Hoppa yfir valmynd

Dagur íslenskrar tungu

Markmið dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert. Þann dag eru árlega veittar viðurkenningar og verðlaun fyrir störf í þágu íslensks máls og efnt til margvíslegra menningarviðburða. 

Dagur íslenskrar tungu er einn fánadaga Íslands.

Saga dagsins

Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því fór mennta- og menningarmálaráðuneytið að beita sér árlega fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Menningarö og viðskiptaráðuneytið hefur sinnt því hlutverki frá árinu 2021.

Með þessu átaki beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu. Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar.  Menningar- og viðskiptaráðherra afhendir verðlaunin nú árlega á degi íslenskrar tungu. 

Hver var Jónas Hallgrímsson?

Skáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson (1807-1845) var með lærðustu mönnum síns tíma. Hann var með guðfræðipróf, stundaði nám í lögfræði og lauk síðar prófi í náttúruvísindum frá Kaupmannahafnarháskóla. Jónas fór í rannsóknarferðir um Ísland og skrifaði dagbækur og skýrslur um íslenska náttúru. Auk vísindastarfa var Jónas virkur í útgáfu tímaritsins Fjölnis, hann orti fjölmörg kvæði, samdi sögur og þýddi erlend skáldverk á íslenska tungu.

Jónas var mikilvirkur nýyrðasmiður og næmi hans og virðing fyrir tungumálinu gerði honum kleift að tjá hugsanir sínar og annarra í þannig búning að nýyrði yfir hluti eða hugmyndir, sem áður áttu sér ekki samsvaranir á íslensku, og ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins, (Guðrún Kvaran, 2007).

 

Myndmerki dagsins var teiknað árið 2024 af Auði Ýr Elísabetardóttur. 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta