opinberra starfsmanna var veitt sérstök refsivernd. Þetta refsiákvæði var mjög umdeilt en var fellt niður með breytingum sem gerðar voru á hegningarlögum í febrúar á þessu ári. Þess má geta að síðast féll hæstaréttardómur þar sem sakborningur var dæmdur til sektargreiðslu vegna brots á 108. gr. þann 5. mars 1993. Í dóminum vísar Hæstiréttur sérstaklega til alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og að skýra beri íslensk lög í með tilliti til ákvæða hans. Var ekki talið að hegningarlagaákvæðið bryti gegn tjáningarfrelsi, enda kæmi fram í 72. gr. stjórnarskrárinnar að menn yrðu að bera ábyrgð á prentuðu efni.

20. grein

74. Vísað er til umfjöllunar í 326.-329. málsgreinar annarrar skýrslu Íslands og er aðstaðan óbreytt að öllu leyti frá því að hún var rituð. Ekki eru uppi fyrirætlanir um að fella niður fyrirvara Íslands við 1. málsgrein 20. greinar samningsins.

21. grein

75. Engar breytingar hafa orðið á löggjöf eða framkvæmd löggjafar í tengslum við fundafrelsi frá ritun annarrar skýrslu Íslands og er því vísað til umfjöllunar í 330.-335. málsgrein hennar.

76. Í fyrirhuguðum breytingum á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar er ekki ráðgert að breyta sérstaklega ákvæði um fundafrelsi sem er í núgildandi 74. gr. stjórnarskrárinnar. ngin álitefni hafa komið upp sem tengjast ákvæðinu á undanförnum áratugum.

22. grein

77. Löggjöf og framkvæmd laga sem varða stofnun félaga sem lýst er í umfjöllun um 22. grein í 336.-356. málsgrein annarrar skýrslu Íslands hefur ekki breyst frá ritunartíma skýrslunnar. Þess eru engin dæmi að félag hafi verið bannað og leyst upp með dómi eins og heimild er fyrir í 73. gr. núgildandi stjórnarskrárákvæða.

78. Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar eftir að breytingar hafa tekið gildi á stjórnarskránni er ráðgert að núgildandi 73. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi birtist óbreytt í 1. mgr. Á hinn bóginn er það nýmæli í breytingunum að í 2. mgr. sama ákvæðis kemur fram regla um að engan megi skylda til aðildar að félagi. Með lögum megi þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almanna hagsmuna eða réttinda annarra. Neikvætt félagafrelsi hefur verið mjög til umræðu á Íslandi undanfarin ár eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í máli gegn Íslandi, árið 1993 að það væri brot á 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu að skylda leigubílsstjóra með lögum til að vera í stéttarfélagi. Hæstiréttur Íslands hafði áður skýrt 73. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi á þann veg að hún verndaði ekki neikvætt félagafrelsi. Eru stjórnarskrárbreytingarnar nú í samræmi við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins gerð tillaga um þá almennu reglu að ekki sé heimild að skylda menn með lögum til þess að vera í félagi, en sú regla er þó ekki alveg undantekningarlaus.

79. Í tilefni af áðurnefndum dómi Mannréttindadómstólsins frá 1993, hefur lögum um leigubifreiðar verið breytt þannig að afnumin er skylda leigubifreiðastjóra til að vera í einu og sama stéttarfélagi.

80. Því má bæta við umfjöllun í annarri skýrslu Íslands um félög sem hafa mannréttindamál að helsta markmiði, að vorið 1994 var stofnuð Mannréttindaskrifstofa Íslands sbr. 11. málsgrein hér að framan. Mannréttindaskrifstofan hefur þann tilgang að safna upplýsingum um mannréttindamál, koma þeim á framfæri og stuðla að fræðslu og rannsóknum á sviði mannréttinda. Í þessu skyni hyggjast samtökin koma á fót safni bóka og tímarita um mannréttindamál og taka þátt í gagnasamskiptum mannréttindastofnana á Norðurlöndum. Einnig ætla samtökin að stuðla að fyrirlestrahaldi og umræðu um mannréttindamál; útgáfu og dreifingu efnis þar að lútandi og stuðla að rannsóknum á afmörkuðum sviðum mannréttinda.

23. grein

81. Eins og lýst er í umfjöllun um 23. grein í annarri skýrslu Íslands er byggt á þeirri grunnreglu í íslensku þjóðskipulagi að fjölskyldan sé hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins. Þótt þetta stefnumark komi ekki fram berum orðum birtist það í löggjöf sem varðar fjölskyldumálefni. Í annarri skýrslu Íslands er talin upp helsta löggjöf sem tengist fjölskyldumálefnum. Löggjöf sem varðar börn og málefni þeirra sérstaklega er tiltölulega nýleg eins og þar kemur fram, sbr. barnalög nr. 20/1992 og lög um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992. Er vísað til umfjöllunar í annarri skýrslunni hvað varðar efni þessara laga, sem standa að mestu óbreytt frá því hún var rituð.

82. Þess má þó geta að lagabreyting hefur verið gerð á barnalögumí því markmiði að treysta tengsl foreldris sem ekki hefur forsjá barns, við barnið. Þannig er nú lögfest að umgengnisréttur foreldris sem ekki hefur forsjá verði rýmkaður og látinn ná til símasambands, bréfasambands og annars hliðstæðs sambands foreldrisins við barnið. Með þessu er stefnt að því að rýmka inntak umgengnisréttar því samkvæmt hefðbundnum skilningi á núgildandi lagaákvæðum er hann einskorðaður við rétt foreldris til að umgangast barnið, þ.e. fá barnið í heimsókn tiltekinn tíma eða að fá að heimsækja barn, með öðrum orðum að hafa barn í návist sinni. Í breytingarlögunum er einnig ráðgert að kveðið verði á um rétt foreldris sem ekki hefur forsjá barns, til að fá upplýsingar um hagi barnsins hjá hinu foreldrinu og ýmsum stofnunum sem barnið tengist, svo og stjórnvöldum og starfsmönnum sem fjalla um málefni barnsins. Önnur atriði sem breyst hafa í barnalögunum eru tvenns konar. Annars vegar er ákvæði sem tengist fullgildingu Evrópuráðssamnings frá 20. maí 1980 um viðurkenningu og einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flurnings milli landa og Haagsamnings frá 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landi. Er sú regla nú lögfest að ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns, þá sé öðru foreldri óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Hins vegar var sú breyting gerð að dómsmálaráðherra er heimilt að lengja málshöfðunarfresti til höfðunar vefengingarmála um faðerni barns og mála til ógildingar á faðernisviðurkenningu.

83. Eins og lýst var í 378. málsgrein annarrar skýrslu Íslands var það nýmæli lögleitt með barnalögunum frá 1992 að foreldrar geta nú samið um að hafa sameiginlega forsjá barns jafnvel þegar til skilnaðar kemur. Við gerð samnings um sameiginlega forsjá barns er foreldrum skylt að ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með hvar barnið hefur búsetu að jafnaði. Það foreldri sem barn á lögheimili hjá hefur réttarstöðu einstæðs foreldris til að taka við meðlagsgreiðslum með barni úr hendi hins foreldrisins eða Tryggingastofnunar ríkisins, mæðra- eða feðralaunum og barnabótum og öðrum greiðslum frá hinu opinbera ef því er að skipta. Foreldrar geta síðan samið sín á milli um skiptingu greiðslna þessara enda er samkomulag foreldra um öll atriði er varða forsjá forsenda sameiginlegrar forsjár. Það foreldri sem barn á lögheimili hjá hefur einnig réttarstöðu einstæðs foreldris samkvæmt skattalögum, Ennfremur nýtur það þeirra hlunninda sem ríki og sveitarfélag bjóða einstæðum foreldrum. Ef barn dvelur um tíma hjá því foreldri sem það á ekki lögheimili hjá getur það þó notið þessara hlunninda um stundarsakir, t.d. réttinda til dagvistar barns. Reynslan hér á landi frá gildistöku barnalaganna sýnir að margir foreldrar hafa nýtt sér heimildina til að semja um sameiginlega forsjá og hefur það jafnframt dregið úr fjölda ágreiningsmála um forsjá barna við skilnað.

84. Eftirfarandi tölur sýna hvernig ákvörðunum um forsjá þ.á m. fjöldi samninga um sameiginlega forsjá, hefur verið háttað frá gildistöku nýju barnalaganna 1. júlí 1992- 1. október 1993:

Samningar um sameiginlega forsjá beggja foreldra: 268

Forsjá móður:
samkvæmt samningi 1.087
samkvæmt úrskurði dómsmálaráðuneytis 6
samkvæmt dómi 2

Forsjá föður:
samkvæmt samningi 76
samkvæmt úrskurði dómsmálaráðuneytis 2
samkvæmt dómi 1

85. Þann 1. júlí 1993 tóku gildi ný hjúskaparlög nr. 31/1993 sem leystu af hólmi lög um réttindi og skyldur hjóna frá árinu 1923 og lög um stofnun og slit hjúskapar frá árinu 1972, en helstu efnisatriðum þessara eldri laga var lýst í annarri skýrslu Íslands. Margvíslegar breytingar voru gerðar með nýju lögunum og verður þeim helstu nú lýst.

86. Ýmsar breytingar urðu á skilyrðum til hjónavígslu sbr. 2. málsgrein 23. greinar samningsins. Þannig hefur verið afnuminn áskilnaður um samþykki foreldra (lögráðamanns) sem skilyrði fyrir því að fólk undir 18 ára aldri gangi í hjúskap enda var fágætt að foreldrar tækju af skarið í þeim efnum. Leyfi sem dómsmálaráðuneytið veitir til undanþágu frá hjúskaparaldri eru mjög fátíð. Einnig hefur verið afnumið það skilyrði að leyfi dómsmálaráðuneytis þurfi til að geðveikir menn og þroskaheftir gangi í hjúskap enda er álitið mikilvægt að andlega fatlaðir menn njóti þeirra mannréttinda að geta stofnað til fjölskyldubanda. Loks var afnumið skilyrði um að leyfi dómsmálaráðuneytis þyrfti til vígslu manns og skyldmennis fyrrum maka hans í beinan legg. Enn er lagt bann við því að vígja skyldmenni í beinan legg og systkin svo og vígslu kjörforeldris og kjörbarns nema ættleiðing sé fallin niður.

87. Varðandi jöfn réttindi og skyldur hjóna meðan á hjúskap stendur, sbr. 4. málsgrein 23. greinar samningsins, þá hefur nú verið afnumið ákvæði sem lýst er í 57. og 371. málsgrein í annarri skýrslu Íslands um að eiginmaður geti orðið bundinn af samningi sem eiginkonan hefur gert fyrir hönd þeirra beggja til að uppfylla sérþarfir sínar. Ákvæði þetta bar mjög merki eldri tíma, þegar algengt var að konur öfluðu ekki tekna til heimilisins, en var í raun orðið úrelt og fól í sér misrétti milli hjóna.

88. Í nýju hjúskaparlögunum hafa reglur um hjónaskilnaði verið gerðar einfaldari og hjónaskilnaðarástæðum hefur fækkað. Meðal annars er styttur fresturinn sem þarf að líða á milli skilnaðar að borði og sæng og lögskilnaðar, úr einu ári í sex mánuði.

89. Þess má geta að vorið 1993 skipaði forsætisráðherra nefnd í samræmi við ályktun Alþingis þar sem þingið fól ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Skýrsla nefndarinnar liggur nú fyrir, en þar er meðal annnars gerð tillaga um að sett verði lög, líkt og í Noregi, Danmörku og Svíþjóð um að samkynhneigt fólk geti staðfest sambúð sína formlega hjá yfirvöldum og að slík "staðfest samvist" leggi þeim skyldur á herðar og veiti þeim réttindi eins og hjónaband veitir gagnkynhneigðum. Þær undantekningar verði þó á að samkynhneigðir megi ekki ættleiða börn og að börn sem við skráninguna eru í forsjá annars aðilans lúti ekki forsjá hins. Er stefnt að því að frumvarp til laga verði lagt fram með þessum tillögum nefndarinnar.

24. grein

90. Löggjöf sem varðar börn og málefni barna var nýlega endurskoðuð þegar önnur skýrsla Íslands var rituð (lög um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992 og barnalög nr. 20/1992) og hafa breytingar ekki orðið á henni síðan sem skipta máli í umfjöllun hér. Hafa atriði sem lýst er í 381.-404. málsgrein annarrar skýrslu Íslands sem tengjast ákvæðum 24. greinar samnings almennt ekki tekið breytingum og er því vísað til þeirrar umfjöllunar.

91. Þess má geta að samkvæmt breytingum á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar verður sérstakt ákvæði í 3. mgr. 77.gr. um að tryggja skuli börnum í lögum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Með þessu ákvæði sem felur í sér vissa stefnuyfirlýsingu og sækir meðal annars fyrirmynd í 24. gr. samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samningsins um réttindi barnsins sem Íslands er aðili, er fyrst og fremst ráðgert að leggja skyldu á löggjafann til að setja lög til að veita börnum fyrrnefnda tryggingu.

92. Eins og vikið var að í 4. málsgrein þessarar skýrslu hefur verið sett á stofn embætti umboðsmanns barna með lögum nr. 83/1994 og tók umboðsmaður barna til starfa 1. janúar 1995. Með stofnun embættis umboðsmanns barna er stefnt að því að bæta hag barna í samfélaginu og er umboðsmanni ætlað að standa vörð um hagsmuni og réttindi barna. Starf umboðsmanns á að vera að vinna að því að stjórnsýsluhafar, einstaklingar, félög og samtök einstaklinga taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Þannig setur hann fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins. Í þessu felst meðal annars það hlutverk að stuðla að því að virtir verði þjóðréttarsamningar með ákvæðum sem varða réttindi og velferð barna og fullgiltir hafa verið af Íslands hálfu og enn fremur að benda á að samningar um þetta efni verði fullgiltir. Umboðsmaður barna getur tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu. Hann tekur ekki til meðferðar ágreining á milli einstaklinga en honum ber að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál um leiðir sem eru færar innan stjórnsýslu og hjá dómstólum. Þar sem Umboðsmaður er svo nýlega tekinn til starfa þegar þessi skýrsla er rituð er ekki enn hægt gera grein fyrir eða meta árangur af starfi hans en verður það gert í næstu skýrslu Íslands.

25. grein

93. Vísað er til 405.-432. málsgreinar annarrar skýrslu Íslands til upplýsinga um kosningar og kosningafyrirkomulag til Alþingis og sveitarstjórna. Stendur löggjöf um þetta efni, þar á meðal um kjörgengi og kosningarétt óbreytt. Ekki hefur verið kosið til Alþingis frá því að síðasta skýrsla Íslands var gerð en næstu Alþingiskosningar verða vorið 1995.

94. Sveitarstjórnarkosningar fóru fram vorið 1994 og var þátttaka í þeim 86%
Þess má geta að sveitarfélögum hefur fækkað nokkuð frá því að önnur skýrsla Íslands var rituð. Þannig voru 197 sveitarfélög á landinu 1. október 1992, en 1. janúr 1995 hafði þeim fækkað niður í 169. Þetta er í samræmi við þá stefnu að fækka sveitarfélögum með því að sameina minni sveitarfélög úti á landsbyggðinni.

95. Á undanförnum mánuðum hefur mikil opinber umræða orðið um þörf þess að leiðrétta kosningalögin og afnema misræmi í vægi atkvæða eftir búsetu. Er þessu misræmi lýst í 414.-416. málsgrein annarrar skýrslu Íslands. Ekki hefur þó enn náðst samstaða um breytingar á kosningalögunum og er því óvíst að nokkrar breytingar í þessa átt verði á næstunni.

