Viðurkenningar á sameiginlegum umsýslustofnunum
Viðurkenningar á sameiginlegum umsýslustofnunum
Samkvæmt höfundalögum þarf alltaf að afla heimildar rétthafa til opinberrar dreifingar á höfundaréttarvörðum verkum eða til að gera þau aðgengileg almenningi á annan hátt. Til dæmis þegar tónlist er leikin í útvarpi eða þegar kennsluefni er ljósritað til dreifingar í skólum.
Það getur þó verið vandasamt og jafnvel ógerlegt fyrir notendur að afla samþykkis frá hverjum og einum höfundi í hvert sinn sem þetta er gert. Til að einfalda málið hefur verið sett upp kerfi um svokallaða sameiginlega umsýslu höfundaréttar.
Sameiginleg umsýsla höfundaréttar gengur út á að hafi samningar við „sameiginlegar umsýslustofnanir á sviði höfundaréttar“ (umsýslustofnanir) verið gerðir er stórnotendum heimilt að nota vissar tegundir höfundaréttarvarinna verka. Á það bæði við um verk rétthafa sem eiga aðild að viðkomandi umsýslustofnunum og rétthafa sem standa utan þeirra. Þeim síðarnefndu er heimilt að segja sig frá slíkum samningum en geri þeir það ekki eiga þeir að njóta sömu kjara og félagsbundnir rétthafar. Dæmi um umsýslustofnanir á sviði höfundaréttar hér á landi eru STEF, Myndstef, Innheimtumiðstöð rétthafa (IHM), Fjölís og Rithöfundasamband Íslands (RSÍ).
Viðurkenning ráðherra skilyrði
Samtök rétthafa sem stofna til samninga af þessu tagi annast innheimtu höfundaréttargjalda og úthluta þeim til rétthafa. Til þess þurfa þau að hafa viðurkenningu ráðherra og teljast þá sameiginlegar umsýslustofnanir í skilningi laga nr. 88/2019. Um slíkar viðurkenningar gilda ákvæði reglugerðar nr. 821/2021. Viðurkenning ráðherra er háð því að samtökin séu í forsvari fyrir verulegan hluta höfunda tiltekinna verka sem notuð eru hér á landi. Einnig þarf viðurkenningu ráðherra til ýmissar annarrar umsýslu þóknana eða bóta skv. höfundalögum.
Dæmi: Innlend útvarpsstöð, sem gert hefur samning við STEF, má miðla innlendri og erlendri tónlist án þess að afla samþykkis frá hverjum og einum lagahöfundi. Þetta á við hvort sem lagahöfundar eiga aðild að STEFi eða ekki. STEF annast svo innheimtu höfundaréttargjalda og úthlutar þeim til rétthafa.
Hérlendar umsýslustofnanir 2025
Eftirfarandi rétthafasamtök hafa viðurkenningu ráðherra, á grundvelli laga nr. 88/2019, til sameiginlegrar umsýslu höfundaréttinda hér á landi:
- Fjölís vegna
- samningskvaðasamninga um ljósritun og aðra fjölföldun prentaðs máls í menntastofnunum og ýmsum öðrum stofnunum og fyrirtækjum, sbr. 18. gr. höfundalaga. Viðurkenningin nær ekki til samningskvaðasamninga um rafbækur eða hljóðbækur, kvikmyndir eða tónlist, annarra en nótna og söngtexta.
- Myndstef vegna
- samningskvaðasamninga sem heimila söfnum að gera eintök af verkum í safni sínu og að gera þau aðgengileg almenningi, sbr. 12. gr. b höfundalaga.
- samningskvaðasamninga sem heimila aðilum að endurbirta listaverk í almennu fræðsluefni, í sambandi við gagnrýni og vísindalega umfjöllun í fjárhagslegum tilgangi, sbr. 3. mgr. 14. gr. höfundalaga.
- samningskvaðasamninga sem heimila útvarpsstöðvum að senda út myndverk sem falla undir höfundavernd og sem teljast útgefin í skilningi höfundalaga, skv. 1. mgr. 23. gr. höfundalaga.
- lögbundinnar innheimtu vegna fylgiréttargjalds, sbr. 5. mgr. 25. gr. b. höfundalaga.
- Rithöfundasamband Íslands vegna
- samningskvaðasamninga um flutning íslenskra ritverka, þ.m.t. þýðingar og íslensk ritverk á erlendum tungumálum, annarra en fræðirita og kennslubóka, skv. 1. mgr. 23. gr. höfundalaga.
- samningskvaðasamninga við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, vegna miðlunar íslenskra ritverka, annarra en kennslubóka og fræðirita, í safnverkum á stafrænu formi, sbr. 2. mgr. 26. gr. a, sbr. einnig 17. gr. höfundalaga, að undanskildum myndverkum.
- STEF vegna
- samningskvaðasamninga um flutning tónverka í útvarpi og annan opinberan flutning að því er varðar réttindi tón- og textahöfunda, sbr. 1. mgr. 23. gr. höfundalaga.
- Innheimtumiðstöð rétthafa (IHM) vegna
- umsýslu bóta fyrir eintakagerð til einkanota, sbr. 11. gr. höfundalaga
- samningskvaðasamninga um endurvarp verka sem er útvarpað í gegnum kapalkerfi, sbr. 23. gr. a sömu laga.
- umsýslu á grundvelli 1. mgr. 23. gr. b um heimild útvarpsstöðva til „að nota verk úr safni sínu til endurútsendingar og gera þau aðgengileg þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, sem og til þess að gera eintök af verkunum sem nauðsynleg eru í því skyni að senda þau út eða gera þau aðgengileg.“ Ákvæði 23. gr. b. gildir einungis um verk sem teljast eigin framleiðsla viðkomandi útvarpsstöðva.
Eftirfarandi rétthafasamtök starfa á grundvelli eldri viðurkenninga:
Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH) vegna umsýslu endurgjalds vegna nota hljóðrita, sbr. 2. mgr. 47. gr. höfundalaga.
Sjá einnig:
Yfirlit um lög
Yfirlit um reglugerðir
Áhugavert
Höfundaréttur
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.