96. Ekki hafa orðið breytingar á reglum um aðgang manna að opinberu starfi frá gerð annarrar skýrslu Íslands, að öðru leyti en því að Samningurinn um Evrópska Efnahagssvæðið, EES, hefur tekið gildi. Samkvæmt honum eru rýmkaðar reglur um rétt útlendinga frá EES-löndum til þess að starfa í þjónustu ríkisins.

26. grein

97. Eins og lýst er í 428.-432. málsgrein annarrar skýrslu Íslands er íslensk stjórnskipan og löggjöf byggð á því grundvallarsjónarmiði að allir séu jafnir fyrir lögunum. Þótt þessi regla sé talin ein af hornsteinum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar hefur hún fram til þessa ekki birst berum orðum meðal mannréttindaákvæða hennar, heldur hefur verið litið á hana sem óskráða grundvallarreglu.

98. Skortur á skýrlega orðaðri jafnræðisreglu meðal mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar sætti gagnrýni, bæði á alþjóðlegum vettvangi og í innlendri umræðu. Til að ráða bót á þessu er sérstakt ákvæði í breytingunum á stjórnarskránni sem verður 1. mgr. 65. gr. hennar. Þar segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Kemur fram í skýringum við ákvæðið að full ástæða þyki til að orða jafnræðisregluna skýrlega meðal annarra mannréttindaákvæða í stjórnarskránni og sé það meðal annars til samræmis við 26. gr. samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þar kemur einnig fram að mikilvægi jafnræðisreglunnar felst ofar öllu í því að vera almenn leiðbeiningarregla um bann við mismunun sem ber ávallt að hafa að leiðarljósi. Það eigi ekki einvörðungu við í tengslum við lagasetningu heldur einnig við skýringu og beitingu laga svo og annarra stjórnarskrárbundinna mannréttindaákvæða. Hún geti þó að sjálfsögðu haft bein og ótvíræð áhrif að því leyti að ef til dæmis ákvæði í almennum lögum felur í sér mismunun sem brýtur í bága við þessa reglu, gæti það leitt til þess að ákvæðinu yrði vikið til hliðar fyrir þessar sakir. Atriðin sem bannað er að byggja mismunun á og talin verða í þessu nýja stjórnarskrárákvæði taka að miklu leyti mið af orðalagi áðurnefndrar 26. gr. Alþjóðasamningsins um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi. Ekki er ætlast til að litið verði á þessi atriði sem tæmandi talningu enda er vísað til stöðu manna að öðru leyti.

99. Jafnræðisreglan birtist í dreifðum ákvæðum í íslenskri löggjöf en aukin tilhneiging hefur orðið á síðustu árum, að orða hana sérstaklega í ýmsum sérlögum. Eitt mikilvægasta ákvæðið frá síðustu árum þar sem jafnræðisreglan er skýrlega orðuð, er án efa 11. gr. stjórnsýslulaganna nr. 37/1993 sem kveður á um að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Fram til lögfestingar stjórnsýslulaganna hafði verið byggt á þessari reglu í framkvæmd, sem óskráðri grundvallarreglu, líkt og átti við um aðrar reglur um málsmeðferð í stjórnsýslunni.

27. grein

100. Varðandi 27. grein samningsins hafa engar sérstakar lagabreytingar eða aðgerðir átt sér stað frá gerð annarrar skýrslu Íslands. Árétta má að vart er hægt að tala um tilvist minnihlutahópa af ákveðnu tagi í íslensku þjóðfélagi, enda er þjóðfélagið í reynd frekar einsleitt. Engar hömlur eru þó settar á réttindi slíkra hópa í íslenskum lögum sem brjóta gegn 27. grein samningsins.

101. Frá gerð annarrar skýrslu Íslands hefur útlendingum á Íslandi farið nokkuð fækkandi. Þann 1. desember 1994 voru 4.715 erlendir ríkisborgarar búsettir í landinu, eða u.þ.b. 1.8% af heildarmannfjölda. Af útlendingum á landinu var um þriðjungur frá hinum Norðurlöndunum og um þriðjungur frá öðrum Evrópulöndum. Á sama tíma voru á landinu 6.652 íslenskir ríkisborgarar fæddir erlendis, en hafa ber í huga að inni í þeirri tölu eru bæði þeir sem fæddust íslenskir ríkisborgarar erlendis og útlendingar sem hafa flust hingað til lands og gerst íslenskir ríkisborgarar. Eftirfarandi eru nánari tölfræðiupplýsingar um fjölda útlendinga á Íslandi og hvaðan þeir koma.

Mannfjöldi 1. desember 1994 eftir fæðingar- og ríkisfangslandi
Mannfjöldi alls 266.786  
  Fæðingarland Ríkisfangsland
     
Ísland 256.201 262.071
Önnur lönd 10.585 4.715
     
Norðurlönd 4.690 1.581
Danmörk 2.178 1.027
Finnland 101 67
Færeyjar 374 .
Grænland 36 .
Noregur 733 299
Svíþjóð 1.268 188
     
Önnur Evrópulönd 2.987 1.631
Albanía 1 1
Austurríki 59 30
Belgía 39 29
Bosnía-Herzegóvína - 4
Bretland 626 340
Búlgaría 33 21
Eistland 9 12
Frakkland 169 82
Grikkland 7 4
Holland 111 91
Írland 49 41
Ítalía 55 26
Júgóslavía 179 116
Króatía - 18
Lettland - -
Litáen 12 10
Lúxemborg 65 -
Malta 1 1
Portúgal 39 36
Pólland 282 246
Rúmenía 4 1
Rússland, Sovétríkin 99 68
Slóvenía - 2
Spánn 114 62
Sviss 65 24
Tékkland, Tékkóslóvakía 57 39
Ungverjaland 51 35
Úkranía - 7
Þýskaland 861 285
Evrópa, ótilgreint land - -
     
Ameríka 1.526 741
Bandaríkin 1.188 595
Brasilía 14 15
Chile 23 12
Guatemala 26 6
Kanada 159 53
Kólombía 35 17
Mexíkó 19 8
Perú 15 9
Önnur lönd í Ameríku 47 26
     
Afríka 207 96
Alsír 12 5
Eþíópía 15 -
Grænhöfðaeyjar 21 13
Kenía 17 3
Marokkó 36 19
Suður-Afríka 46 33
Önnur lönd í Afríku 60 23
     
Asía 1.068 587
Filippseyjar 249 162
Indland 79 21
Indónesía 67 2
Írak 6 3
Íran 12 6
Ísrael 21 6
Japan 23 7
Jórdanía 10 3
Kína 73 44
Suður-Kórea 28 4
Líbanon 20 6
Srí-Lanka 85 2
Sýrland 11 9
Taíland 195 194
Tyrkland 24 7
Víetnam 124 95
Önnur lönd í Asíu 41 16
     
Eyjaálfa 107 78
Ástralía 51 33
Nýja-Sjáland 56 45
     
Án ríkisfangs - 1




FYRIRVARAR

102. Vegna lagabreytinga sem aðlöguðu íslenska löggjöf að ákvæðum samningsins hafa nú verið felldir niður tveir fyrirvarar sem gerðir voru af Íslands hálfu við ákvæði samningsins. Þetta voru fyrirvarvar við 8. grein, 3. málsgrein a-lið og við 13. gr. samningsins.

103. Eftir standa fyrirvarar við þrjá ákvæði samningsins. Þeir varða eftirfarandi ákvæði:
- 10. grein 2. málsgrein b-liður og síðari málsliður 3. málsgreinar að því er tekur til aðgreiningar ungra fanga frá öðrum.
- 14. grein 7. málsgrein um endurupptöku dæmdra mála
- 20. grein 1. málsgrein um bann við stríðsáróðri
Ekki eru uppi fyrirætlanir um að afnema ofangreinda fyrirvara. Er vísað til sjónarmiða sem koma fram í fyrirvörunum sjálfum og standa þau óbreytt.





Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta